Bjarni Tryggvason skrifar:
Það eru margir til kallaðir í umræðunum um flóttamenn og sýnist hverjum sitt og setur mann hljóðan yfir mörgum þeim skoðunum sem menn viðra kinnroðalaust. Flóttafólk er sagt: hryðjuverkamenn eða ríkt pakk sem er að svindla sér inn í vesturlönd … vel klætt og hraust … (verður þú að vera í druslum og hálfdauður úr hungri til að eiga rétt á að fá hjálp?), vitlausrar trúar, (þín er sú eina rétta) og ekki síst, öfgafullt og hávært! (öngvir öfgar í því eða hvað), vanþakklátt, hrokafullt og ofsafengið.
Ok, eitthvað er þetta fólk öðruvísi en þú og kemur úr annarri menningu þar sem öðruvísi er haldið á málum, aðrar hefðir og tjáning fer fram á annan hátt, en er það aðalmálið? Ekki hættan og hörmungarnar! Mann setur hljóðan!
En byrjum aðeins á að skoða úr hverju þetta ólánsfólk er að koma og hverju það er að flýja frá. Sú skelfing sem stríð og náttúruhamfarir skapa er ekki hægt að lýsa eða ímynda sér hvað þá „fatta“ sem og svo margar hörmungar og þjáningar í þessum heimi!
Þetta er eitthvað sem þú verður að upplifa og þú losnar aldrei frá því aftur, heldur berð þetta með þér og það mun breyta þér og fá þig til að líta lífið öðrum augum og forgangsröðin þín tekur stakkaskiptum. Flóttafólk er oftast að koma úr ofantöldu og margir úr fleiru en einni ógn.
Við hér á vesturlöndum og hvað þá Norðurlöndum höfum ekki miklar forsendur til að skilja eða meðtaka hvað hefur gerst í lífi þessa fólks. Langvarandi ótti, kvíði, missir alls þess jarðneska af þínum eigum er oftast nóg til að beygja hverja manneskju til jarðar og ef þú bætir svo ofan á þetta drápum, sprengjum, ofsóknum, horfnum ástvinum, vinum eða kunningjum, ótta um líf barnanna þinna, foreldra eða elskhuga, þá ættir þú að geta fengið smá innsýn í hvað margt af þessu fólki lagði af stað með í þá þrautargöngu sem það er nú í!
En ekki er allt búið. Nú á eftir að komast burt frá lokuðu stríðshrjáðu landi, kannski frá ógn öfgafullra trúarbrjálæðinga sem í fordómum og brjálæði drepa hvað sem fyrir þeim verður, eða mansalsgengja sem notfæra sér hörmungar og upplausn til að maka krókinn og ræna konum og börnum til mansals. Mannsmyglarar eru ekki mjúkir og hjálpsamir menn og hættur og dauði er við hvert fótmál.
Ef þú svo kemst lifandi frá landinu og drukknar ekki eða ert drepinn vegna trúarbragða eða peninga þá áttu eftir að takast á við kaldlynt og oft ómanneskjulegt regluverk vesturlanda, Dublinar-sáttmálann og ekki síst trúarofstæki, fordóma, hatursumræðu, hráka, spörk og annað það sem „kristnir góðborgarar“ finna upp á til að tjá kærleik sinn, manngæsku og samúð.
Ekki get ég sett mig í spor þessa fólks þótt ýmislegt hafi gengið á í mínu annars verndaða lífi og ég veit ekki hvernig það fer að, til að þola þessa þrautargöngu,sem farin er til að finna sér og sínum stað, þar sem er friður og öryggi, en eitt er ég viss um, að það er ekkert „létt“ við þessa ferð! Endalaus kvíði og óvissa, hindranir, veggir, lögregla, hermenn, upplausn, óreiða og hafsjór af hræddu, æstu og örvæntingarfullu fólki og ekki síst áðurnefnt „kristið þel“ meðbræðranna.
Sem betur fer þá er á leiðinni líka gott og hjálpsamt fólk sem tekur á móti, hjálpar þér áfram og fæðir þig og sendir þér bros eða samúðarfullt augnaráð og efalaust telur allt svoleiðis þegar ógnir steðja að! En margt fólk er fljótt að dæma og fordómar, hræðsla og trúarbrjálæði er alls staðar á meðal okkar eins sorglegt og það nú er. Ég hef lesið statusa þar sem fólk er hrætt um að flóttafólkið steli vinnunni frá okkur!
Afsakið! Ef niðurbrotið fólk á barmi taugaáfalls, mállaust, sambandslaust, heimilislaust og peningalaust getur tekið „djobbið“ þitt þá átt þú ekki skilið að hafa það!
Ég hef lesið statusa þar sem spurt er: hvar eru allar konurnar og börnin? Kommon, hugsa smá!
Ótrúlegur fjöldi kvenna og barna er á þessum flótta og hrakningum en ég get samt ímyndað mér að flestar fjöldskyldur reyni að senda hæfasta og sterkasta einstaklinginn, sem oftast er þá faðirinn eða sonur, af stað til að finna fyrirheitna landið því ekki er auðvelt að komast til landa sem ekki annaðhvort senda þig til baka eða setja þig í flóttamannabúðir sem er næstum það sama og hægfara dauði og tortíming. Vegna Dublinar-sáttmálans þá átt þú að festast í fyrsta landinu sem þú kemur til en lönd eins og til dæmis, Ungverjaland, Lýbia, Tyrkland og fleiri eru ekki óskalönd fólks sem er á flótta frá þessu brjálæði sem er í gangi þarna.
Þess vegna þarf einstakling sem er sterkur og hraustur, þol- og ráðgóður og ekki síst tryggur fjöldskyldunni því það kemur í hans hlut að berjast oft vonlausri og langdreginni baráttu við hægfara kerfið til að fá fjöldskylduna samþykkta og flutta til þess lands sem hann náði að komast til. Og mörg eru landamærin, löggurnar, herirnir sem hann þarf að komast framhjá og ekki eru allar konur, börn og gamalmenni í stakk búin til að takast á hendur svona svaðilfarir.
Þess vegna bíður fjölskyldan í hryllingi flóttamannabúða uppá von og óvon, eftir fréttum og leyfi til að fara í þá ferð sem kemur þeim í öryggi og frið! En nei, það eru ekki allir þess umkomnir að geta hugsað þetta lengra en nef þeirra nær og í hræðslu, fordómum og oft trúaröfgum þá er þetta trúgjarna fólk tilbúið að forna öllum góðum hefðum og gildum til að næra fáfræðimyndað hatur sitt og mannillsku!
Ef einhver er í hættu eða við það að deyja þá spái ég ekki í hverrar trúar hann er eða hvort hann dreymi um betri tennur eða bara von um öryggi, heldur reyni ég allt til að bjarga honum og síðan kemur restin í ljós þegar um hægist.
Líf er dýrmætt og ekkert getur afsakað þann sem lítur undan þegar meðbræður hans eru hætt komnir eða við dauðans dyr og réttir ekki út höndina til hjálpar. Heldur snýr baki í og öskrar trúar eða hræðsluáróður út í loftið til að fá fleiri til að loka augunum eða snúa bakinu í nauðstadda! Þetta fólk er með mjög lágt siðferðisþrek og á mjög lágu mannlegu plani og fer best á að forðast orðaskipti við þetta fólk því í gegn um þokuna sem umlykur það er oft erfitt að ná og yfirleitt vita gagnlaust, því oft er grunnt á hugsun og kærleikurinn sofnaður!
Vona að einhver vakni við þessi skrif og haldi af stað til að vekja fleiri. Annars er ég bara góður og vona að ást og friður umlyki sem flesta.