Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Andinn og veðrið

$
0
0

Suma daga vakna ég full af orku og til í allt. Ég get afkastað alveg ótrúlega miklu þá daga og fæ jafnan á tilfinninguna að ég sé nánast óstöðvandi. Þvotturinn flýgur inn og út úr þvottavélinni og leirtauið sem safnast hefur upp hverfur eins og hendi væri veifað. Allt í einu hverfur rykið í bókahillunum og áður en ég veit af angar allt af hreinsiefnum og ekkert eftir til þess að þrífa. Þá skelli ég mér í góðan göngutúr, elda kvöldmat og enda svo daginn á því að hanga niðri á bryggju og veiða í soðið.

Svo eru það aðrir dagar þar sem ég vakna, og ég veit það um leið og ég opna augun að það er ekki vottur af orku til staðar. Þessir dagar fara aðallega í það að ganga inn í eldhús og andvarpa yfir leirtaui, andvarpa yfir því að allur þvottur er hægt og rólega að verða óhreinn og setjast svo í sófann og andvarpa yfir því að hafa ekki orku í að gera nokkuð til þess að laga ástandið.

Orkulausu dagana á ég það gjarnan til að hvæsa á fólk, ekkert viljandi, það bara gerist. Ótrúlegustu hlutir fara í taugarnar á mér og þráðurinn er óheyrilega stuttur. Þá daga sem einkennast af orku er ég brosandi og hef gaman af öllu, þráðurinn virðist vera mörg þúsund kílómetrar og ég nánast svíf um sem væri ég á bleiku skýi.

En af hverju er þessi ótrúlegi dagamunur á mér? Í dag veit ég svarið þótt lengi hafi það verið mér hulin ráðgáta. Ég vissi að það væri dagamunur á mér þannig ég fór að veita því athygli hvað væri ólíkt með dögunum annað en magn af orku sem ég byggi yfir og þá var sem rynni upp fyrir mér ljós.

Það var veðrið sem hafði þessi ótrúlegu áhrif á mig! Orkumiklu dagarnir voru undantekningarlaust þeir dagar sem sólin skein í heiði á meðan orkuminni dagarnir einkenndust af skýjum, rigningu og roki.

Ég velti fyrir mér af hverju veðrið hefði svona mikil áhrif en það svar var frekar mikið gefið. Ég veit það fyrir víst að búskapur D-vítamíns er af skornum skamti í mínum líkama og sá skortur getur valdið því að ég fell niður í hálfgert þunglyndi og það veit það hver maður að þunglyndur einstaklingur kemur ekki miklu í verk þegar þunglyndisskýið sveimar yfir.

Auðvitað er lítið vandamál að koma í veg fyrir þetta með því að taka D-vítamínið daglega til að halda búskapnum í góðu jafnvægi en þar sem ég er oft á tíðum heldur utan við mig þá man ég alls ekkert alltaf eftir því að taka það. Það gerir það að verkum að þegar það sést ekki til sólar þá er orkan ekki til staðar.

Það allra besta D-vítamín sem völ er á kemur nefnilega beint frá sólinni og geislar sólarinnar virðast hafa tafarlaus áhrif á mig.

Það er ótrúlega gott að vita þetta um sjálfan sig því þá er hægt að haga lífi sínu svolítið í samræmi við það. Ég veit til dæmis í dag að þegar það kemur sólardagur þá er gott fyrir mig að reyna að afkasta sem mestu svo að sólarlausu dagarnir verði ekki eins þungir. Það hefur nefnilega ekkert allt of góð áhrif á sálarlífið að vera nett þunglyndur og með allt á hvolfi í kringum sig. Það er nánast áskrift að grátkasti uppi í rúmi yfir því hvað ég get verið gagnslaus.

Lykilorðið er sem sagt sjálfsþekking. Við erum nefnilega ekkert öll eins og fjölbreytileikanum ber að fagna og það geri ég svo sannarlega. Eftir að ég horfðist í augu við það að mig skortir D-vítamín og ég hef ekki athygli til að muna eftir því að taka það alltaf þá fór boltinn fyrst að rúlla af alvöru hvað þetta snertir.

Núna nýti ég orkumiklu dagana til fulls þannig að þegar það koma orkuminni dagar þá er ekkert á heimilinu sem liggur á að gera. Þá daga get ég reynt að muna eftir því að gleypa D-vítamínið og slappað af á meðan ég bíð eftir því að það byrji að virka. Grátköstin uppi í rúmi eru liðin tíð og í dag leiði ég ekki einu sinni hugann að því að ég sé gagnslaus, enda er ég það alls ekki þegar allt kemur til alls.

Ég ákvað að skrifa þessa grein því ég er alveg viss um að það er einhver þarna úti sem reglulega upplifir þessa orkulausu daga en er ekki viss um af hverju þeir stafa. Það er ekkert víst að það sé endilega sólarleysi um að kenna þó að það séu góðar líkur á því þar sem stór hluti Íslendinga þjáist af D-vítamínskorti, enda er sólin langt frá því að vera fastagestur á okkar fagra fróni.

Boðskapurinn er að læra inn á sjálfan sig, þekkja takmarkanir sínar og vinna í kringum þær eða með þær. Það standa lausnir og opnar dyr fyrir hverjum þeim sem nennir að hafa fyrir því að leita að þeim, en oft þarf að leita lengi en þá er mikilvægt að gefast ekki upp. Mannfólkið er ekki sett upp eftir ákveðinni formúlu og það er ekki hægt að ætlast til þess af sjálfum sér að það sem virkaði fyrir Jón og Gunnu virki endilega á mann sjálfan.

Því segi ég: „Leitið og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upplokið verða.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283