Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Er ekki lengur mikilvægt að geta tjáð sig rétt í máli og ritun?

$
0
0

„Lágmarkskröfur verður að gera um meðferð íslenskunnar,“ segir Guðrún Kvaran, prófessor í íslensku og formaður Íslenskrar málnefndar.

Aðspurð um af hverju hún telji að fólk sé orðið svo lélegt í  stafsetningu og málvillum, eins og má glögglega sjá í kommentakerfi fjölmiðlanna, svarar hún: „Ég les mjög sjaldan athugasemdakerfi netmiðlanna nema þá til að safna dæmum um málfar. Í athugasemdakerfum fjölmiðlanna skrifar fólk í flýti, lætur allt vaða og setningar eru oft sendar af stað án þess að lokið hafi verið við þær að fullu. Þar úir og grúir af stafsetningarvillum og málvillum sem ég kalla svo. Sumir yngri málfræðingar eru mér vafalaust ósammála og telja að málið eigi að þróast en lágmarkskröfur verður að gera um meðferð tungumálsins.

Öðru máli gegnir um færslur á Facebook. Ég á marga Facebook-vini en það er valinn hópur sem undantekningarlaust kemur því vel frá sér sem hann ætlar sér að segja.

Mig langar svolítið að vita þína skoðun á því – hvað veldur? Skiptir þetta fólk engu máli lengur eða er þetta „snjallsímavæðingin“?

Erfitt er að segja hvað veldur. Miklar breytingar hafa orðið á skömmum tíma. Nú getur hver og einn komið skoðunum sínum á framfæri hvenær sem hann vill og því ber vissulega að fagna. Lítil umræða er hins vegar um meðferð tungumálsins í athugasemdunum og á meðan svo er er varla að búast við mikilli breytingu.

Ég hygg að minni áhersla sé lögð á réttritun og ritgerðasmíð í grunnskólum en áður og að margir nemendur útskrifist án góðrar undirstöðu í meðferð tungumálsins. Hvort kenna á snjallsímum um einhvern hluta vandans veit ég ekki. Þeir, sem tæki, eiga ekki sök á slakri stafsetningu. Hvort smáskilaboð eru send úr síma eða úr tölvu skiptir ekki öllu. Símaskilaboðin eru líklega styttri, meira um skammstafanir og styttingar heldur en þegar sendir eru tölvupóstar en að baki ætti að liggja sæmileg þekking á málinu.

Hvað með þegar fullorðið fólk fer með rangt mál? Jafnvel menntað fólk kann ekki stafsetningu og málvillurnar eru margar.

Vandinn er alls ekki nýr. Það sem mér finnst dapurlegast er að fólk, jafnvel menntað fólk, skuli ekki hafa meiri metnað. Varla heyrist viðtal í fjölmiðli án þess að enskuslettur fjúki eins og fiður í roki. Langoftast eru þessar slettur fullkomlega óþarfar, fara illa og samræmast oft ekki beygingakerfinu.

 

Guðrún Kvaran

Guðrún Kvaran

 

Er eitthvað hægt að gera til að sporna við þessari þróun?

Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ein leið væri að auka kröfur í grunnskólum. Það kæmi börnunum vel og foreldrarnir lærðu hugsanlega eitthvað líka ef þeir hjálpa við heimanámið. Oft er tekið fram í auglýsingum um atvinnu að góð kunnátta í íslensku sé æskileg/nauðsynleg. Þarna mætti prófa fólk. Það spyrðist þá út að mikilvægt sé að geta tjáð sig rétt í máli og ritun. Endurmenntun þarf að standa til boða þeim sem hennar æskja en ekki er hægt að senda fullorðið fólk á námskeið sem það hefur ekki áhuga á. Löngunin um betri færni verður að koma að innan.

Þú gagnrýndir um daginn upplýsingaskilti í Leifsstöð, að þar væri enskunni gert hærra undir höfði en íslenskunni. Telur þú að þetta sé það sem koma skal, að enskan taki yfir?

Ég ætla ekki að vera svo svartsýn, að minnsta kosti ekki strax, að enska muni ná yfirhöndinni. Við höfum íslenska málstefnu til að fara eftir en hana samþykkti Alþingi 2009. Við höfum einnig lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál frá 2011. Ég gagnrýndi vissulega skiltin í Leifsstöð nýlega, ekki persónulega heldur sem formaður Íslenskrar málnefndar. Málnefndin reynir eftir bestu getu að fylgjast með og benda á það sem betur má fara.

Í nágrannalöndum er heimamálið sett á undan enskunni á skiltum á flugvöllum.

Hér þarf að dekra við útlendinga. Gömul íslensk minnimáttarkennd!

Við í Málnefndinni höfum því miður í vaxandi mæli þurft að gera athugasemdir um notkun ensku þar sem íslenska á að vera í fyrsta sæti. Við stöndum á meðan stætt er en sé ekki vilji almennings og yfirvalda að hér sé notuð íslenska „á öllum sviðum íslensks  þjóðlífs“ getur Íslensk málnefnd lítið gert.

_________

Árnastofnun býður upp á villuleit í texta fólki að kostnaðarlausu! Smelltu hér til að skoða Skramba


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283