Um síðustu mánaðamót komu ný vín frá Argentínu í Vínbúðirnar sem lofa ansi góðu. Víngerðin sem um ræðir heitir Dona Paula og vínin frá þeim hafa hlotið fjölda viðurkenninga úti um allan heim. Margir þekktir vínskríbentar hafa fjallað um þessi vín og gefið þeim góða einkunn og má þar nefna ekki minni spámenn en James Suckling, Robert Parker, Tim Atkins o.fl.
Sagan er ekki löng en fyrirtækið var stofnað árið 1997 þegar fyrsta víngerðin var keypt í Andesfjöllum. Luján de Cuyo heitir hún og er staðsett í Ugarteche (Mendoza), svæði sem er þekkt fyrir frábær malbec-vín. Strax árið 2002 hófst útflutningur þeirra á vínunum og fást þau nú úti um allan heim enda 97% af framleiðslunni flutt út.
Á undanförnum 12 árum hafa fleiri víngerðir bæst við flóruna og markmið þeirra er einfalt: að búa til góð vín á viðráðanlegu verði. Það hefur enda tekist frábærlega og strax árið 2005 fengu þeir hina virtu viðurkenningu „Value brand of the year 2004“ hjá Wine & Spirit-tímaritinu.
Þeir ákváðu strax að vinna náið með náttúrunni og eru afar vistvænir í allri sinni framleiðslu. Slagorðið þeirra er „Listin felst í smáatriðunum“ enda er allt kapp lagt á gæðin í öllu framleiðsluferlinu.
Nokkur vín frá þeim fást nú í Vínbúðunum eins og áður sagði og hér ætlum við aðeins að fjalla um þau.
Los Cardos Chardonnay kr. 1.950
Los Cardos-línan er ódýrasta línan frá Dona Paula en þrátt fyrir hagstætt verð eru vínin verulega vel gerð. Í nefi má finna suðrænan og seiðandi ilm þar sem mangó, ananas og perur koma við sögu. Í munni er það mjúkt og ferskt með sírónutónum. Passar vel með t.d. öllum fiskréttum og sérlega vel með laxi.
Los Cardos Sauvignon Blanc kr. 1.950
Fallegur strágulur litur og þarna má finna ákafan ilm af ástaraldini, greipaldini, læm og hvítri ferskju. Í munni er það ferskt og afar vel uppbyggt og líflegt. Hentar vel steiktum fiski og frönskum (fish & chips) , grilluðum kjúklingi, grískum og mexíkóskum mat með avocado o.s.frv.
Los Cardos Malbec kr. 1.965
Eins og áður sagði er svæðið þekkt fyrir malbec-vínin og þetta vín er verðugur fulltrúi þeirra vína. Bæði Þorri Hrings og Steingrímur Sigurgeirs skrifuðu nýlega dóma um þetta vín og voru á einu máli um að þetta væri „frábær kaup“! 3,5–4 stjörnur hjá þeim fyrir ekki dýrara vín er náttúrlega bara frábær dómur. Látum Þorra um lýsinguna:
„Þetta vín hefur rétt ríflega meðaldjúpan, rauðfjólubláan lit og nokkuð opna angan af sólberjum, sultuðum krækiberjum, sprittlegnum kirsuberjum, plómu, karamellu, kakó, bleki og sveitalegum tónum sem minna á nýjan húsdýraáburð.
Það er all bragðmikið með töluverða sýru og gnægð mjúkra tannína en skortir helst lengdina til að lyfta því upp í fjórðu stjörnuna, en það munar afar litlu og hugsanlega gæti það dýpkað aðeins á fram á haustið. Þarna eru krækiberjahlaup, brómber, plóma, toffí, kaffi og kirsuber. Afar vel gert og matarvænt þrátt fyrir allan slagkraftinn. Vín sem Íslendingar elska og er fínt með rauðu kjöti, bragðmiklum pottréttum og allskyns hægelduðum réttum.“
Los Cardos Cabernet Sauvignon kr. 1.965
Fallegur dökkrauður liturinn gefur fyrirheit um það sem eftir kemur. Kryddaður sterkur ilmur þar sem svartur pipar og sólber eru áberandi. Svört ber og mjúk tannin í munni og eftirbragðið er afar langt. Þetta vín smellpassar með grilluðu lambi og grísakjöti og jafnvel nautakjöti.
Dona Paula Estate Cabernet Sauvignon kr. 2.420
Í þessi vín eru notaðað sérvaldar þrúgur frá bestu vínökrunum enda er útkoman eftir því. Ilmur af svörtum berjum, sólberjum, kryddi og rauðum pipar. Silkimjúkt á tungu með mjúkum en þroskuðum tanninum. Langt og ákveðið eftirbragð. Hentar frábærlega vel með grillinu og öllum alvöru steikum.
Dona Paula Estate Malbec kr. 2.420
Hér er það sama upp á teningnum og með vínið hér að ofan, aðeins sérvaldar þrúgur af bestu vínökrunum notaðar. Fallega fjólublátt á litinn. Í nefi má finna svört ber, krydd og angan af fjólum. Vínið er silkimjúkt með afar góðu jafnvægi. Ferskt steinefnaríkt með góðum tanninum og eftirbragði.
Það verður að segjast eins og er að þessi viðbót frá Argentínu er verulega ánægjuleg.