Í dag eru þrjú ár frá því að stofnfundur foreldrafélagsins Malaika var haldinn. Foreldrafélagið Malaika styrkir 13 tansanískar stúlkur til náms. Stúlkurnar búa allar saman á heimili í Dar es Salaam í Tansaníu. Fæstar stúlknanna eiga foreldra, en margar þeirra eiga ættingja sem hafa átt í erfiðleikum með að ala önn fyrir þeim.
Heimilið var stofnað að vorlagi árið 2013, fyrst með því að setja saman stuðningshóp og félag á Íslandi og síðar með því að finna húsnæði og skapa aðstæður í Tansaníu. Stofnfélagar voru 21 og greiða félagar tiltekna upphæð í hverjum mánuði. Húsnæði var leigt í byrjun apríl sama ár með hjálp tengiliða okkar í Dar es Salaam, þeirra Twahir Khalfan og móður hans Mariam. Mariam hefur nú alfarið tekið við rekstri heimilisins en Malaika félagið styður áfram stúlkurnar til náms.
Styrkurinn felst í greiðslu skólagjalda, skólabúninga, námsgagna og öllu öðru sem hver stúlka þarf til að geta stundað námið sitt. Að þessu tilefni vill félagið þakka öllum þeim sem hafa komið að verkefninu og gert þessum dásamlegu stúlkum kleift að öðlast nýtt líf.
Árið 2016 eru um það bil 15% kvenna í heiminum ólæsar, það eru nálægt 500 milljón konur. Það ætti að vera markmið okkar allra að bæta úr þessari stöðu og með því að fjárfesta í menntun stúlkna hjálpum við þeim að vaxa úr grasi sem virkir þáttakendur í samfélaginu.
Sameinuðu þjóðirnar hafa bent á nokkrar ástæður fyrir því af hverju menntun kvenna er mikilvæg.
- Konur valda tekjuaukningu. Rannsóknir hafa sýnt að fyrir hvert prósent kvenna, með framhaldsmenntun, aukast tekjur á mann um um það bil 0,3%.
- Stúlkur sem ganga menntaveginn eru líklegri til að giftast seinna og eignast færri börn.
- Menntun kvenna dregur úr ungbarnadauða en börn mæðra sem hafa lokið grunnmenntun eru 40% líklegri til að ná 5 ára aldri.
- Síðast en ekki síst eru menntaðar mæður líklegri til þess að koma börnum sínum til mennta.
Það eru því gríðarleg snjóboltaáhrif af hverri stúlku sem fær tækifæri til að mennta sig, til hagsbóta fyrir hana, fjölskyldu hennar og samfélagið í heild.
Stúlkurnar á Malaika eru engin undantekning. Lifshlaup þeirra hefði væntanlega orðið líkt og flestra annara stúlkna í Tansaníu, basl, fátækt og sjúkdómar. Þessum 13 stúlkum hefur hins vegar verið gefin ný framtíð. Mikilvægasta valdeflingin er að gefa þeim tækifæri til að skapa sína eigin framtíð og eiga möguleika á að gera það sem þær sjálfar langar við líf sitt. Hver og ein stúlka á sína sögu, hefur sínar hugmyndir um lífið og tilveruna. Þær eru ósköp venjulegar stelpur sem hafa gaman af lífinu og söngur, dans og ótæmandi lífsgleði einkennir þær allar.
Rehema var þriggja ára þegar hún kom á heimilið
Hún var í fyrstu talin vera með einhverja alvarlega fötlun en hún átti erfitt um gang og hegðun hennar var ekki í nokkru samræmi við aldur hennar. Þegar nánar var farið að meta og greina vanda Rehemu litlu kom í ljós hún að var mjög sjónskert og þegar hún var búin að fá gleraugu við hæfi kom algjörlega ný stúlka í ljós. Rehemu hefur farið gríðarlega fram og gengur nú í skóla með jafnöldrum sínum og vegnar ljómandi vel. Rehema ætlar að verða kennari.
Tatu Hamat er 11 ára
Tatu hefur glímt við heilsubrest en hún hefur ítrekað þjáðst af malaríu og er mjög smávaxin og grönn. Tatu er hins vegar framúrskarandi námskona og eru raungreinar hennar uppáhald. Hún er ákveðin í að nýta menntun sína til fulls og stefnir á að ná langt á sviði vísinda.
Félagið heldur úti heimasíðu: malaika.is. Þar er hægt að fylgjast með stúlkunum og starfi félagsins. Auðvitað eru allir velkomnir í félagið og nýir félagar boðnir hjartanlega velkomnir.