Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þökk sé skorti á lögreglumönnum eru fáar löggur óánægðar

$
0
0

Ef einhvern tíma er góður tími til að skipta um starfsvettvang og gerast glæpamaður er það núna. Lögreglan er verulega óánægð, illa launuð og allt of fáliðuð.

Ég finn ekki til mikils öryggis með óánægða og fátæka lögreglumenn á vakt. Þá er það kostur hve fáliðuð hún er. Það þýðir að það eru færri pirraðir lögreglumenn með fjárhagsáhyggjur þarna úti.

Því miður er lögreglan, eins og allar aðrar stéttir sem vinna við að hjálpa fólki, ekki hátt skrifaðir hjá ríkinu. Stjórnmálamenn tala oft um mikilvægar grunnstéttir sem allt samfélagið byggist á en í raun finnst stjórnmálamönnum þetta vera varnarlausir aumingjar sem hægt er að þræla út fyrir lítinn pening. Það eru skilaboðin sem þessar stéttir fá reglulega sama hvort um er að ræða löggæslufólk, heilbrigðisstéttir eða kennara.

Það er kannski margþætt hvað veldur því að lögreglan sé svona fjársvelt. Ég hef eina kenningu sem er jafn góð og hver önnur. Hún er sú að með auknu framlagi til lögreglunnar þá fer eitthvað af því í að efla getu hennar til að fást við fjármála- og efnahagsbrot. Það er ríkisstjórnarflokkunum tveimur beinlínis í óhag að lögreglan geti rannsakað hvítflibbabrot að einhverju ráði. Ef lögreglan fær eitthvert fé þá verður það sennilega eyrnamerkt einhverjum sérstökum málaflokki. Kannski er hægt að skera meira niður hjá sérstökum saksóknara og setja í rannsókn á innbrotum í sundlaugar úti á landi.

Lögreglan sjálf hefur fengið talsvert af gagnrýni á sig að undanförnu. En á meðan hún er eins fjársvelt og raun ber vitni þá er ekki sanngjarnt að kenna henni algjörlega um það sem farið hefur úrskeiðis. Fólki sem líður ekki vel í vinnunni er ekki treystandi til að gera sitt besta. Besta fólkið í starfið sækir ekki um ef starfið er illa launað og landið er stórt og verður ekki vaktað af örfáum hræðum svo vel sé. Það er því eiginlega hægt að segja að löggæslan er í molum. Vafalaust eru til fleiri hundruð blaðsíðna skýrslur um það á skrifborðum stjórnmálamanna landsins.

Gallinn er bara sá að lögreglumenn skapa ekki tekjur. Ekki nógu fljótt og bólumyndandi eins og stjórnmálamenn sem kosnir eru á fjögurra ára fresti vilja. Þeir sjá þessar stéttir bara sem endalausan kostnað og að peningum sé nánast fórnað þegar þeir eru settir í þessa málaflokka. Það stafar þó fyrst og fremst af því að stjórnmálamennirnir okkar hugsa fyrst og fremst um sinn eigin hag. Sitt starf og persónulegan metnað. Það er sáralítil hugsun til framtíðar því miður.

Stóriðja, virkjanir og öllu skal rústað strax fyrir peninga núna! – er stefnan. Fólkið sem þarf að glíma við afleiðingarnar er ekki fætt ennþá og skiptir ekki máli.

Það sér það hver hugsandi maður að hver einasta króna sem fer í það að mennta fólk, hlúa að heilbrigði þess og vernda það og eigur þess, hjálpa og sjá til að samfélagið gangi vel fyrir sig skilar sér á endanum margfalt til baka. Vel menntað og heilbrigt fólk sem getur unnið, elskað og leikið sér í öruggu umhverfi er lykillinn að því að samfélagið gangi upp.

Það er bara fljótlegra að henda peningum í steypu og skammtímalausnir þegar maður er bara að stilla upp einhverjum sýndarveruleika af því hvað hér sé allt frábært til að vera kosinn aftur. Þegar allt hrynur og fer í klessu er öðrum bara kennt um, helst útlendingum og hent í nýjar skammtímalausnir.

Það væri óskandi að hægt væri að láta þingmenn vinna lögreglustörf í mánuð og fá 63 af lífsreyndari lögreglumönnum landsins til að sitja á Alþingi á meðan. Ég hugsa að allir hefðu gott af því og þá við almennir borgarar sérstaklega.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283