Tara Margrét Vilhjálmsdóttir skrifar:
Stöðugt dynur á okkur fréttaflutningur og pistlaskrif um að Ísland eigi þann vafasama heiður að vera orðin ein feitasta þjóð Evrópu og að offita sé okkar helsti heilsufarslegi skaðvaldur auk þess að vera stærsta fjárhagslega byrðin á heilbrigðiskerfinu.1, 2. Í slíkum umfjöllunum eru þuldir upp þeir sjúkdómar sem fylgja offitu og ekki bregst að kallað er eftir öflugri vitundarvakningu um hversu alvarlegt heilsufarsmein offitan er, enda stefni heilsufar þjóðarinnar til glötunar með stöðugt hækkandi líkamsþyngdarstuðli. Oft er klykkt út með ákalli til þjóðarinnar um að nú þurfi að snúa þróuninni við til að ná því markmiði að vera heilbrigðasta þjóð í heimi svo við getum verið fyrirmynd annarra þjóða í þessum málum.
Aldrei er vísað í heimildir og því veit ég ekki hvaðan tölur um að við séum ein feitasta þjóð eru fengnar. Þegar ég gúgla „Fattest countries in Europe“ fæ ég upp topp tíu-lista og Ísland er ekki á neinum þeirra. Kannski er verið að vísa í tölur OECD, en OECD-löndin eru ekki bara Evrópulönd. Í nýjasta hefti OECD af Health at a glance3, sem kom út í fyrra, var Ísland í 21. sæti af 34 OECD-löndum með hæstu tíðni yfirþyngdar og offitu. Löndunum var öllum skipt í þriðjungshluta og þýðir þetta að við erum í miðjuþriðjungnum, ekki þeim hæsta? Hljómar ekki beinlínis eins og við séum að slá einhver met, er það nokkuð?
Er offita jafn mikill heilsufarslegur skaðvaldur á Íslandi og margir vilja meina?
Hvað varðar áhyggjur af heilsufari þjóðarinnar þarf að taka það fram að við erum í 7. sæti yfir langlífustu OECD-þjóðirnar, en meðal-Íslendingurinn getur gert ráð fyrir að ná rétt rúmlega 82 ára aldri. Árið 1970 lifði sami Íslendingur að meðaltali í kringum 75 ár.3 Það hefur þannig orðið mikil bæting þarna á … á sama tíma og offitufaraldurinn hefur herjað á þjóðina. Það er því kannski ekki skrýtið að meira ber á lífsstílstengdum sjúkdómum nú en áður. Því lengur sem við lifum því meiri líkur eru á að verða fyrir heilsubresti.
Þegar kemur að ótímabærum dauðsföllum vegna hjarta- og kransæðasjúkdóma föllum við aftur í miðjuþriðjunginn og má alveg taka það til skoðunar. Þó er mikilvægt að muna að fjöldi Íslendinga, 25 ára og eldri, sem deyja úr kransæðasjúkdómum hefur lækkað úr 498 manns á hverja 100.000 Íslendinga, þegar dánartíðnin stóð sem hæst árin 1981–1985, niður í 371 á ári hverja 100.000 Íslendinga á árunum 2001–2005. Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hefur þannig lækkað gríðarlega á sama tíma og yfirþyngd og offita hefur aukist. Nýjum tilfellum kransæðastíflu hefur enn fremur fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25–74 ára á árunum 1980 til 2005.4 Þessa lækkun er ekki hægt útskýra að fullu með framförum í lyfjagjöf eða læknismeðferðum. Auk þess hófst lækkunin að einhverju leyti áður en til slíkra framfara kom. Breytingarnar eru því einnig raktar til þess að tíðni reykinga, hás blóðþrýstings og mikils magns kólesteróls í blóði hefur lækkað undanfarna áratugi.4 Enda sést í áðurnefndri OECD-úttekt3 að við erum í öðru sæti yfir lága reykingartíðni og í 6. sæti yfir lægstu tíðni áfengisneyslu. Þetta eru frábærar fréttir!
Sykursýki 2 hefur aukist lítillega meðal Íslendinga og er áætlað að um 6% karla og 3% kvenna séu með kvillann. Einungis 3,3% Íslendinga á aldrinum 20–79 ára teljast nú vera með sykursýki, bæði tegund eitt og tvö samkvæmt síðustu tölum OECD frá árinu 2011. Þrátt fyrir aukningu er algengi sykursýki 2 mun lægri hér á landi en víðast annars staðar.4 Þetta hefur vakið mikla furðu vegna beintengingar sjúkdómsins við holdafar5 og gefur í raun og veru vísbendingu um að þessi beintenging þarfnist nánari skoðunar. Einnig er vert að minnast á að við erum í fjórða sæti á OECD-listanum3 yfir lægstu tíðni spítalainnlagna vegna sykursýki; bæði 1 og 2! Flóðbylgja sykursýkistilfella? Nei, ekki beinlínis.
Við stöndum ekki nógu vel þegar kemur að samanburði um snemmbær dauðsföll af völdum krabbameins, en ég sé ekki hvernig holdafar kemur því við þar sem Mexíkó er með langfæstu dauðsföllin af þessum völdum en er á sama tíma í öðru sæti fyrir feitustu þjóðirnar.3
Kannanir á mataræði Íslendinga frá 1990 fram til 2010–2011 sýna auk þess fram á miklar breytingar til hins betra og hefur mataræði þjóðarinnar sífellt nálgast ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði á þessu tímabili. Reglubundin hreyfing í frístundum hefur jafnframt aukist mikið meðal allra aldurshópa.4 Árið 1990 var fituneysla Íslendinga gífurleg, sama sem engin neysla á grænmeti eða grófu kornmeti, og kex og kökur voru þriðjungur kornvöruneyslu Íslendinga.6 Í könnun á mataræði frá árinu 20027 kemur síðan fram að mataræði Íslendinga hafi gjörbreyst til hins betra og í nýjustu könnun á mataræði Íslendinga frá árinu 2011 kemur fram að mataræði Íslendinga hafi þokast enn nær ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði frá könnunni árið 2002. Stöðugar breytingar til batnaðar hafa orðið núna í yfir 30 ár8 og meðal barna má sjá sömu þróun.9
Það er þó áhyggjuefni hversu lágt hlutfall Íslendinga neytir ávaxta og grænmetis daglega3 og þurfa yfirvöld að lækka álögur á þessa fæðuflokka til að gera þá aðgengilegri. Einnig er ráð að fylgjast með neyslu á viðbættum sykri þó að staðan sé ekki nærri því jafn slæm og við erum stöðugt að heyra í kringum okkur. Samkvæmt landskönnunni frá 2011 fá Íslendingar á aldrinum 18-80 ára að meðaltali tæplega 9% orkunnar úr viðbættum sykri en ráðleggingar kveða á um að æskilegt sé að neysla á viðbættum sykri sé undir 10% af heildarorku dagsins. Jafnvel er talið að enn frekar takmörkun geti verið til bóta. Sykurneysla virðist aukast eftir því sem skoðum yngri hópa fólks og hæst er hún 16% af heildarorku hjá 15 ára unglingum. Þetta er ekki nógu góð þróun en samt langt frá því sem kemur upp í huga okkar þegar við heyrum stöðugar upphrópanir um Norðurlandamet og sykureitranir!9, 10
Nú er svo komið að við erum í 4. sæti á lista yfir heilbrigðustu þjóðirnar af þeim 32 þjóðum innan OECD sem voru spurðar út í heilsufar sitt. 77% Íslendinga segjast vera við góða eða mjög góða heilsu en aðeins 6% segjast vera við mjög slæma heilsu.3 Persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af þeim heilsufarslega ójöfnuði sem ríkir á Íslandi en offitu, en 82% þeirra Íslendinga sem hafa hæstu tekjurnar segjast vera við góða eða mjög góða heilsu, á meðan það sama á við um 73% þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Við erum í miðjuþriðjungi þjóða sem þurfa að reiða hvað mest úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu og við erum í neðsta þriðjungi þjóða þegar kemur að bæði læknisfræðilegum –og tannheilsuumönnunarþörfum sem ekki er mætt. Með öðrum orðum, sækir stór hluti þjóðarinnar ekki nauðsynlega heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu vegna slaks fjárhags,biðtíma eða langrar fjarlægðar frá þjónustunni.3 Þetta þykir mér sláandi!
Nú hugsa einhverjir með sér að mögulega séu heilsufarslegar afleiðingar holdafars enn ekki komnar í ljós og að við munum súpa seyðið af því þegar kynslóðir dagsins í dag eldast. Oft og títt hefur verið varað við sömu holskeflu heilsufarsvandamála næsta áratuginn vegna offitu þjóðarinnar, t.d. 2001, 2004 og 2005.33 Og þá spyr ég; hversu lengi ætlum við að sitja, stara út í loftið og bíða eftir þessari holskeflu?
Jú, við höfum þyngst verulega undanfarna áratugi, því verður ekki neitað, en við eigum enn eftir að sjá þær hrikalegu heilsufarslegu afleiðingar sem við höfum verið vöruð við og ítrekað minnt á allan tímann. Við erum meðal alheilbrigðustu þjóða í heiminum. Er raunverulegt tilefni til að nota orð eins og “faraldur” og “holskefla” og jafnvel “flóðbylgja” yfir holdafar Íslendinga? Og er holdafar í raun og veru jafn stór þáttur af heildarmynd heilsufars og okkur er sagt?
Þurfum við öflugri vitundarvakningu um offitu?
Að mínu mati erum við umkringd stöðugum og látlausum skilaboðum um skaðsemi ofþyngdar og offitu. Ekki líður sá dagur að ekki birtist reynslusaga um offitu á vegum fjölmiðla og ávallt er komið inn á skaðsemi fyrra ástands.
Ríkjandi staðalmyndir um feitt fólk eru að það sé latt, gráðugt, veiklundað og skorti sjálfsaga. 11, 12, 13 Í því samhengi hefur verið bent á að opinber umræða um offitu þar sem megináhersla er lögð á lífsvenjur og ábyrgð einstaklinga á holdafari sínu án tillits til erfðafræðilegra eða umhverfistengdra áhrifaþátta sé líkleg til að festa slíkar staðalmyndir og fordóma í sessi. 14, 15, 16
En er þessi umfjöllun réttmæt? Hvetur hún fólk til að taka meiri ábyrgð á heilsufari sínu og “gera eitthvað í sínum málum”, eins og svo margir vilja meina? Flest bendir til að þessu sé öfugt farið. Slík orðræða getur leitt til þess að feitt fólk innrætir staðalmyndirnar með sér og byrjar þannig að trúa því að þær eigi við um sjálft sig. Þetta leiðir af sér að þessir sömu einstaklingar byrja að hegða sér eins og staðalmyndin segir til um og úr verður svokölluð “virk spá“ (self-fulfilling prophecy).17, 18 Að trúa, eða verða fyrir þessum staðalmyndum frá utanaðkomandi aðilum hefur síðan í för með sér að fólk er ólíklegara til að hreyfa sig og líklegara til að viðhafa óheilbrigðar matarvenjur. 18
Í raun er það svo að skekkja og fordómar gagnvart fólki á grundvelli holdafars er vel þekkt hindrun í átt að bættri lýðheilsu. Rannsóknir meðal samfélagshópa sem hafa orðið fyrir mismunun sýna auknar líkur á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem háþrýstingi, langvinnum verkjum, kviðfitu, efnaskiptavillu, æðakölkun og brjóstakrabbameini, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til annarra áhrifaþátta Rannsóknir sýna ennfremur að reynsla af fitufordómum eykur líkur á þunglyndi, neikvæðu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, ofátsvanda og minni þátttöku í hreyfingu. Þessar niðurstöður haldast þrátt fyrir að tekið sé fyrir áhrif þátta á borð við kyn, aldur og líkamsþyngdarstuðul. 19, 20
Og það er einmitt vegna þess hversu vel þekktur áhættuþáttur fordómar eru, sem Landlæknisembættið hefur tekið mið af því við mótun lýðheilsustefnu sinnar. Í minnisblaði vinnuhóps Landlæknisembættisins um aðgerðaráætlun til að draga úr tíðni offitu21 er sérstaklega tekið fram að við innleiðingu aðgerða þurfi því að leggja áherslu á að þær stuðli allt í senn að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan en verði ekki til þess að auka neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar. Þvert á móti sé mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti í samfélaginu þar sem slæm líkamsmynd og fordómar vegna holdafars geta haft neikvæð áhrif á heilsutengda hegðun, heilbrigði og líðan. Því sé ráðlagt að aðgerðir stjórnvalda felist í eflingu heilbrigðra lifnaðarhátta á breiðum samfélagslegum grundvelli án sérstakrar áherslu á offitu eða líkamsþyngd!
Það er líka vert að taka fram að við erum ekki að fara að leysa offitufaraldurinn inni á líkamsræktarstöðvum og með bættu mataræði. Við munum ábyggilega bæta heilsufar okkar sem er frábært, en við munum líklegast ekki léttast. Í yfirlitsgrein yfir 18 rannsóknir þar sem þátttakendur breyttu lífstíl sínum með því að skerða hitaeiningainntöku sína, taka þátt í líkamstæktarátaki auk þess sem sumir fengu hegðunarmótandi meðferð, höfðu tapað í heildina undir 5 kílóum 2–4 árum eftir að þeir hófu átakið.22 Þessar niðurstöður eru með þeim jákvæðari af þessum toga. Tölur sýna til dæmis að 85-98% einstaklinga sem tekst að léttast muni bæta á sig aftur tapaðri þyngd innan tveggja til fimm ára.23, 24 Þetta eru ekki nýjar fréttir. Jafnvel skýrslur Alþjóða heilbrigðisstofnunar (WHO) viðurkenna hversu erfitt sé að viðhalda þyngdartapi til langs tíma. 25, 26 Þetta er ekki vegna þess að feitt fólk eru aumingjar upp til hópa heldur er þetta vegna lífeðlisfræðilegra ferla í líkömum okkar sem berjast dag og nótt við að halda jafnvægi á flestum gildum líkamans, þar á meðal þyngd. Þetta ferli kallast samvægi og hljóta flestir að kannast við hugtakið úr líffræðitímum í grunnskóla.27
Við þetta má bæta að vísbendingar eru um að slíkar þyngdarsveiflur geta aukið hættu á offitutengdum kvillum, óháð þyngd. Aðeins einn slíkur hringur þar sem viðkomandi léttist og þyngist svo aftur getur til að mynda aukið dánarlíkur vegna hjarta- og æðasjúkdóma marktækt meðal karla samanborið við karla sem héldu stöðugri þyngd. 27, 28
Ég er líka orðin verulega þreytt á því orðalagi að lífsstílstengdir sjúkdómar sé taldir „fylgja“ offitu eða vera „orsakaðir“ af henni. Í raun er svo komið að sumir vilja einfaldlega skilgreina offitu sem sjúkdóm, en það er eitthvað sem ég sé einfaldlega ekki grundvöll fyrir. Aftur og aftur hefur verið sýnt fram á BMI sé gölluð mæling á heilbrigði, nú síðast í ársbyrjun, þegar niðurstöður rannsóknar29 á 40.240 Bandaríkjamönnum, sýndi fram á að 47,4% einstaklinga í yfirþyngd og 29% einstaklinga í offituflokki væru heilbrigðir út frá efnaskiptamælingum, á meðan yfir 30% þeirra sem féllu í kjörþyngdarflokkinn höfðu svokallaða efnaskiptavillu (metabolic syndrome), en efnaskiptavilla er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi sem fylgir aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdóm auk sykursýki af tegund 2. Það er því deginum ljósara að 1) offita er ekki dauðadómur og 2) kjörþyngd er ekki sú gullna trygging gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, sem margur vill meina. Að alhæfa um heilbrigði einstaklings út frá holdafari hans á ekki við rök að styðjast og getur reynst skaðlegt fyrir alla einstaklinga óháð holdafari þeirra.
Að lokum er mikilvægt að taka fram að einblíning á offitu er ekki heldur vænlegasta leiðin til að draga úr heilbrigðiskostnaði landans. Í tölfræðilegum greiningum á heilbrigðiskostnaði hefur nefnilega komið fram að hann lækki um 4.7% fyrir hvern dag á viku sem einstaklingur stundar líkamsrækt, meðan kostnaðurinn hækkar um 1.9% fyrir hverja einingahækkun á líkamsþyngdarstuðli.30 Það er því ljóst að hreyfing hefur meiri áhrif á heilbrigðiskostnað en holdafar.
Kyrrsetulífstíll og óhófleg neysla á næringarlitlu fæðu er svo sannarlega heilsufarslegur skaðvaldur. Offita getur verið einkenni um slíkan lífsstíl, en langt í frá alltaf. Hverju sem því líður þýðir ekkert að tauta og tuða um skaðsemi offitunnar, það hefur svo sannarlega ekki virkað síðastliðna áratugi og þessvegna er Landlæknisembættið að taka annan vinkil á þetta allt saman, út frá gagnreyndum fræðum.
Fitufordómar eru lýðheilsuvandamál sem þarf að tækla sem slíkt.20, 32 Grundvöllurinn fyrir því að fitufordómar fái að þrífast yfirhöfuð er fitufælni (fat phobia) eða sjúklegur ótti við fitu og að fitna. Að ala áfram á slíkum ótta er ekki einungis tilgangslaust heldur skaðlegt og á stóran þátt í því útlitsdýrkandi og fituhatandi samfélagi sem við búum við í dag. Er því ekki mál að linni með þennan endalausa hræðsluáróður vegna offitu?
Hvað er þá til ráða?
En hvað getum við þá eiginlega gert í þessum ógurlega offitufaraldri?
Fyrir það fyrsta hefur hægst verulega á þyngdaraukningu Íslendinga og virðist sem við höfum að mestu leyti staðið í stað frá árinu 2007 og mögulega fyrr. Þetta má sjá með að skoða OEDC-skýrslur aftur í tíma. Sama þróun hefur orðið meðal íslenskra barna síðastliðinn áratug og reyndar hefur feitum börnum fækkað!31 Það væri því voða gaman ef við gætum hætt að súpa hveljur yfir meintri aukningu á offitu barna, sér í lagi þegar lítil eyru eru nálægt. Börn læra það sem fyrir þeim er haft og þótti ástæða til að minnast sérstaklega á hlut fitufordóma í nýrri handbók fyrir starfsfólk skóla, Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla,32 sem var gefin út á vegum Vitundarvakningar Velferðarráðuneytisins í lok árs 2014.
Jú offita hefur, samkvæmt lýðheilsurannsóknum, fylgni við aukna tíðni lífstílstengdra sjúkdóma. Fylgni er hinsvegar ekki það sama og orsakasamband og við verðum að velta þeim möguleika fyrir okkur hvort að fitufordómar spili stórt hlutverk í þessu samspili, en neikvæðar líkamlegar og andlegar afleiðingar þeirra voru tíundaðar hér að ofan. Það er kannski ekkert skrýtið að ýmsir kvillar og sjúkdóma eru ekki greindir, né rétt meðhöndlaðir, meðal feitra þegar rannsóknir allt aftur til ársins 1969 sýna ítrekað fram á að heilbrigðisstarfsfólk forðist að veita feitum sjúklingum læknisaðstoð eins og heitan eldinn. Ástæðurnar sem gefnar hafa verið upp eru meðal annars að það telur feita sjúklinga óaðlaðandi, ljóta, óhlýðna, lata og skorta viljastyrk. Sýnt hefur verið fram á að viðhorf lækna til feits fólks er verra en til keðjureykingarmanna! Þessi viðhorf heilbrigðisfagfólks hafa víðtækar afleiðingar á heilbrigðisþjónustu feitra. Rannsóknir sýna að feitir einstaklingar forðist eða seinki mikilvægum heilsufarslegum forvarnaraðgerðum og eru þeir til að mynda ólíklegri en grannir til að fara í skoðun fyrir brjóstakrabbameini, leghálskrabbameini og ristilskrabbameini og í bólusetningar.33
Hvernig getum við takmarkað skaðlegar afleiðingar offitu?
Svarið er einfalt; við getum hætt að fyllast móðursýki yfir „faraldrinum“ sem aldrei kom (allavega í heilsufarslegum skilningi) og skapað samfélag þar sem allir, af öllum stærðum og gerðum, fá tækifæri til að bera virðingu fyrir og þykja vænt um líkama sinn auk þess að bera virðingu fyrir líkömum annarra. Þegar við losnum undan bælandi oki fitufordóma, útlitsdýrkunar og þeirrar svipu sem hugtakið „heilbrigði“ er orðið í dag, verður til samfélag þar sem fólk hefur frelsi til að kynnast sjálfu sér og líkömum sínum án fyrirframgefinna hugmynda og staðalímynda, og um hvað þeir eru og hvað þeir eru færir um. Sjálfkrafa leiðir þetta síðan til bættrar sjálfsmyndar og líkamsímyndar og þar af leiðandi eru meiri líkur á að við hugsum vel um líkama okkar með heilbrigðum lífsvenjum. Og það eru svo sannarlega lífsvenjurnar sem hafa mestu áhrifin á lífsgæði okkar og heilsufar!
Í rannsókn frá árinu 201234 var úrtak 11.761 karla og kvenna skoðað með tillit til áhrifa heilbrigðra lífsvenja á skaðlegar afleiðingar holdafars. Um var að ræða fjórar venjur sem voru þessar; að borða 5 eða fleiri skammta af ávöxtum og grænmeti á dag, stunda reglulega hreyfingu, drekka áfengi í hófi og að reykja ekki. Þeir sem tilheyrðu offituflokki og höfðu ekki tileinkað sér neina af þessum venjum voru í áberandi meiri áhættu fyrir snemmbærum dauðdaga en einstaklingar í kjörþyngd sem höfðu ekki heldur neina af þessum venjum. Hinsvegar, um leið og við bætist ein venja, jafnast áhættan verulega og svo koll af kolli þar til allar fjórar venjur eru komnar. Og þá er enginn munur á líkum á snemmbærum dauðdaga eftir holdafari! Allir þyngdarhóparnir minnkuðu líkurnar til muna með heilbrigðum lífsvenjum, þó að mesta minnkunin hafi orðið meðal þeirra sem tilheyrðu offituflokknum. Með öðrum orðum hefur feitt fólk mest að græða á því að við hættum að tala um offitu sem heilsufarslegan skaðvald!
Menningarlegar ályktanir, ekki vísindalegar, orðnar að heilögum sannleik
Ég skil samt svo vel að þeir sem básúna áhyggjur sínar telji skilaboð sín eiga erindi við almenning. Eins og fyrr segir erum við umkringd menningarlegum ályktunum um tengsl holdafars og heilbrigðis og sjaldan, ef nokkurn tímann, er skorað á þær á faglegum grundvelli. Þetta verður því smám saman að almennri skynsemi og heilögum sannleik.
Það sem við þurfum vitundarvakningu um, er einmitt það; að margt af því sem við teljum okkur vita um áhrif offitu og tengsl hennar á heilsufar er í besta falli ýkt upp úr öllu valdi eða í versta falli á það ekki við rök að styðjast. Það þarf líka að vekja fólk til vitundar um birtingarmyndir fitufordóma og skaðleg áhrif einblíningar á holdafar umfram hegðunar. Ég biðla til heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem láta sig þetta málefni varða að horfa fram fyrir það sem samfélagið kennir þeim og fylgja stefnu Landlæknisembættisins. Hættið að vísa stöðugt til heilbrigðisástands annarra þjóða til að rökstyðja mál ykkar þegar það á einfaldlega ekki við. Og til fjölmiðla: takið samfélagslega ábyrgð ykkar alvarlega og setjið virðingu, jöfnuð og lýðheilsu í sæti fyrir ofan fjölda smella.
Ef að við ætlum að bæta lýðheilsu þjóðarinnar þurfum við að gera það á fræðilegum grundvelli svo að árangurinn skili sér best, og við þurfum líka að gera það á þann hátt að einn afmarkaður hópur eigi ekki í hættu á að verða fyrir skaðlegum áhrifum vegna þess í formi fordóma og mismununar. Við þurfum að hætta að gera feita líkama að blórabögglum fyrir allt sem fer miður í íslensku samfélagi og við þurfum að skapa líkamsvirðingarvænt samfélag, ekki seinna en í gær. Þannig getum við verið stoltar fyrirmyndir annarra þjóða.
Heimildir:
- http://doktor.is/grein/of-fodrud-og-feit
- http://www.visir.is/kallar-a-vitundarvakningu-i-laeknastett/article/2016160318775
- http://www.oecd.org/health/health-systems/health-at-a-glance-19991312.htm
- http://www.hjarta.is/Uploads/document/Timarit/Handbok%20Hjartaverndar.pdf
- http://www.visindavefur.is/svar.php?id=54714
- Laufey Steingrímsdóttir. (1991). Hvað borðum við? Um könnun á mataræði Íslendinga rafræn útgáfa. Heilbrigðismál, 2, 10-16.
- http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11603/skyrsla.pdf
- http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item14901/Hva%C3%B0%20bor%C3%B0a%20%C3%8Dslendingar_april%202012.pdf
- http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11594/hvad_borda_isl_born_og_ungl.pdf
- http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item26131/upplysingar-um-sykurneyslu
- Crandall, C. S. (1994). Prejudice against fat people. Ideology and self-interest. Journal of Personality and Social Psychology, 66, 882–894
- Puhl, R. og Brownell, K.D. (2001). Bias, Discrimination, and Obesity. Obesity Research, 9, 788–805.
- Roehling, M.V., Roehling, P.V. og Odland, M. (2008). Investigating the validity of stereotypes about overweight employees: The relationship between body weight and normal personality traits. Group and Organization Management, 33, 392-424.
- Ata, R.N. og Thompson, J.K. (2010). Weight bias in the media: A review of recent research. Obesity Facts, 3, 41-46.
- Boero, N. (2007). All the news that’s fat to print: the American “obesity epidemic” and the media. Qualitative Sociology, 30, 41–60.
- Teachman, B.A., Gapinski, K.D., Brownell, K.D., Rawlins, M. og Jeyaram, S. (2003). Demonstrations of implicit antifat bias: the impact of providing causal information and evoking empathy. Health Psychology, 22, 68–78.
- Durso, L.E. og Latner, J.D. (2008). Understanding self-directed stigma: Development of the Weight Bias Internalization Scale. Obesity,16, 80-86.
- Seacat, J.D. og Mickelson, K.D. (2009). Stereotype Threat and the Exercise/ Dietary Health Intentions of Overweight Women. Journal of Health Psychology, 14, 556-567.
- Sigrún Daníelsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson (2015). Fordómar á grundvelli
holdafars í íslensku samfélagi. Reykjavík: Embætti landlæknis. Rafræn útgáfa á
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item28261/Holdafarsfordómar_
skyrsla_des.2015.pdf
- Puhl, R.M. og Heuer, C.A. (2010). Obesity stigma: Important considerations for public health. American Journal of Public Health, 100, 1019-1028
- Embætti landlæknis. (2013). Aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu. Rafræn útgáfa á https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Adgerdaraaetlun-til-ad-draga-ur-tidni-offitu.pdf
- http://www.nature.com/ijo/journal/v29/n10/full/0802982a.html
- Gaesser, G. (2002). Big fat lies: The truth about your weight and your health [rafræn útgáfa]. USA: Gürze Books.
- Solovay, S. (2000). Tipping the scales of justice: Fighting weight-based discrimination. New York: Prometheus Books.
- http://www.who.int/nutrition/publications/obesity/WHO_TRS_894/en/
- http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/98243/E89858.pdf
- Bacon, L. (2008). Health at every size: The surprising truth about your weight. Dallas, TX: BenBella Books, Inc.
- Garner, D. M. og Wooley, S. C. (1991). Confronting the failure of behavioral and dietary treatments for obesity rafræn útgáfa. Clinical Psychology Review, 11, 729-780.
- http://www.latimes.com/science/sciencenow/la-sci-sn-bmi-does-not-measure-health-20160204-story.html?platform=hootsuite
- Pronk, N. P., Goodman, M. J., O ́Connor, P. J. og Martinson, B. C. (1999). Relationship between modifiable health risks and short-term health care charges [rafræn útgáfa]. The Journal of the American Medical Association, 282(23), 2235-2239.
- http://www.visir.is/of-feitum-bornum-faekkar/article/2013701039936
- http://leidinafram.is/wp-content/uploads/2014/11/ofbeldi_gegn_bornum_handbok.pdf
- Tara Margrét Vilhjálmsdóttir. (2012). „Pepsi Max fituhlunkar”: Samfélagsleg greining á fitufælni og afleiðingum hennar. Óbirt MA-ritgerð. Sótt af http://skemman.is/stream/get/1946/13546/32446/1/pepsi_max_fituhlunkar_loka1.pdf
- Matheson, E.M., King, D.E. og Everett, C. J. (2012). Healthy Lifestyle Habits and Mortality in Overweight and Obese Individuals. J Am Board Fam Med 2012;25:9–15.