Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Um vanda SDG og frú Önnu Stellu

$
0
0

Elfa Kristín Jónsdóttir birti eftirfarandi greiningu á Facebook og gaf Kvennablaðinu góðfúslegt leyfi til að deila með lesendum okkur:

11694119_10153781573274312_9196269272938085134_n

Um vanda SDG og frú Önnu Stellu:

Vandamál 1: SDG og frú Anna Stella völdu að fara með fé sitt úr landi, burt frá krónunni algóðu. Það stangast alvarlega á við málflutninginn um að krónan sé bjargvættur okkar Íslendinga. Enda virðist sem svo að þeir sem mæra krónuna mest nota hana minnst. Þeir eru með allt sitt í öðrum gjaldmiðlum.
Niðurstaða: Ótrúverðugleiki er alger.

Vandamál 2: SDG hefur látið hjá líða að upplýsa þjóðina um þessa hagsmuni konu sinnar. Hann lætur sem hagsmunir frúarinnar séu alls ótengdir sínum. Samt lætur hann mann í opinberri þjónustu á launum frá þjóðinni svara fyrir hluti sem ber að líta á sem óviðkomandi forsætisráðherra.
Niðurstaða: Tvískinnungur er alger.

Vandamál 3: Skv. grein Kjarnans þá hagnast frú Anna Stella um amk 60 milljónir á því að bönkunum sé leyft að greiða stöðugleikaframlag frekar en að lúta stöðugleikaskatti. Þetta er stór fjárhæð á vísu almúgans en ekki mikið fé á mælikvaðra frúarinnar. Ég hef ekki trú á að þessir hagsmunir frúarinnar hafi ráðið afstöðu SDG, en menn verða sannarlega vanhæfir fyrir minna. Hann situr óneitanlega báðu megin borðsins og slíkt ber að upplýsa um. Hefði SDG upplýst um málið fyrirfram á ég ekki von á að nokkur maður hefði ltiið verulega tortryggnum augum til aðgerða hans. Þarna er það leyndin sem skapar tortryggni. Eins getur maður ekki annað en sett tregðu forsætisráðherra til að setja sér siðareglur undir þetta ljósker.
Niðurstaða: Leyndin er verulega ámælisverð og vanhæfi SDG til staðar.

Vandamál 4: Flutningur á eignum til Tortóla gerist fyrir hrun og fyrir gjaldeyrishöft (og fyrir stjórnmálaþátttöku SDG). Augljóst má því vera að upphaflegi tilgangurinn var skattahagræði enda engin gjaldeyrishöft orðin. Það er því ósatt í málflutningi hjónanna að gjaldeyrishöft hafi ráðið ákvörðuninni. Að „fullur skattur“ hafi verið greiddur hérlendis er svolítið þokukennt orðalag. Til að taka afstöðu til þess þarf að gera grein fyrir þeim sköttum sem greiddir voru og hvaða skattar hefði þurft að greiða ef félagið hefði verið með starfsemi á Íslandi.
Niðurstaða: Ósannindi um tilurð og ónógar upplýsingar um skatta.

Vandamál 5: Ég hef enga trú á að frú Anna Stella sé í hópi hrægamma. Mér dettur ekki í hug að ætla henni slíkt. En þar sem félagið hennar er í slíku skjóli og ekkert hægt að rannsaka það, vitum við ekkert um það. Við verðum bara að trúa blessuðum forsætisráðherra, sem eins og ofangreint sýnir hefur ekki mestan trúverðurleika í málinu.
Niðurstaða: Óhjákvæmileg tortryggni.

Vandamál 6: SDG hefur gefið það út að hann ætli ekki að ræða við fjölmiðla um þetta „einkamál“ konu sinnar sem Jóhannes Þór er þó á fullu í að útskýra. Sem almennur borgari á hann fullan rétt á því. Sem forsætisráðherra er það með öllu óásættanlegt enda er eitt af hlutverkum hans að vera í samskiptum við þjóðina. Þetta er algerlega ólíðandi og eykur tortryggnina til muna.
Niðurstaða: Forsætisráðherra bregst skyldum sínum.

Svo má manni auðvitað finnast undarlegt að frú Anna Stella kalli blaðamann sem leitar upplýsinga Gróu á Leiti.

Heildarniðurstaða: Þetta er mikið skítamál fyrir SDG og frúna og mörg alvarleg mistök hafa verið gerð. Ef hann væri forsætisráðherra í einhverju hinna Norðurlandanna lægi afsögn hans fyrir nú þegar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283