Fjármálaráðherra hefur kynnt áætlanir ríkisstjórnarinnar um sölu bankanna. Lýsir hann því yfir að hann telji heppilegast að ríkið minnki eignarhlut sinn úr 98% niður í 40%. Það á að duga til að tryggja ríkinu ráðandi hlut. En 60% eiga að vera í eigu annarra aðila og tryggja á dreift eignarhald. Hlutafjáraukning getur hins vegar auðveldlega rýrt eignarhlutfall ríkisins þannig að hlutur þess verði ekki ráðandi. Auðvelt er að koma bankanum í hendur samstæðna fjárfesta sem fara fram á hlutafjáraukningu sem minnkar hlut ríkisins jafnvel þannig að ríkið verði einungis farþegi í stjórn bankans.
Hagkerfið er á uppleið og Landsbankinn einnig
Gera má ráð fyrir að hitna fari í hagkerfinu á næstu misserum og árum. Sem dæmi um þetta þá má benda á að áætlaðar tekjur ríkisins af vörugjöldum ökutækja við innflutning aukast úr 6.060 í 7.180 milljónir eða um 18% og er – „búist við kröftugum vexti í einkaneyslu landsmanna á næstu tveimur árum.“ (Fjárlög íslenska ríkisins 2016, bls. 9). Þetta dæmi sýnir að bankastarfsemi verður að öllum líkindum arðbær rekstur á næstu misserum.
Landsbanka Íslands hefur fyrir tilstuðlan skuldaleiðréttingarinnar áskotnast gnótt lausafjár. Þessir peningar gufuðu ekki upp þótt ríkisjóður hafi greitt þá út. Vissulega skánuðu horfur margra heimila við þetta en bein afleiðing er samt að fjármunirnir enda í höndum bankans. Skuldaleiðréttingin hefur skilað bankanum 21 milljarði króna sem aftur skilar sér í töluvert bættri lausafjárstöðu ásamt betri lánasamningum í eignarsafn bankans.
Landsbankinn hefur verið að kaupa upp sparisjóði landsins, nú seinast Sparisjóð Vestmannaeyja. Sparisjóðurinn starfrækti fimm útibú og eru þau nú hluti af Landsbankanum.
Hvers vegna núna?
Vegna þess sem að ofan greinir fer ekki hjá því að sú spurning vakni hvers vegna ráðlegt sé að selja bankann núna, ekki síst í því ljósi að til stendur að aflétta gjaldeyrishöftum á næstunni og þess er skammt að bíða að stöðugleikaskatturinn byrji að streyma í ríkissjóð. Það innstreymi á eftir bæta skuldastöðu ríkissjóðs til muna eða um 680 milljarða króna samkvæmt áætlunum.
Áætluð skuldastaða ríkisjóðs árið 2015 er 1.348 milljarðar króna. Af þessari fjárhæð verður vaxtakostnaður ríkisins um 70 milljarðar. Að því gefnu að skuldastaða ríkissjóðs lækki um 680 milljarða vegna stöðuleikaskattsins standa eftir 668 milljarðar. Af þeirri upphæð fellur til vaxtakostnaður sem nemur um 34 milljörðum. Miðað við arðgreiðslur frá Landsbankanum til ríkisjóðs árið 2014 og horfur á bata í hagkerfinu ætti arður af Landsbankanum að geta nánast einn og sér dekkað þá vexti sem eftir standa, en þá gefst tækifæri til að einhenda sér í að borga niður höfuðstól lánanna.
Milljörðum fórnað fyrir skyndigróða
Margt bendir til þess að mjög óráðlegt sé að selja þá gullgæs sem Landsbankinn verður sennilega á næstu árum. „Gert er ráð fyrir að arður af eignarhlutum ríkissjóðs í viðskiptabönkunum lækki samtals úr 25,6 mia. kr. í 8,0 mia. kr. Áætlunin er byggð á forsendum um 8% arðsemi og 40% útgreiðslu arðs“ (Fjárlög íslenska íkisins 2016, bls. 200). Þetta þýðir í raun að íslenska ríkið verður af 17,6 milljarða árlegum tekjum í skiptum fyrir skyndigróða vegna sölu Landsbankans á tímapunkti þar sem töluverður hagvöxtur er í landinu og bankastarfsemi í þann mund að blómstra ef að líkum lætur.
Væri ekki skynsamlegra að halda bankanum og arðgreiðslum frá honum inn í ríkisfjárhagnum þar til gert hefur verið upp við slitabú gömlu bankanna? Eru ekki forsendur fyrir þvi að bankinn blómstri áfram og verði verðmætari eign að nokkrum árum liðnum? Svo ekki sé minnst á fjármunina sem kostaði að reisa hann upp frá dauðum í hruninu. Er ekki gáfulegra að halda í bankann til að tryggja efnahagslegan stöðugleika á meðan verið er að setja krónuna á flotgengi við losun gjaldeyrishafta?
Mér finnst maðkur í mysunni. Hvað finnst þér?