Katrín Jakobsdóttir skrifar:
Ég var stödd á Hjaltlandseyjum kvöldið sem hryðjuverk dundu yfir París. Í köflóttu netsambandi en náði þó að fylgjast með þessum hroðalegu fréttum. Andstæðurnar voru sterkar, á Hjaltlandseyjum virðist tíminn hafa staðið í stað, húsin gömul, ullarpeysurnar eins og fyrir hundrað árum, fáninn minnir á hinn gamla íslenska hvítbláin og kjörorð íbúa er „Með lögum skal land byggja“ á íslensku sem minnir á forn tengsl norrænna manna og íbúa Bretlandseyja. Þróun síðustu áratuga, hnattvæðing, tæknivæðing og markaðsvæðing, virðist hafa gengið hægar fyrir sig þar en annars staðar en eigi að síður eru þær hluti af þessum litla heimi sem við byggjum.
Það erum við Íslendingar líka. Á degi íslenskrar tungu er mikilvægt að velta fyrir okkur íslensku þjóðerni og hvernig íslenska þjóðin getur tekið þátt í samfélagi þjóða. Þar skiptir tungumálið miklu. Hröð þróun á undanförnum áratugum gæti hins vegar ógnað því. Í ályktun íslenskrar málnefndar í dag kemur fram að íslenska málsamfélagið sé fámennasta fullburða málsamfélag í heiminum og hljóti ekki verðugan sess á netinu án stuðnings. Netið er einn sá staður þar sem flestir Íslendingar eyða núorðið miklum tíma og að sjálfsögðu hljóta áhrif erlendra mála, ekki síst ensku, að hafa þar sterk áhrif á málnotendur.
Að hlúa að tungumálinu þarf ekki að merkja neina andúð á að hleypa öðrum menningarstraumum inn í landið. Í ljósi þess að heimurinn hefur breyst, er orðinn minni og nátengdari en nokkru sinni fyrr, hljótum við að vera þátttakendur í þeirri þróun. Einmitt þess vegna er það mikilvægt fyrir heiminn að við leggjum rækt við íslenska tungu því að hún er hluti af hinu alþjóðlega fjölmenningarsamfélagi og gerir heiminn betri og fjölbreyttari. Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að tryggja að hægt sé að sinna því verkefni þannig að við getum stolt lagt okkar fram í heimsmenninguna: íslenskar sögur, ljóð og lög, íslenska hugsun og íslenska menningu, sem öll hefur mótast af tungumálinu okkar.
Fjölbreytni, þekking og skilningur eru nauðsyn ef okkur á að takast að komast ósködduð í gegnum nýja tíma. Svarið við hnattvæðingunni er ekki aukin vígvæðing eða stríðsrekstur heldur aukinn skilningur, aukin þekking og ekki síst aukin virðing fyrir ólíkum tungumálum og menningarheimum. Í nútímanum felast ógnir en líka tækifæri til að stuðla að fjölbreytni og friði, með það að leiðarljósi að íslensk tunga er ekki aðeins mikilvæg fyrir okkur heldur líka allan heiminn.