Rauðrófur, grænmeti, Pólland, haust, rauðrófusúpa.
Við Rúnar maðurinn minn vorum svo lánsöm að hjón sem vinna með honum, buðu okkur afnot af íbúð sinni í boginni Torun í Póllandi. Þar sem við höfðum ekki farið þangað áður en bæði heyrt og séð á myndum að þar er mjög fallegt, þáðum við boðið með þökkum og héldum þangað nú í lok ágúst.
Gamli bærinn í Torun er á heimsminjaskrá UNESCO. Hann er sérstaklega fallegur, með ótal kirkjum og vel við höldnum byggingum, fallegum görðum og götum. Borgin er þekktust fyrir að þar fæddist Nikulás Kópernikus en hann var fyrsti stjörnufræðingurinn sem kom með tilgátuna um að jörðin snerist í kringum sólina. Þetta mundi minn maður en ég er viss um það hafi ekki verið kennt í Kópavoginum í denn. Gert er töluvert úr Kópernikusar tengingunni í borginni. Auk hans er engiferkökum gert töluvert hátt undir höfði en þær eru sagðar bakaðar eftir ævagamalli uppskrift. Nokkrar engiferkökubúðir eru í gamla bænum. Þær voru alltaf troðfullar af fólki sem keypti heilu pokana af þeim. Við slepptum því að gæða okkur á engiferkökunum þar sem við reynum að forðast sykur. Hvort sem maður var í gamla bænum eða úthverfum var það áberandi hversu snyrtilegt allt var.
Ég veit svo sem ekki á hverju ég átti von en um leið og við fórum að skoða og kynnast borginni, féllum við gjörsamlega fyrir henni. Á ferð okkar um borgina tókum við fljótlega eftir því að lítið var um erlenda ferðamenn. Við sáum enga ferðamannahópa með leiðsögumönnum.
Mannlífið í Torun var gott. Hvort sem var á veitingahúsum, verslunum eða þegar við spurðum til vegar úti á götu, þurftum stundum að spyrja þrátt fyrir GPS og kort, lögðu allir sig fram við að veita góða þjónustu eða aðstoða okkur. Nú ef fólk talaði ekki ensku var gripið til líkamstjáningarinnar eða viðkomandi rétti manni bara blað og blýant. Málinu reddað.
Ég hef aldrei farið í sérstaka verslunarferð til útlanda en maður minn hvað það var hagkvæmt og gott að versla í Torun. Ef ég á einhvern tímann eftir að fara í sérstaka verslunarferð til útlanda mun ég fara til Póllands. Eitt að því sem kom mér skemmtilega á óvart var veðrið en hefði ekki þurft að gera það ef ég hefði kynnt mér málið fyrirfram. Sól og blíða allan tímann 20°–25° stiga hiti og þannig er það frá vori og langt fram á haust sagði okkur ein innfædd.
Við fórum á mörg veitingahús. Eins og gengur voru þau mismunandi. Allt frá því að vera mjög góð niður í að vera allt í lagi. Við fengum oftast góðan mat, aldrei vondan, stundum svolítið skrítinn. En þannig á það að vera í útlöndum. Við fórum bæði inn á veitingahús sem staðkunnir höfðu bent okkur á eða bara beint af götunni.
Í íbúðinni áttum við alltaf nóg af ávöxtum og grænmeti sem við gæddum okkur á áður en haldið var út í daginn. Við keyptum það bæði á útimörkuðum og í stórmarkaðinum í hverfinu okkar. Við vorum sammála því hjónin að ávextirnir væru sérstaklega ferskir og góðir.
Fyrir ísista eins og Rúnar, er gamli bærinn í Torun íshimnaríki. Aldrei hef ég séð eins margar ísbúðir á einum stað. Og aldrei hef ég séð jafn margt fólk ganga um með ánægjubros og borða ís. Þarna voru margir smartir ísstaðir, þar sem hægt var að setjast niður og fá girnilega ísrétti, kaffi og vínglas. Við duttum inn í ísstemninguna, einn ís á dag. já, já þrátt fyrir að við reynum eftir bestu getu að sneiða hjá sykri. Við hjónin værum örugglega fastagestir á slíkum stað ef hann væri til staðar í höfuðborginni okkar.
Ég geri það iðulega eftir góð frí að færa upplifunina af ferðinni heim í eldhúsið okkar, til að leyfa hinum í fjölskyldunni sem ekki fóru með að bragð á landinu. Ég er svo sem ekki neinn sérfræðingur í pólskri matargerð en veit þó að rauðrófusúpan er í hávegum höfð. Hún er m.a. einn af þeim tólf réttum sem boðið er upp á á pólskum heimilum á jólunum. Já tólf réttir maður minn lifandi. Það byggir á að postularnir eru tólf, einn réttur fyrir hvern postula. Rauðrófusúpan er samt sem áður borðuð allan ársins hring. Ég ákvað því með leiðbeiningum frá pólskri kunningjakonu að útbúa þessa bráðhollu súpu.
body{behavior:url(„/w/static/1.26wmf21/skins/Vector/csshover.min.htc“)}
Rauðrófusúpa
Eða barszcz á pólsku
Innihald:
- 1 lítri vatn.
- 500 g rauðrófur.
- Ég notaði lífrænar.
- 4 stk. meðal stórar gulrætur.
- Ég notaði lífrænar.
- 3 stk. sellerí stönglar.
- Ég notaði lífrænt.
- 3 stk. hvítlauksrif.
- ½ blaðlaukur.
- 1 stk. laukur.
- 20 g smjör.
- 2 msk. olía.
- 2 stk. lárviðarlauf.
- 1 stk. sítróna.
- 3 msk. rauðvínsedik.
- 2 msk. majoran.
- Salt og pipar.
Ofan á:
- Sýrður rjómi 36%.
- Lava eða flögu salt.
- Steinselja.
Aðferð:
- Þvoið og flysjið allt grænmetið.
- Skerið niður í bita.
- Setjið smjör og olíu í pott og bræðið við lágan hita.
- Bætið öllu grænmetinu út í og steikið.
- Tekur um það bil 15 mín.
- Bætið vatninu og lárviðalaufinu saman við.
- Setjið lokið á pottinn og sjóðið við lágan hita í 90 mínútur.
- Látið nú mesta hitann rjúka úr súpunni.
Ég steikti og sauð grænmetið að morgni, lét pottinn standa yfir daginn og kláraði síðan matseldina fyrir kvöldmatinn.
- Takið lárviðalaufið úr.
- Maukið súpuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota.
- Passið að það skvettist ekki út um allt þar sem það er mikill litur í rauðrófunum.
- Hitið súpuna upp að suðumarki og bætið sítrónusafanum og edikinu saman við.
- Saltið, piprið.
- Bætið majoraninu síðast út í.
Ofan á:
- Hrærið lavasalti og sýrðum rjóma saman.
- Takið steinseljuna af stilkunum
- Súpuna er hægt að borða bæði heita og kalda.
Berið súpuna fram með sýrðum rjóma og steinselju.
Njótið.