„Árið 2006 hafði ég miklar áhyggjur af því hvernig hlutirnir voru að þróast á Íslandi,“ segir Lars Christensen hagfræðingur, sem lengi starfaði hjá Danske bank í samtali við Hjálmar, tímarit hagfræðinema við Háskóla Íslands. Rætt er við Lars í nýjasta tölublaði blaðsins. Hér á landi er Lars Christensen þekktastur fyrir svarta skýrslu um stöðu íslensku bankanna sem kom út í apríl 2006 og ritstýrði fyrir Danske bank.
Um tíma var Lars einhver umdeildasti maður Íslands en bankar, stjórnmálamenn og jafnvel fjölmiðlar kepptust við að afneita niðurstöðu skýrslunnar. Í kjölfar hrunsins var skýrsla Danske bank rifjuð upp og óhætt er að fullyrða að á henni sé í dag tekið umtalsvert meira mark en á sínum tíma. „Ég hafði einnig áhyggjur af því hvernig heimurinn var að þróast og í kjölfarið var ég mjög svartsýnn á horfurnar í efnahagsmálum,“ segir Lars enn fremur.
Hann bætir við að sumir virðist sjá hann sem einhvers konar „Doctor Doom“ en að hann horfi ekki þannig á sjálfan sig. Um tilurð skýrslunnar um Ísland segir hann: „Á þessum tíma var ég í vinnu þar sem hlutverk mitt var að ráðleggja fjárfestum, og allir voru að tala um Ísland. Svo kom október árið 2008 og fjármálakerfið hrundi, íslenska ríkið var nálægt gjaldþroti og mér var hrósað fyrir góða spá. Ég verð að viðurkenna að ég skammaðist mín örlítið fyrir það. Auðvitað er ég stoltur af því að hafa haft rétt fyrir mér, okkar vinna byggðist á góðri greiningu. En ég hef þá skoðun að ég geti ekki spáð betur en nokkur annar.“
Hætti hjá Danske bank um mitt síðasta ár
Í lok aprílmánaðar árið 2015 tilkynni Lars uppsögn sína hjá Danske bank. Hann hafði þá starfað hjá bankanum í 14 ár og sagði í tilkynningunni að ákvörðunin ætti sér langan aðdraganda. Hann hafi fengið að dafna hjá Danske bank en nú langi hann að stofna eigin rekstur á sviði ræðuhalda og ráðgjafar í alþjóðahagfræði, fjármálamörkuðum og peningamálum. „Huti af ástæðunni fyrir því að ég sagði upp var að ég vildi að rödd mín heyrðist. Ég vildi græða pening, en ég vil líka hafa áhrif á heiminn,“ segir Lars við Hjálmar um ástæður breytinganna. Lars segist ætla að einbeita sér að hjartans málum og með starfsbreytingunni geti hann talað óhindrað. „Ég hef miklar áhyggjur af ýmsum málum en ég vil ekki að vinnuveitendur mínir þurfi að gjalda fyrir skoðanir mínar. Núna get ég talað um hluti sem snerta mig djúpt.“
Stríðið gegn fíkniefnum
Meðal þeirra mála sem Lars hefur í hyggju að beita sér fyrir er endilok stríðsins gegn fíkniefnum. Hann segist þó ekki vita enn hversu langt hann vilji ganga í þessari umræðu en segir þó að hann myndi aldrei rukka fyrir fyrirlestur um þessa stöðu mála. „Ef einhver vill ráðgjöf varðandi fjárfestingar á gjaldeyrismarkaði þá borgar sá hinn sami, en sé það eitthvað sem snertir mig eins og stríðið gegn fíkniefnum, þá mæti ég bara.“ Hann segir bannstefnuna hræðilega skaðlega. „Mér finnst stríðið gegn fíkniefnum hræðilegt, það er mjög skaðlegt hvernig við höfum hermt eftir bannárastefnu Bandaríkjanna. Stríðið gegn fíkniefnum hefur skapað grundvöll fyrir upprisu skipulagðrar glæpastarfsemi um allan heim og fullkomna eyðileggingu margra ríkja þar sem eiturlyfin eru framleidd. Við höfum þegar valdið meiri skaða en bannárin gerðu og það snertir mig djúpt.“
Hjálmar, blað hagfræðinema má nálgast hér. Market Monetarist, vefsíðu Lars Christensen má sjá hér.