Kvenfélagið á Eyrarbakka hefur gefið út fjórða heftið með minningabrotum af Bakkanum með efni eftir ýmsa höfunda. Ég á þar smá innlegg, minningar um bernskujólin, sem hér birtast.
Eyrarbakki um jólin árið 1973
Hélaðar rúður í vesturherberginu,
jólaseríur í Smáratúni og Heiðmörk
og hinum húsunum,
þekki hverja og eina.
Á bak við myrkrið í Mýrinni
glitra ljósin á Selfossi,
þar er Kaupfélagið,
Vörumarkaðurinn og Höfn.
Úttroðnir innkaupapokar,
kexið sem annars aldrei er keypt,
frosttær lyktin af reyktu kjöti
fyllir vitin.
Á aðventu í síðdegisrökkrinu,
Baldur Pálmason les í útvarpinu
frásögn af jólum fyrrum,
hríð og hrakningum,
fjármissi en farsælum endi.
Á leið í skólann er austurhimininn
dimmblár og stjörnubjartur
eins og á myndunum í jóladagatalinu.
Þar er lykt af eplum,
fullur kassi inni á kennarastofu
sem Óskar útdeilir,
snar í snúningum.
Skreytt tafla á litlu-jólum
og steindir gluggar
úr marglitum pappír.
Í stofunni heima er ilmurinn
af húsgagnaáburðinum
sem ég þrái æ síðan að finna,
gamla serían.
Jólatrésfótur úr málningardós
fylltri með sandi
sem við Pabbi sóttum
niður í fjöru á Þorláksmessu,
í dagskímu sem aldrei kom almennilega.
Skyldu pakkar koma með 6 rútunni
sem frænkur í útlöndum sendu?
Soðið hangikjöt
og rauðkálið sem ræktað var
í garðinum bak við hús.
Jólin komin og
ilmur af kertum
og lambahrygg steiktum,
svart-hvít messa, séra Sigurbjörn.
Leikfangabílar á teppi, hreint á rúmi,
kalt hangikjöt og meiri grænar,
malt og appelsín.
Úti er hjarn og kuldi,
inni makkintos og nýtt dót,
eitthvað skárra í sjónvarpinu.
Jóla-barnamessa hjá séra Valgeiri,
það er kalt í terlínbuxum
og hált að ganga á lakkskóm
á hörðum snjónum í Læknisbrekkunni.
Ljósmynd Gunnar Grimnes