Ræða Halldóru Mogensen á Alþingi í tilefni þess að þingflokkur Pírata er eingöngu skipaður konum þesssa viku. Tuttugu ár eru liðin frá því slík staða kom upp í þingflokki á Alþingi.
Virðulegi forseti
Áður fyrr var Alþingi karlaþing og réttindi kvenna þokuðust lítið. Eins og ég minntist á í ræðu hér í gær, er þingflokkur Pírata eingöngu skipaður konum þessa viku og ég fór að hugsa; ef dæminu yrði snúið við, myndum við konur standa okkur betur í jafnréttismálum og huga jafnt að konum og körlum?
Hvernig erum við, sem samfélag, að fara með unga karla? Það er skortur á umræðu um það sem er að hrjá strákana okkar og halda aftur af þeim. Við konur höfum háð harða og merkilega baráttu til að brjóta á bak aftur staðalímyndir um konur, en hvers konar staðalímyndir hefur samfélagið varpað á stráka? Hvað býr til kynferðisbrotamenn, hryðjuverkamenn, ofbeldismenn? Þetta eru hrikalegir stimplar sem líka hinir saklausu karlmenn þurfa að berjast gegn, margir hverjir hræddir við að sýna börnum of mikla ástúð vegna hræðslu um að athyglin verði misskilin. Þurfa karlmenn að ganga í gegnum lífið sem grunaðir menn? Þetta er mikilvæg umræða, alveg eins mikilvæg og umræðan um staðalímyndir kvenna.
Það er orðið tímabært að við sjáum og viðurkennum að það sem skilur okkur að er einnig það sem sameinar okkur, svo lengi sem eiginleikar beggja kynja fá sama vægi i samfélaginu.
Ofbeldismaður verður ekki til út af engu. Hryðjuverkamaður verður ekki til í tómarúmi. Þetta snýst allt um orsök og afleiðingu. Hvernig erum við að búa unga drengi undir lífið? Hvernig höndum fer skólakerfið um þá? Strákar eru að dragast verulega aftur úr og eiga í mesta basli við lestur, brottfall þeirra úr framhaldsskólum er hátt. Ungir afbrotamenn eru margir hverjir líka fórnarlömb aðstæðna og fórnarlömb sögunnar sinnar. Rétt eins og við konur höfum fengið kúgun í arf frá formæðrum okkar. Og hvar eru þessir ungu afbrotamenn? Þeir eru í fangelsum landsins. Hvernig hlúum við að þeim þar? Hér er nýbúið að mæla fyrir nýjum lögum um fullnustu refsinga. Því miður virðist lítið fara fyrir umhyggju og betrun þar. Rétt eins og við þurfum að byggja drengina okkar upp innan veggja skólakerfisins, þá þurfum við að styðja þá þegar þeir hafa farið út af sporinu. Það er hlutverk okkar alþingismanna og -kvenna að tryggja það.
Til að við getum tryggt jöfn réttindi og tækifæri bæði ungra stúlkna og drengja; kvenna og karla, þurfum við breiða aldurssamsetningu beggja kynja hér á Alþingi og í öðrum valdastöðum í samfélaginu. Án hvert annars getum við ekki byggt mennskari framtíð.
Halldóra Mogensen, þingkona Pírata.