Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Die Flüchtlingsfrage*

$
0
0

Einar Már Hjartarson skrifar um flóttafólk:

IMG-20131026-WA0013-1

Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu.

Hvorki er það þó vofa kommúnismans í þetta skiptið, né annarra framsækinna hugmynda, heldur óttans við hina.

Frá Íslandi til Grikklands, glíma íbúar Evrópu við sama draug, sama óttann, við að flóðbylgja hinna skelli á löndum þeirra og drekki; uppræti þjóðareinkenni þeirra.

Og kannski er sá ótti ekki eintómur hugarburður.

Í aldanna rás eru þess jú ófá dæmi, að voldugari þjóðir leggi aðrar, í veikari stöðu, undir sig, og jafnvel útrými – eða svona hér um bil.

Af slíkum gjörningum eru Evrópumenn ekki saklausir.

Munurinn á aðkomumönnunum, sem nú ógna hugarró Evrópubúa, og landvinningamönnum og helfararstjórum fyrri alda, er þó sá að þetta fólk nýtur ekki stuðnings voldugs ríkis með skipulagðan her; það ber ekki einu sinni vopn!

Evrópu er í raun í lófa lagið, að loka ytri landamærum sínum og láta aðkomufólkið svelta hinum megin við hliðið, kjósi hún svo.

Eða er raunin sú?

Gætu Evrópubúar, þegar fram í sækir, hamlað ásókn margfaldrar þeirrar rúmu milljónar, sem sótti um hæli í álfunni á síðasta ári?
Höfum í huga, að samkvæmt lista Sameinuðu Þjóðanna yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða, býr um áttatíu af hundraði mannkyns í svo kölluðum þróunarríkjum.

Því má gera ráð fyrir, að þó einungis lítill hluti íbúa „vanþróaða“ hluta heimsins hleypti heimdraganum, stæðu íbúar „þróuðu“ ríkjanna, frammi fyrir tröllaukinni fólksfjölgun.

Ekki bý ég yfir þeirri náðargáfu, að geta séð fyrir óorðna hluti, en tel hæpið að stórfelldir þjóðflutningar séu ekki í vændum, eftir því sem styrjaldavafstri, vopnabraski, hráefnissóun, umhverfisspjöllum, og öðru þvílíku sem mannkyninu þykir gaman að bjástra við, vindur upp á sig.

Hvernig ætlar Evrópa þá að bregðast við?

Halda landamæravörslu, múrveggjahleðslum og dvalarleyfissynjunum áfram, til streitu?

Myndi slík Endlösung** ekki bara koma öfug aftan að okkur, í mynd ólöglegra innflytjenda, algjörlega réttlausra, háðra duttlungum glæpasamtaka?

Annars er mér færra um svör en spurningar í huga, og tilgangur þessara orða í sjálfu sér enginn, nema benda á, að kannski felist lausn „vandans“ ekki í að reyna að hindra ferðir fullorðinna einstaklinga og skikka þá til aðlögunar; að kannski sé engin lausn, nema sú að láta undan, og leyfa þeim að koma sem koma vilja, og fara sem fara vilja, og kerfinu að hrynja, og þjóðmenningunni að sundrast, og einhverju nýju, að rísa upp.

—————————————
Flóttamannavandinn*
Lausn**

[1]                                 Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat). 2015. Asylum and new asylum applicants – monthly data. Sótt 21. febrúar 2016 af http://ec.europa.eu/eurostat/tgm/refreshTableAction.do?tab=table&plugin=1&pcode=tps00189&language=en
 [2]                                 Þróunaráætlun Sameinuðu Þjóðanna (United Nations Development Programme – UNDP). Human Development Report 2015 – Statistical annex. 2015 (tafla 8: Populations trends). Sótt 21. febrúar af http://hdr.undp.org/sites/default/files/2015_human_development_report.pdf

Höfundur er myndatökumaður og starfar við framleiðslu á sjónvarpsefni


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283