Í þinginu hefur verið til umræðu fríverslunarsamningur við Kína. Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata hefur harðlega gagnrýnt samninginn. Birgitta vísar m.a til arðrána kínveskra ríkisfyrirtækja á auðlindum þjóða. Grípum niður í ræðu Birgittu sem hún flutti á þinginu í síðustu viku.
„Arðrán kínverskra ríkisfyrirtækja á auðlindum þjóða sem alþýðulýðveldið hefur gert fríverslunarsamninga við hefur afhjúpast hægt og bítandi en þeirra helsta aðferðafræði er á þann veg að kínverski alþýðubankinn býður hagfelld lán þó háð miklum skilyrðum. Í sumum tilfellum er skilyrðin á þann veg að kínversk ríkisfyrirtæki og undirfyrirtæki þeirra fá skilyrtan einkarétt á auðlindum þjóðanna, gasi, olíu, góðmálmum, trjám, og svo mætti lengi telja í ca 50 ár. Þess má geta að auðlindirnar eru fluttar milliliðalaust og oft með miklum tilkostnaði fyrir viðkvæm landsvæði þessara landa. Engir brauðmolar falla í skaut alþýðu þessara landa, einu brauðmolarnir lenda í vösum spilltra embættismanna og stjórnmálamanna. Hrikalegar sögur hafa heyrst frá aðbúnaði og kjörum verkafólks í þessum þróunarlöndum, löndin fyllast síðan af ódýrum kínverskum vörum og innlendar vörur eiga hreinlega ekki séns í að keppa við þessar vörur í verðlagi og mörg smærri og meðalstór fyrirtæki hafa hreinlega þurrkast út með ótrúlegum hraði á þessum slóðum.“
Birgitta hefur ennfremur áhyggjur af samningsstöðu Íslands í viðskiptum við Kína og vísaði í fyrrnefndri ræðu í bloggið Með kveðju frá Kína en Elsa Ævarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir skrifa þar athyglisverða pistla um dvöl sína í Kína:
„Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn. Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, eins konar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annars konar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum. Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhvers konar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.”