Þetta andarsalat er litríkt og stútfullt af hollustu og slær alltaf í gegn með góðu vínglasi. Ef þú vilt flýta fyrir þér er hægt að kaupa heila foreldaða önd. Þessi uppskrift er fyrir fjóra sem aðalréttur.
3 andarbringur eða heil forelduð önd
3 stilkar vorlaukur
2 vænar perur
1 fennel
300 g stökkt salat, t.d. fjallaspínat
1 stórt granat-epli
½ búnt fersk minta eða kóríander (jafnvel bæði)
1 stór sæt kartafla
1 msk appelsínumarmelaði
4 stk niðursoðnar ferskjur frá Del Monte (u.þ.b. ½ dós)
Ólífuolía
1 msk Provence-kryddblanda
Salt
Pipar
Eldið öndina samkvæmt leiðbeiningum. Ef hún er ókrydduð, saltið þá og piprið fyrir eldun.
Afhýðið kartöfluna og skerið í teninga. Saltið og piprið og kryddið með Provence-kryddblöndu. Hellið 2–3 msk af olíu yfir. Hrærið vel í kartöflunum og bakið í ofni við 180 gráðu hita í 25–30 mínútur eða þar til meyrar. Skolið perurnar, skerið í fernt og fjarlægið kjarnann. Hellið örlítilli olíu yfir perurnar, saltið og piprið og bakið í 25 mínútur við 180 gráður. Látið hýðið snúa upp.
Best er ef kjötið, perurnar og kartöflurnar eru volgar þegar salatið er borið fram.
Dressing:
Saxið ferska kryddið og setjið í bolla ásamt 4 msk af olíu og 2 msk af appelsínumarmelaði. Hrærið vel.
Skolið salatið og skiptið því á fjóra diska. Saxið vorlaukinn og dreifið yfir salatið. Því næst koma sætu kartöflurnar.
Skerið ferskjurnar í báta og dreifið yfir. Skerið utan af fennelinu og sneiðið æta hlutann í þunnar ræmur og bætið á diskinn.
Raðið bökuðu perunum ofan á salatið og loks andarkjötinu. Gott er að tæta öndina niður. Í lokin fer innihald granat-eplisins yfir og loks dressingin.
Alba Hough vínþjónn mælir með Cono Sur Pinot Noir Reserva 2014 með salatinu. Vínið er milt og unglegt, með keim af gljáðum kirsuberjum og hindberjum sem ríma einstaklega vel við öndina. Ekki er verra að hafa örlítið í glasi við eldamennskuna. Verð: 2.465 kr.