Fréttatilkynning frá Handprjónasambandinu:
Góðan daginn
Tilefni þessa pósts er mynd sem birtist á Vísir.is í dag þar sem hæstvirtur Iðnaðarráðherra-Ráðherra ferðamála-Viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir afhendir Borgarstjóra Chicago peysu sem sögð er vera íslensk lopapeysa.
Við hjá Handprjónasambandi Íslands erum miður okkar yfir þessari sjón. Svona flík myndi aldrei vera boðin til sölu í okkar verslunum. Handprjónasambandið leggur metnað í að hafa til sölu vandaðar lopapeysur og peysurnar okkar eru allar prjónaðar á Íslandi sem ekki er reyndin með mikið af þeim peysum sem til sölu eru hér.
Fróðlegt er að vita hvort ráðherra iðnaðarmála hefur kannað uppruna peysunnar sem hún færði borgarstjóranum.
Handprjónasambandið hefur margoft bent á nauðsyn þess að setja reglur um uppruna iðnaðarvara.
Flestir ferðamenn vilja kaupa vörur frá Íslandi og þá sérstaklega lopapeysuna og annað handprjónað úr íslenskri ull. Því miður höfum við ekkert nema okkar eigin orð fyrir því að lopapeysurnar okkar sé prjónaðar hér á landi; það vantar opinbert upprunavottorð og þegar/ef það kemur þarf að fylgja því eftir svo það verði ekki misnotað.
Með von um að ráðamenn athugi betur uppruna vörunnar og gæði næst þegar þeir ætla að færa gestum sínum „íslenska lopapeysu“
Virðingarfyllst,
Þuríður Einarsdóttir
formaður og starfsmaður Handprjónasambands Íslands