ORÐ UM ÁST
Þið hafið stundum spurt mig um lífsins fögru leit
um löngun þá sem sálir okkar tengir
og ég get fundið svarið því hógvært hjartað veit
að hljómað geta ástarinnar strengir.
Við leitum að því besta svo sælan megi sjást
og samband verði bæði hlýtt og náið
svo þráum við að finna þá einu sönnu ást
sem aldrei nokkurn tíma getur dáið.
Við viljum fá að skynja í hjarta tæran hljóm,
þær hugsanir sem ná að eyða sárum,
við þráum öll að rækta og vernda vonarblóm
og vökva þau með okkar gleðitárum.
Og ég get bent á skynjun sem er svo yndisleg
að enginn getur framhjá henni gengið
og ég má sjálfsagt reyna, á leit um lífsins veg,
að lýsa því sem ég hef aldrei fengið.