Á Heimkoma Harolds Pinter erindi til nútímamanna? Verkið var frumflutt í Bretlandi fyrir fimmtíu árum og vakti gríðarlega athygli, gott ef ekki hneykslan og átti þátt í að magna frægð höfundarins sem á endanum hlaut Nóbelinn árið 2005 fyrir að hafa “flett ofan af hyldýpinu undir hversdagshjalinu og brotist inn í hina luktu klefa kúgunarinnar” – svo vitnað sé í nóbelsverðlaunanefndina.
Og víst hefur Harold Pinter flett ofan af mörgu hversdagshjalinu og sýnt hvernig orð leyna á sér; í fyrstu á súrrealískan máta með rætur í absúrdismanum, síðar í pólítískum hugsjónum á vinstri vængnum.
Heimkoman segir frá hjónunum Teddy og Ruth (Ólafur Egill Egilsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir) sem birtast á bernskuheimili hans; Teddy fór að heiman, braust til náms og varð heimspekiprófessor í Ameríku og er nú kominn til að kynna eiginkonu sína fyrir föðurnum, slátraranum Max (Ingvar E. Sigurðsson) og yngri sonum hans, bræðrunum Lenny og Joey (Björn Hlynur Haraldsson og Snorri Engilbertsson). Á heimilinu býr einnig bróðir Max, bílstjórinn Sam (Eggert Þorleifsson). Þetta heimili byggir á ofríki karla og óhætt að segja að ýmsu sé ábótavant í viðhorfum þeirra til kvenna svo ekki sé meira sagt og allt sem viðkemur listinni að vera mannlegur hlutgert – ísmeygilega, undirfurðulega, falið í huliðsþoku minninga; en minningin um eiginkonuna og móðurina er meginstef í þessu karlasamfélagi. Þegar Teddy og Ruth birtast óvænt – rétt eins og hverjir aðrir leikhúsgestir! – fara hjól hins vélræna, kerfisbundna og ofbeldisfulla karlaveldis að snúast. Hver er þessi Ruth? Kona? Hóra? Móðir? Hver á hana? Og súrrealisminn breytist í grimmd. Faðirinn og bræður Teddys taka Ruth til sín og ekki verður annað skilið en hún eigi að ganga inn í hefðbundið hlutverk konunnar sem “móðir, hóra, meyja …” – svo vísað sé til texta í leikskrá. Teddy hverfur á braut niðurlægður, smáður, og skiptir litlu hvað um hann verður.
Orðræðan í verkum Pinters hefur gjarnan blæ absúrdisma en er í raun njörvuð í veruleikanum. Hún er eins og dulmál þar sem það er falið sem ekki má segja. Hún felur þau gildi þar sem skilur á milli “okkar” og “hinna” og oftar en ekki lifnar slík orðræða ekki við fyrr en leikurinn verður svo súrrealískur að áhorfandinn getur ekki lengur greint hvað verið er að segja í raun – fyrr en kemur að hinum dramatísku hvörfum og allt er orðið um seinan. Áhorfandinn líkt og leikarinn orðinn fastur í mótsögninni og veit ekki fyrri til en allt hefur óhjákvæmilega snúist í andhverfu sína. Hvað gerðist? Hvernig? Hvenær?
Súrrealismi Pinters sver sig í ætt við leikhús grimmdarinnar, en frakkinn Antonin Artaud er hugmyndasmiður þess og skrifaði höfuðverk sitt, “Leikhúsið og tvívera þess” á fyrri hluta síðustu aldar. Artaud hefur ekki farið framhjá Pinter og hann leikur sér fimlega að grimmdinni í Heimkomunni. Leikhús grimmdarinnar flettir ofan af tilgangsleysi hinnar framandgerðu manneskju og opinberar þær andstæður sem skilja á milli lífs og dauða í tilvist hennar.
Slík dramatík á auðvitað fullt erindi til nútímamannsins enda er ýmislegt í veruleikanum alveg eins súrrealískt og það getur orðið í leikhúsinu. Ekki nema gustuk að leikhúsið kenni okkur á þann veruleika og veitir ekki af. En spurningin er og verður: hvað er sagt og hvernig? Hvað er afhjúpað og hvernig? Það verður ekki ljóst fyrr en orðin eru sögð á sviðinu og persónurnar öðlast önd, sál, rödd og litaraft.
Það verður því miður að segjast eins og er, að sýning Þjóðleikhússins berst við mikinn vanda hvað þetta varðar. Hér skortir tilfinnanlega súrrealisma í rödd og æði persónanna. Súrrealisminn sem texti Pinters þarf á að halda til að öðlast raunverulegt líf – og þar með karakterarnir – verður til í list leikarans og það er hvernig leikarinn fer með replikkuna sem skilur á milli feigs og ófeigs í texta Pinters. Í sýningu Þjóðleikhússins er eins og ekki hafi verið lagt í að kafa til botns í textanum, hann er vissulega fluttur af vandvirkni og natni og af mikilli virðingu, nánast hátíðlega; auk þess tala leikarar í nánast sama tempói frá upphafi til enda, án þess að skilji á milli karaktera en fyrir vikið glatast hin dramatíska spenna og hin nauðsynlega tvíræðni fer fyrir bí.
Ég er helst á því að til magna og viðhalda spennunni í texta Pinters, hefði þurft að leika fyrri hlutann eðlilega, létt, leikandi og mun hraðar. Breytingin í seinni hlutanum þegar Ruth birtist hefði þá orðið undarleg, forvitnileg, jafnvel hættuleg. Hvörfin skýr, en ófyrirsjáanleg og spennandi. En eins og hér er, breytist ekkert með tilkomu Ruthar; niðurlæging Teddys er fyrirsjáanleg og af hverju skyldi Ruth ekki verða hlutgerð líka, rétt eins og allt annað?
Heimkoman er staðsett í óræðu rými slátrarans Max og leikmynd Barkar Jónssonar og köld iðnaðarlýsing Halldórs Arnars Óskarssonar ásamt hljóðmynd Kristjáns S. Einarssonar undirstrikar skort manneskjunnar á nánd við sjálfa sig – þetta er heimur hinnar framandgerðu manneskju, sem rúin hefur verið öllu mannlegu, allri virðingu og ást. Hið sama má segja um búninga og gerfi – margt er stórvel gert og þessir sjón- og hljóðrænu þættir eru í samræmi við þær hugmyndir sem ég geri mér um Pinter, en vandamálið er leikurinn – sem er þó hvergi vondur. Bara út úr samhengi. Spennulaus. Átökin glutrast niður.
Kannski er það hlutverkaskipaninni að kenna – kannski er Ingvar of ungur í hlutverki föðurins, sem sér sól sína hníga til viðar þegar að leikslokum kemur. Ingvar er kraftmikill leikari, knár og fjörlegur, og maður skilur ekki af hverju hann ræður ekki við þessa snáða sína, svo ekki sé minnst á Ruth, konuna! Og af hverju þarf hann vélknúinn hjólastól, stæltur maðurinn?
Þó virðist mér þetta ekki vera stærsti vandi sýningarinnar. Hann birtist fremur í taumlausri virðingu fyrir texta Pinters, ótta við að sníða hann að nútíma og magna þær andstæður sem þó má finna í texta Pinters og ættu raunverulega að geta komið áhorfendum við.
Að lokum: Sé litið á þann þátt verksins sem fjallar um stöðu kvenna læðist að mér sú hugsun að Heimkoma Pinters hafi elst illa, sé hreinlega úrelt verk sem tali úr forneskju. Þrátt fyrir allt hefur ýmislegt gerst varðandi jafnrétti kynjanna og Bretland fyrir fimmtíu árum er ekki viðmið fyrir íslenska áhorfendur nútímans. Það ber ekki að skilja orð mín svo að mér finnist allt í góðu hvað jafnréttið varðar, öðru nær. En umræða um stöðu kvenna þarf að vera í samræmi við samfélagsþróunina og sá hugmyndaheimur sem ræður ríkjum í Heimkomu Pinters er að minnsta kosti í þessari sýningu Þjóðleikhússins of fjarlægur til að ríma við okkar íslenska veruleika. Við fáum ekki í magann af að sjá verkið, svo vitnað sé til orða leikstjórans, Atla Rafns Sigurðarsonar, í leikskrá. Það hefði þurft að kýla fastar til þess.
Þjóðleikhúsið
Heimkoman
Höfundur: Harold Pinter
Þýðing: Bragi Ólafsson
Leikstjórn: Atli Rafn Sigurðarson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Einar Scheving
Hljóðmynd: Kristján S. Einarsson
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Leikarar: Ingvar E. Sigurðsson, Eggert Þorleifsson, Björn Hlynur Haraldsson, Snorri Engilbertsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Ólafur Egill Egilsson.