Ísland er að vaxa úr grasi sem lýsir sér meðal annars í því að Reykjavík er orðin heimsborg sem ferðamenn vilja heimsækja. Menningarborginni Reykjavík hefur verið lýst sem draumabæ listamannsins, þar sem allir eru tónlistarmenn og fólk þekkir hvað annað á götum úti. Þessar auknu vinsældir þýða meiri samkeppni um gistirými í borginni.
AirBnB er vefsíða sem gerir fólki kleift að leigja út herbergi, íbúðir eða hús. Það er nú ekkert nýtt að fólk leigi út herbergi þegar það þarf ekki nýta það sjálft, en þessi vefsíða hefur gert það mun auðveldara að finna heimagistingu. Nú er auðvelt að sjá hvernig aðstaðan er og stundum en ekki alltaf er þetta töluvert ódýrara en að vera á hóteli.
Hugmyndin á bak við AirBnB er að venjulegt fólk geti haft smá aukapening upp úr því að leigja út frá sér þegar aðstæður leyfa.
Deilihagkerfið er hugtak sem hefur verið notað um AirBnB og það snýst meðal annars um það að nýta það sem þegar er til staðar, svona eins og að bjóða einum gesti í viðbót í jólamatinn þar sem nóg er til eða að leigja vini bílinn sinn á meðan maður er í útlöndum.
Ef maður hinsvegar er alltaf að bjóða fólki í mat og rukkar fyrir eða leigir út bílinn fimm daga vikunnar, er það þá ennþá deilihagkerfi? Eða er það þá bara venjulegur kapítalismi?
Hótel eða heimagisting
AirBnB hefur ýmsa kosti og galla. Þetta getur verið leið til þess að kynnast fólki, fá ódýra gistingu og finnast eins og maður sé ‘heima’ þó maður sé gestkomandi. Maður er jafnvel meira velkominn en maður upplifir á hótelum.
Hinsvegar þá eru gallarnir líka til staðar. Þegar fólk er að rukka fyrir þjónustu þá gildir um slík viðskipti ákveðin neytendavernd. Í tilfelli gistirýma þýðir það að ákveðinn hreinlætisstuðull og eldvarnaröryggi þarf að vera fyrir hendi sem og tryggingar. Hver ber ábyrgð ef eitthvað brotnar, hver á að þrífa og sjá til þess að allt sé hreint?
Þar fyrir utan, þá er ekki sama hvort við erum að tala um einn gest á þriggja mánaða tímabili, eða þrjá gesti á viku. Gestagangur getur valdið ónæði. Ferðatöskur á hjólum, möguleg partí eða rifrildi og maður veit ekki hvað. Hvað um nágrannana? Þeir keyptu ekki eða leigðu íbúð vitandi það að íbúðin fyrir neðan yrði nýtt sem hótel, með tilheyrandi fyrirferð, mögulegu ónæði og ófyrirsjáanleika.
Í venjulegu íbúðarhúsnæði er hægt að ræða við fólk um umgengni og hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Með nýja gesti vikulega er ekki hægt að sjá fyrir hvernig umgengnin eða hávaðinn verður og ekki hægt að komast að neinu samkomulagi þar sem þetta er fólk sem kemur og fer. Þetta eru viðskiptavinir og þarna á sér stað rekstur.
Lífsins brauð
AirBnB hefur valdið hugarangri í fleiri borgum en íReykjavík. Í Reykjavík eru íbúðir leigðar frá €24 eða 3.535 kr. (fyrir tvo) upp í €248 eða 36.532 kr. á nótt fyrir tvo. Meðaltalið er €125 á nótt sem eru 18.413 krónur.
Þetta eru íbúðir sem rúma tvo, svo eitt svefnherbergi vanalega, með stofu og eldhúsi og baðherbergi. Ef við tökum meðaltalið €125 á nótt þá erum við að tala um €875 á viku og €3500 fyrir 28 daga. Vikan er sem sagt á 128.896 krónur og 28 dagar eru 515.585 krónur.
Þetta eru háar upphæðir. Ef íbúð er leigð, fyrir tvo einstaklinga í mánuð kemur það brúttó út á 500.000 á mánuði, sem er miklu meira en hægt er að fá fyrir langtímaleigu. Að sama skapi er meiri óvissa og meiri vinna fólgin í skammtímaútleigu. En hinsvegar, hálf milljón á mánuði? Það er nokkuð góður peningur.
En hvað þýðir þetta fyrir leigumarkaðinn í heild sinni? Það er meiri gróði fólginn í því að leigja út íbúðir á AirBnB heldur en til venjulegs fólks til langs tíma.
Þetta þýðir að þegar það er stöðugur straumur ferðamanna, er það góður ‘bisness’ að leigja út íbúðina á AirBnB og jafnvel hægt að ráða einhvern annan sjá um þrif og lyklaafhendingu þar sem þetta kemur samt út í gróða miðað við að leigja eign út í langtímaleigu.
Flest venjulegt fólk hefur ekki efni á að leigja íbúð á hálfa milljón á mánuði. Þetta getur haft í för með sér að leiguverð rís og framboð á leiguhúsnæði til langtímaleigu minnkar. Húsnæðisverð hækkar, því fjárfestar sjá sér hag í því að taka þátt í þessari bólu –að-kaupa-nýja-íbúð-niðri-í-bæ-og-leigja-hana-út-á-AirBnB.
AirBnB virðist því vera draumur fjárfestisins og frelsi fyrir ferðamanninn – en martröð fyrir fólk sem vill búa á þessu svæði án þess að þurfa að lifa á núðlusúpum einum saman.
Borgarmenningin
Ef flestar íbúðir niðri í bæ eru leigðar til ferðamanna og öll verslunarpláss eru lagðar undir lundabúðir og kaffihúsin breytast í Starbucks, þá erum við komin í menningarkrísu. Það þarf íbúa til að búa til menningu og þetta fólk þarf að hafa húsnæði og hafa pláss til að athafna sig og lifa lífinu.
Það er fínt að hafa ferðamenn, það er ekki spurning um það. Þetta er spurning um að hafa andrými fyrir venjulegt fólk til þess að kaupa sér til dæmis kaffibolla, spila tónlist og vera á hjólabretti. Þetta snýst um að venjulegt fólk geti búið í hjarta borgamenningarinnar án þess að það sé haft að féþúfu. Þetta er fólkið sem skapar menninguna okkar sem ferðamennirnir vilja heimsækja.
Það er stutt í það að Reykjavík breytist úr „Top ten destinations you have to see before you die“ í að vera „Top ten destinations to avoid because it’s crowded with tourists.“
Þetta er vandamál sem aðrar borgir hafa líka þurft að glíma við, svo við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessu. Til þess að hafa menningu þá þarf fólk að hafa efni á að búa við mannsæmandi leigukjör. Það þýðir að leiguverð þarf að vera skynsamlegt og ekki hærra en 1/3 af launum fólks. Það þýðir líka að fólk geti keypt íbúðir án þess að vera milljónamæringar og ef það kaupir íbúð –að það geti líklega gengið út frá því að það sé ekki að kaupa hæð á „hóteli“. Það er spurning um lífsgæði og ánægju að vakna ekki við skrölt í ferðatöskum þriðja hvern morgun á sumrin.
Barcelona, Bed and Breakfast
Í Barcelona hefur verið deilt um lögmæti AirBnB í hagkerfinu þeirra. Spurningin með AirBnB var nefnilega, hvenær hættir þessi þjónusta að vera hluti af deilihagkerfinu og byrjar að vera venjulegur kapítalismi?
Borgarstjórnin í Barcelona komst að þeirri niðurstöðu að það væri bannað að leigja út heilu íbúðirnar án þess að fá tiltekin leyfi og skrá þær sem íbúðir leigðar til ferðamanna en ekki til heimilishalds.
Þar er leyfilegt að leigja út herbergi til ferðamanna til skamms tíma en með því skilyrði að eigandi íbúðarinnar sé heima á sama tíma og að auki má hann bara leigja út herbergið ákveðið lengi á hverju ári og þetta má ekki vera aðal tekjulind eigandans.
Með öðrum orðum, til þess að leigja út á AirBnB löglega þá þarf það að vera á forsendum hugmyndafræði um deilihagkerfið. Ef þetta á að vera týpísk kapítalísk hótelgisting fyrir ferðamenn, þá er hægt að sækja um leyfi og fylgja reglum um það. Það er gert bæði til þess að vernda ferðamanninn, umhverfið í kringum gistinguna, og til þess að tekjurnar séu rétt gefnar upp til skatts.
Deilihagkerfið á að hjálpa einstaklingnum og ef það er gert rétt, þá er það fínt. Ef þetta er hinsvegar bara bisness, þá er þetta bisness og hann þarf að hlýða lögum um deiliskipulag, leyfisveitingar þarf til og auðvitað þarf að greiða af viðskiptunum skatta.
Loft, rými og pláss
Það þarf að búa vel að þeim ferðamönnum sem koma til okkar. Það þarf hinsvegar líka að sjá til þess að fólkið okkar hafi það gott og hafi efni á því að búa þar sem miðstöð menningarinnar er. Það þýðir ekki að það eigi að henda ferðamönnunum út úr miðbænum. Kannski þurfa að byggjast upp fleiri staðir á höfuðborgarsvæðinu, fleiri kjarnar, þar sem fólk fer út að skemmta sér og tónlistin fær að lifa. Það er ekkert hættulegt að dreifa því aðeins og þar með gistrýmunum líka.
Það er líka skynsamlegt að hafa velmegun íbúanna í huga þegar ákveðið er hvar ferðamenn eigi að gista. Að húsnæðisverð hækki ekki upp úr öllu valdi bara á einu svæði heldur haldist tiltölulega jafnt.
Markaðurinn er mannanna verk og við þurfum að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig við viljum að hann virki svo að hann endi ekki í hruni. Það má alveg íhuga það hvort setja eigi sérstakar reglur um heimagistingu með hugmyndafræði deilihagkerfsisins að leiðarljósi og setja þannig skýr mörk á milli þess að deila sín á milli og að vera með íbúð til leigu á kapítalískum forsendum.