Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Óviðunandi að börn og unglingar bíði í eitt og hálft ár eftir geðheilbrigðsþjónustu

$
0
0

Fréttatilkynning frá stjórn Geðhjálpar

Stjórn Geðhjálpar tekur undir mat Ríkisendurskoðunar um að óviðunandi sé að börn og ungmenni þurfi að bíða eftir annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu í allt að eitt og hálft ár eins og kemur fram í nýútkominni skýrslu stofnunarinnar. Með því sé velferð og langtímahagsmunum viðkomandi barna stefnt í tvísýnu. Brýnt sé að sett séu hlutlæg viðmið um biðtíma eftir þjónustu. Alls biðu 718 börn og unglingar eftir annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi í lok ársins 2015.

Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni skiptist í grunn-, ítar- og sérþjónustu eða svokallað annars og þriðja stigs þjónustu. Miðað er við að um 16.000 börn og ungmenni þurfi á annars og þriðja stigs þjónustu að halda hér á landi. Ríkisendurskoðun gagnrýnir að ólíkar stofnanir á þessu sviði skilgreini sjálfar hlutverk sitt án tillits til heildarinnar. Af því skapist hætta á að þjónustan verði ómarkviss og ákveðinn hópur fari á mis við lögbundinn rétt sinn til þjónustu.

Farið er fram á að velferðarráðuneytið skapi sér yfirsýn í málaflokknum og meti hvernig best verði brugðist við þörf fyrir þjónustu á heildstæðan hátt, m.a. hvernig haga beri starfsemi, ábyrgðarskiptingu og samhæfingu þjónustuaðila óháð stjórnsýslustigum og þjónustukerfum. Með því megi stuðla að faglegri og heildstæðari þjónustu einstakra stofnana ásamt því að stytta biðlista. Jafnframt er vakin athygli á nauðsyn þess að skýra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að tryggja árangursríka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga.

Stjórn Geðhjálpar hvetur stjórnvöld til að fara að tilmælum Ríkisendurskoðunar og gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga í því skyni að tryggja faglegri, samfelldari og heildstæðari þjónustu ásamt því að stytta biðtíma. Jafnframt verði gerð bragarbót á aðgengi að grunnþjónustu í gegnum heilsugæslu og skóla.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283