Hafþór Sævarsson skrifar:
Í ljósi frétta og heilbrigðrar skynsemi er eitt víst: Vantraust er algjörlega nauðsynlegt.
Við verðum samt að passa okkur að hoppa ekki bara á ,,eitthvað“ þó vissulega þurfi eitthvað, og sannarlega eitthvað mikið, að gerast. Rétt eins og með voðaverk hryðjuverka er alltaf hætta á að æða í aðgerðir án fyllilegrar ígrundunar.
Ríkisstjórn starfar í umboði þingsins – ekki öfugt
Vantrauststillaga er nauðsynleg, það liggur skýrt fyrir. Ekki síst til að fá skráða afstöðu þingmanna. Og jafnvel heppnast hún, heiður síns vegna munu þingmenn ríkisstjórnarinnar ekki geta gert annað en að gera heiðarlega upp hug sinn. Hver veit. Það er alls ekki útilokað.
Þingrof er hins vegar annað og hefur með umboð þingmanna að gera, þingsins sjálfs, en ekki með ráðherra eða ríkisstjórn að gera. Æskilegt er að vilji til þingrofs verði ekki partur af vantrauststillögu. Það er hægt að hafa þetta aðskildar tillögur, gott og vel, ef vilji er einnig fyrir þingrofi. Rökin fyrir að halda þessu aðskildu varða hlutverk þingsins gagnvart ríkisstjórn. Að ríkisstjórn starfi í umboði þingsins en ekki öfugt. Nauðsynlegt er að efla þingræðið á Íslandi, það liggur einnig ljóst fyrir.
Fyrir það fyrsta, ef þingrofs vilji er samhliða vantrauststillögu, þá geta þingmenn stjórnarmeirihlutans skýlt sér á bak við það, með mismiklum árangri þó, að þeir geti bara ekki sett nafn sitt við að sprengja umboð Alþingis; þeir hefðu annars alltaf og auðvitað lýst vantrausti á tilteknum ráðherra eða ráðherrum í skjóli þingsins. Þingmenn þykjast verja þingið og í nafni þess verja ráðherra. Óþarfi að gefa þingmönnum stjórnarmeirihlutans þann ódýra valkost.
Í annan stað er heilbrigt að þingið geti lýst vantrausti á ráðherrum án þess að þurfa í leiðinni að sprengja sitt eigið umboð upp. Hvers vegna er kamikaze aðferð nauðsynleg til að losna við ráðherra? Ráðherrar brugðust trausti, ekki einstaka þingmenn! Þingrof kallar á sérstök rök sem eru aðskilin nauðsyn vantraustsyfirlýsingar á ráðherra; starfhæfi þingins liggur þar undir. Það má láta reyna starfhæfi þingsins þótt ein lítil vanhæf ríksstjórn missi völdin. Það er gott að láta reyna á starfhæfi þingsins í þeim aðstæðum einfaldlega til að efla þingræðið og færa upp á æðra plan.
Þingið ræður
Í þriðja lagi þá viljum við Píratar efla og aðskilja löggjafavaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ekki bara þegar það er auðvelt heldur líka þegar það er erfitt. Vilji til þingrofs samhliða vantrausti gengur beinlínis gegn því markmiði. Og neitar þingræðinu, þing-ræðinu sjálfu, tækifæri á að vera meira og stærra en einstaka ríkisstjórnir. Í því felst undirgefni við þá viðleitni að þingið er ekkert annað en valdalaus afleiðing ríkisstjórnarræðis. Viljum við samþykkja þá fyrir fram gefnu skoðun ríkisstjórnarræðis á kostnað þingræðisins?
Það þarf ekki að vera þannig, af hverju ekki gefa þinginu smá séns? Af hverju ekki einmitt nota þetta tækifæri til þess?
Vantrauststillaga er nauðsynleg, þingrof er það ekki. Í öllu falli getur aldrei verið verra að aðskilja þessar tvær tillögur.
Í versta falli gullið tækifæri
Og jafnvel ef það kemur út á það sama á endanum, jafnvel ef það kemur út á það sama að vantraust leiði til þess að þingið sjái sér ekki fært að starfa saman og verði rofið, þá getur ekkert slæmt komið úr því ferli. Aðeins æfing í að gefa þingræðinu tækifæri af alvöru. Þá var í öllu falli gerð æfing til að reyna starfa á siðmenntaðan hátt eins og þekkist raunar víða annars staðar. Þá skapar æfingin meistarann.
Er ekki gott fyrir þingmenn að æfa sig í góðum siðum? Hvenær ætlum við að breyta menningunni? Af hverju að neita þingræðinu um það gullna tækifæri? Hver er ókosturinn við það? Hverju höfum við að tapa?
Í öllu falli getur aldrei verið verra að aðskilja þessar tvær tillögur.