Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hverjum þjónar þú?!

$
0
0

11986447_10207539869316161_702271663064335930_n-688x451Bjarni Tryggvason skrifar:

Í dag er ég dapur, í dag vil ég gleyma…

Það er eðlilegt í heimi fullum af dapurlegum fréttum og hörmungum, að þú viljir kúpla þig út og flýja en það er bara ekki hægt lengur. Ekki get ég það allavega, ekki eftir að ég fór að líta á sjálfan mig sem hluta af veröldinni! Þessvegna er ég dapur í dag.

Það er hægt að leggja fleiri en einn skilning í orðið „flótti“. Fyrst og fremst er auðvitað sá skilningur sem liggur í augum upp, það er sá flótti sem við erum vitni að í veröldinni í dag, þar sem milljónir manna reyna í örvæntingu að flýja stríð og aðrar hörmungar sem eru stanslaust lagðar á þjóðir heimsins, því alltaf eru jú stríð og átök einhversstaðar í veröldinni, það er séð um það af þar til helguðum hagsmunaaðilum. Svo lengi sem til eru vopnaframleiðendur sem verða að selja vopn sín, og fáfrótt og trúgjarnt fólk sem hægt er að æsa upp til óhæfuverka, þá verða stríð, átök og ofbeldi hluti af lífi okkar allra!

Önnur mynd af orðinu„flótti“ er þegar ráðvillt, hrætt og öryggislaust fólk grípur það hálmstrá sem öfgafólk réttir því, oft trúartengdu, og óábyrgir fjölmiðlar. Fólk reynir að kenna öðrum um óhamingju sína, þjóðfélagsstöðu, efnahag og þjáningu. Þá er fólk að flýja þá staðreynd sem er að þú ræður þínum eigin veruleika og ert ábyrg/ur fyrir þinni eigin hamingju.

Nýlegar hörmungar vegna óhæfuverka í París eru vatn á myllu þessara öfgamanna og næra óttann hjá hræðslupúkanum. Hræðslupúkinn fer hamförum á samskiptamiðlunum með „sagði ég ykkur ekki…“ og trúarbrjálæðingarnir hnykkja á með fleiri hryllingssögum, sönnum eða uppspunnum, því það skiptir þá engu svo lengi sem það þjónar þeim tilgangi að skapar ótta, úlfúð og öryggisleysi. Fólk sem er á flótta frá sínum eigin þjáningum vill svo gjarnan trúa að ástandið hafi ekkert að gera með það sjálft og þá er auðveldast að flýja inn í hugsunarlausa fáfræði og hatur.

Þegar hryðjuverka-drápsveitir fara af stað og fremja hermdarverk af ólýsanlegri grimmd, óskiljanlegum tilfinningakulda og miskunnarleysi, þá er bara eitt markmið hjá þeim!
Það er að búa til aðstæður þar sem ótti, öryggisleysi og hatur ríkja og sem verða kveikjan að því sem við erum að horfa uppá út um allan heim!

Venjulegt fólk, öskrandi og froðufellandi hvert á annað, nágrannar hætta að tala saman, vinslit, trúarbragðahópar fara hamförum og samfélagsmiðlar loga af ósamlyndi og hatri. Það er ekki hægt að segja að þeim, hryðjuverkamönnunum, sé ekki hjálpað að settu marki því „við“ gerum allt sem þarf til þeir nái því!

Bestu vinir og „samverkamenn“ ef svo má kalla, þessara dauðasveita eru þeir sem í öfgafullri hatursumræðu kenna öllum, sérstaklega þeim sem geta ekki varið sig, eins og flóttafólki, um árásirnar í París, um ISIS, um stríðið í Sýrlandi og eiginlega bara hvað sem er, svo lengi sem það styður þá sannfæringu þeirra að fólkið sem ekki lítur eins út og það sjálft, er ekki í sama trúarflokki eða hefur fæðst annarstaðar og alist upp við aðra menningu sé ábyrgt fyrir þessu öllu! Að þetta fólk sé skrímsli og drápsmenn. Lítil börn, foreldrar, ömmur, afar, heilu þjóðirnar fullar af friðsömu, venjulegu fólki, því er öllu kennt um óhæfuverk fárra. Þetta er helsti tilgangurinn með hermdarverkum, upplausn, ótti, sundurlyndi og hatur. Ekkert fær brotið eins hratt niður siðferðisþrek og siðferðisþröskuld fólks og þjóða. Þjóð sem er í upplausn, þar sem allt logar í ósamlyndi og ótta, er ekki í standi til að takast á við raunverulega hættu þegar hún kveður dyra og á fullt í fangi með að halda sjó, siðferðislega og pólitískt. Þá er markmiðinu náð með hermdarverkunum.

Ef svo þeir sem vilja ekki hjálpa meðbræðrum sínum í neyð fá að ráða, þá fá hryðjuverkasamtökin stóran bónus, einskonar lottóvinning! Saklaust fólk á flótta er sent til baka, uppá „náð og miskun“ þeirra sem upphaflega hröktu þá á flótta með drápum og hryðjuverkum og þá geta drápin haldið áfram.

Svo næst þegar þú vilt tjá þig um flóttafólkið eða útlendinga og um þá hættu sem af þeim stafar, vertu þá viss um hverjum þú ert að þjóna!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283