Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Ansi náttúrulaust ástand“

$
0
0

Jón Baldvin sagði einu sinni að það væri fínt að hafa mann í ríkisstjórninni sem væri doktor í kynlífi laxa og kynni því tökin á stórlöxunum í stjórnarandstöðunni. Sigurður Ingi er næsti bær við. Hann er dýralæknir og var þekktur fyrir að hafa í fullu tré við mannýg naut og sunnlenska gradda.

Það er léttir að því að hafa mann í stjórnarráðinu sem er laus við paranoju og kann þokkalega mannasiði.

Sigurður Ingi er ekki með neina stæla við fólk og ef forlögin hefðu skammtað honum lengri vist í embættinu væri hann líklegur til að verða mikill pater. – Ólíklegt er þó að hann þurfi nokkuð á gömlum töktum að halda úr glímum sínum við ragnandi naut á Suðurlandi. Forysta stjórnarandstöðunnar einsog hún leggur sig er öll í einhvers konar samræðustjórnmálum.

Í hörðustu stormbyljum sem gengið hafa yfir pólitíkina þegar svipt er í einu vetfangi hulunni af raunverulegum andstæðum samfélagsins – auðsöfnun örfárra í skattaparadísum andspænis ræflunum sem híma í fjötrum verðlauss gjaldmiðils – þá talast menn við yfir ræðupúlt þingsins einsog þeir séu í settlegu teboði í Buckingham Palace.

Þrátt fyrir Panamaskjölin og fall forsætisráðherra er bara „business as usual“ á Alþingi. – Samræðustjórnmálin sem allir krefjast eru á góðri leið með að ýta burt ídeólógíu. Það eru allir að reyna að búa til einhvern sameiginlegan flöt, og forðast ágreining. Pólitíkin er orðin að kurteislegu kaffisamsæti.

Stjórnmálaforingjar, lafhræddir við kjósendur og meira og minna í beyglu yfir könnunum, halda að þjóðin vilji átakalaus stjórnmál og kurteist þing þar sem allir eru sem mest sammála. Píratarnir, hið ferska afl, falla furðu vel inn í þetta fjölskylduboð.

Fyrir vikið eru stjórnmálin orðin að miðjumoði þar sem lítill eða enginn ágreiningur er milli flokka. Pólitísk umræða hefur breyst í lágvært suð þar sem erfitt er að greina einhverja dýpri ídeólógíu. Átakafælni samræðustjórnmálanna máir smám saman burt sérkennin. Um leið hefur pólitíkin orðið innhverf og horfir ekki út fyrir landsteinana.

Fjarlægðin á milli Sigurðar Inga, Helga Hrafns, Katrínar Jakobsdóttur, Óttars Proppé og Árna Páls er næsta lítil – jafnvel engin. Það er helst að Bjarni Benediktsson sé í svolítilli fjarlægð – og hann hefur ídeólógíu þó hún sé ekki að mínu skapi.

Þetta er ansi náttúrulaust ástand. – Samt eru framundan meiri tækifæri en áður til að breyta samfélaginu. Kosningar á næsta leiti, og efnahagslegur uppgangur síðan 2010. Andspænis þessu þarf stjórnarandstaðan, ekki síst minn flokkur, að endurskilgreina sig, setja sér skýr stefnumörk. Stjórnarandstaðan þarf að vita hvernig hún vill vinna saman – fyrir og eftir kosningar.

Hún á ekki að vera hrædd við hörð átök svo fremi þau snúist um vel skilgreind félagsleg markmið. Um það snýst pólitík og lýðræðið. – Annars er hætt við að Sigurði Inga gangi vel að svæfa menn yfir kurteisu spjalli í Stjórnarráðinu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283