Þegar eitthvað virkar ekki þá er eðlilegt að reyna að laga það ef maður telur að það sé hægt. Nema ef það tengist réttarkerfinu. Ef við reynum eitthvað annað þar, þá hrynur himinninn yfir okkur, heimurinn ferst og börn deyja.
Nú hafa samtök sem þekkt eru af góðu einu í heiminum ákveðið að styðja það að prófuð verði ný leið til að hjálpa fólki því gamla aðferðin hefur ekki reynst nógu vel. Ég styð slíka tilraunastarfsemi heils hugar. Við eigum ekki að vera hrædd við að breyta til. Fleygja því gamla og götótta og storma fram með nýjar lausnir.
Vændi er enn risastórt vandamál sem oft er falið. Svipað eins og földu auglýsingarnar sem markaðsdeild 365 nær oft að smygla inn í fréttamennskuna.
Þegar Amnesty vill afglæpavæða vændi eru það kjánaleg viðbrögð að bregðast við eins og samtökin hefðu kveikt í manni, sérstaklega í ljósi þess að vændi er enn til staðar þrátt fyrir núverandi baráttuaðferðir. Reynum eitthvað nýtt og tæklum vandamálið frá nýrri hlið.
Í seinustu alþingiskosningum kaus ég eitthvað nýtt því mér fannst ríkisstjórnin vera ömurleg. Það var áhætta því eina leiðin til að sjá hvort það nýja reynist betra er að prófa. En mér fannst hlutirnir ekki vera að virka og í stað þess að ríghalda í eitthvað sem var bilað þá tók ég sénsinn vitandi það fullvel að brugðið gat til beggja vona.
Þar hefði nú verið betra heima setið en að kjósa Guðmund Steingrímsson og Bjarta framtíð. Þvílík mistök! Ég hefði alveg eins getað kosið Debenhams sem hefði mætt niður á Alþingi með nokkrar sýningargínur í nýjustu jakkafötunum og hlammað þeim í sætin.
Þótt forystumönnum flokksins finnist aðalvandamálið vera það að boðskapurinn sé ekki að komast til kjósenda þá er það nú orðið ljóst að það er helsti kostur flokksins. Að hlusta á þennan flokk er eins og að sitja einhverja Björgvins Halldórssonar og Bubba afmælistónleika í boði Bylgjunnar því þetta fólk hefur ekkert fram að færa í dag og þeirra nýja pólitík er svo ný að það hefur ekki hugmynd um í hverju hún felst sjálf. Ég verð eiginlega bara brjálaður að hugsa um þetta. Að mér skyldi detta í hug að skipta um hest svona í miðri á þegar kannski hefði ástandið batnað með meiri tíma var það fábjánalegasta sem ég hef gert. Lengi getur vont versnað greinilega.
Það borgar sig ekki að skipta út hlutum sem hafa svo sem virkað nokkurn veginn. Maður getur kallað allt vont yfir sig og gjörsamlega klúðrað öllu fyrir sér og öðrum. Ef þér finnst ástandið vont núna þá mundu það að það getur alltaf orðið miklu verra. Þess vegna er best að berjast gegn breytingum og láta þá sem stíga fram með nýjar áherslur aldeilis heyra það.
Afglæpavæðing vændis er bara annað form pyntinga fyrir þá sem það stunda og Amnesty International veit greinilega ekkert um mannréttindi og baráttu fyrir þeim. Þeim er greinilega alveg sama um fólk. Það sem meira er, við skulum refsa þeim fyrir að vilja reyna eitthvað annað og segja okkur úr samtökunum.
Gerum ekki sömu mistök og ég gerði með því að styðja Bjarta framtíð.