Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tæpt prósent í mars. Þetta kemur fram í Hagsjá, fréttabréfi greiningadeildar Landsbankans. „Síðustu 12 mánuði hefur fjölbýli hækkað um 8,7%, sérbýli um 3,6% og er heildarhækkunin 7,4%,“ segir í tilkynningu bankans. Þá kemur fram að fasteignaviðskipti hafa aukist nokkuð frá því á sama tíma og í fyrra.
„Séu viðskiptin fyrstu þrjá mánuðina í ár borin saman við sama tíma 2015 kemur í ljós að þau eru töluvert meiri í ár, um 1.800 nú á móti um 1.500 í fyrra. Meðalviðskipti fyrstu þriggja mánaða ársins eru þannig fleiri en var að meðaltali á öllu árinu 2015.“
Þá kemur fram að enn skorti framboð til að hafa í við eftirspurn.
„Tölur Hagstofunnar um íbúðafjárfestingu og tölur um hlutfall nýrra íbúða af seldum íbúðum styðja þá skoðun okkar að töluvert vanti upp á að framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu anni eftirspurn og að umframeftirspurnin ýti undir hækkun fasteignaverðs.“
Ríkisstjórnin er vandinn ekki lausnin
Ríkisstjórnarflokkarnir eru klofnir í húsnæðismálum. Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra hefur ekkert gengið að fá húsnæðisstefnu sína í gegn. Tveggja ára saga árangursleysis blasir við. Þrátt fyrir það sagði Eygló nýlega að ástæða þess að ríkisstjórnin gæti ekki orðið við vilja um kosningar væri staða húsnæðismála. Í varnarræðu ráðherrans gegn vantrausti ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar sagðist hún halda í ráðherrastól fyrir fólk án húsnæðis.
„Af hverju ekki að hætta þessu bara og boða strax til kosninga? Svar mitt er það sama og hefur hvatt mig áfram allt þetta kjörtímabil. Það er fólkið sem biður um hjálp við að tryggja sér öruggt húsaskjól. Ungi maðurinn sem er á götunni og gistir til skiptis hjá foreldrum vina sinna, einstæði faðirinn sem býr í tíu fermetra herbergi með stöðugum músagangi og getur ekki boðið börnunum sínum í heimsókn til sín, ungi námsmaðurinn sem sér ekki fram á að hann muni nokkurn tíma hafa efni á útborgun í litla íbúð, hvað þá að komast inn á nemendagarða úr bílskúrnum sem hann leigir, eldri konan á örorkubótunum sem neyddist til að flytja inn til dóttur sinnar þar sem hún hafði ekki efni á íbúðinni sinni. Þetta er það sem hvetur mig áfram. Nánast á hverjum degi berast mér símtöl, skilaboð, tölvupóstar frá fólki, venjulegu íslensku fólki, sem býr við húsnæðisvanda. Úrlausn vanda þeirra verður að vera eitt af lykilmálunum á þessu þingi. Því fyrr sem við getum lokið þeim verkefnum, því fyrr getum við kosið.“
Ráðherra húsnæðismála síðan 2013 lýsir skelfilegu ástandi húsnæðismála sem rök fyrir því að hún haldi vinnunni. Einstæður faðir sem býr í 10 fermetra herbergi með músagang, dreng sem býr á götunni og eldri kona á örorkubótum sem býr inni á dóttur sinni.
Sjá einnig:
- Eygló rígheldur í völd fyrir „fólkið sem biður um hjálp við að tryggja sér húsaskjól.“
- Eru allir ómissandi?
- Eygló Harðardóttir verður að segja af sér.
- Hver er hinn raunverulegi óvinur húsnæðissamvinnufélaga?
- „Plís“ Framsókn ekki klúðra húsnæðismálunumu
- Veruleiki almennings
Ríkisstjórnin þverklofin í húsnæðismálum
Á yfirstandandi þingi hefur ráðherrann lagt fram fjögur mál sem öll tengjast húsnæðismálum og eru föst í nefnd ef frá eru talin lög um húsnæðissamvinnufélög sem samþykkt voru í vikunni. Markmið laganna er að auðvelda rekstur húsnæðissamvinnufélaga og telst varla til hinna stóru mála þegar kemur að húsnæðismálum á Íslandi.
Ósamþykkt eru frumvörp ráðherra um almennar íbúðir, húsaleigulög og lög um húsnæðisbætur. Lög um húsnæðisbætur eru hluti af loforðum ríkisstjórnarinnar vegna kjaraviðræðna við ASÍ í fyrravor. Ítarlega var fjallað um stöðu frumvarpanna í Speglinum á RÚV í janúar síðastliðnum. Þá sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að ríkisstjórnin væri á skilorði vegna málsins enda hefði átt að samþykkja frumvörpin síðasta haust.
Áherslur ríkisstjórnarflokkanna eru ólíkar í húsnæðismálum og það veldur töfunum. Þá virðist Eygló ekki njóta þess stuðnings sem hún þarf á að halda í Framsóknarflokknum til að Sjálfstæðisflokknum sé stillt upp við vegg vegna málsins. „Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvörpin. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þó með fyrirvara enda áherslur flokkanna í húsnæðismálum ólíkar. Frumvörpin eru nú til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis. En hvað verður um þau?“ segir í umfjöllun Spegilsins.
Ólína Kjerúlf Þovarðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar og fulltrúi í velferðarnefnd Alþingis, sagði við Spegilinn að yfirlýst stefna frumvarpa Eyglóar rími ágætla við boðaða stefnu Samfylkingarinnar í húnsæðismálum. Samfylkingin ætlaði sér því að vinna með frumvarpinu. Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi VG í velferðarnefnd, sagði við Spegilinn að enn væru margir endar lausir í málinu.
Umfjöllun heldur áfram fyrir neðan myndina
Ungir beri ábyrgð á stefnuleysi kynslóðar foreldra þeirra
Á meðan húsnæðismálaráðherra kemur engu í gegn hefur í raun ekki verið húsnæðisstefna í landinu. Sífellt þrengir að þeim hópi sem ekki kemst í gegnum greiðslumat og margar aðgerðir yfirvalda virðast beinlínis stefna að því að minnka aðgengi að lánsfé. Ungt fólk er því fast á leigumarkaði og kemst ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að standa undir rándýrri leigu. Samhliða hækkandi fasteignaverði hefur húsnæðismálaráðherra gengið til liðs við smáíbúðarsamtök, lagt til að ungt fólk fresti námi, eigi ekki snjallsíma og búi hjá foreldrum sínum sem og að vera áhugamanneskja um mínímalíska byggingareglugerð. Liðin er sú tíð að stjórnmálafólk beitti sér fyrir heilsusamlegu og vel byggðu húsnæði.
Ömurlegt ástand á húsnæðismarkaði
Í janúar var hálfniðurgrafið rými upp á um sextán fermetra auglýst til sölu á um tíu milljónir. Rýmið er ósamþykkt og því er ljóst að erfitt gæti reynst fyrir kaupendur að tryggja lánsfé á góðum kjörum. Fátt bendir til þess að slíkt rými gæti á nokkrum tímapunkti fengist samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Nokkrum dögum síðar var tuttugu fermetra útihús í miðbænum í slæmu ásigkomulagi auglýst á tíu milljónir.
„Þetta hljómar bara eins og sama ástand og var hérna um stríð og rétt eftir stríð. Þá bjó fólk í kjöllurum og alls staðar þar sem mátti troða fólki,“ sagði Ingibjörg Þórðardóttir, fyrrverandi formaður Félags fasteignasala, við MAN magasín sem fjallaði um málið.
Ingibjörg sagði bilið milli þeirra sem geta keypt og þeirra sem geta það ekki stöðugt vera að breikka. Þá lýsti hún úrræðaleysi yfirvalda og þeirra sem fara með hagstjórnarhlutverk og áhrif á markaði. „Verkó kemur í kringum 1935 því það var verið bæta úr neyðinni sem var á húsnæðismarkaði því fólk bara var hérna í ónýtu húsnæði. Að voga sér að bjóða 16 fermetra á tíu milljónir – þetta er eiginlega á mörkum þess að geta talist siðlegt.“ Ingibjörg lýsir áhyggjum yfir því að á sama tíma og séreignarstefnan sé töluð niður sé úrræðaleysið talsvert. Hún lýsir anda sjálfsblekkingar og getuleysis til stefnumótunar og aðgerða. „Það er einhver tálsýn í gangi meðal margra að hér komi bara einhver góður riddari á hvítum hesti og ætlar bara að fara að leigja fólki á niðursettu verði. Sá á að leigja eins og góðgerðarfélag. Þetta er bara ekki svona. Þú þarft ekki annað en að horfa á hvað er að gerast; gróðasjónarmiðin eru alls ráðandi.“
Umfjöllun heldur áfram fyrir neðan myndina
Ótrúlegar hækkanir
Heilt yfir þá hækkaði fasteignaverð árið 2015 um í kringum tíu prósent. Hækkunin er mismikil eftir svæðum. Mest hafa íbúðir hækkað í 101 og á svæðunum í kring. Spenna er farin að myndast á markaði með íbúðir í úthverfum enda margir farnir að leita þangað. Fyrir vikið er farið að gæta nokkurrar hækkunar í þeim hverfum líka. Greiningadeildir bankanna birta reglulega skýrslur um stöðu á fasteignamarkaði ásamt spá um þróun næstu mánuða.
Í skýrslu greiningadeildar Íslandsbanka sem kom út í árslok 2015 kemur fram að bankinn telji að fasteignaverð muni hækka um tæp átta prósent árið 2016. Það er í samræmi við þá hækkun sem verið hefur undangengin ár. „Frá árinu 2010 hefur íbúðaverð hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum eða um 40,2% og 36,5%. Á Suðurnesjum hefur íbúðaverð hækkað minnst frá árinu 2010 eða um 4,5%,“ segir í úttekt bankans. Þá er bent á að fasteignaverð er ekki aðeins að hækka hratt á höfuðborgarsvæðinu. „Á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2015 hækkaði íbúðaverð á Vestfjörðum mest eða um 19% og næstmest á Vesturlandi eða um 7,9%. Íbúðaverð hækkaði minnst á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra eða um 5% í báðum landshlutum. Hækkun á höfuðborgarsvæðinu nam 7,2% yfir sama tímabil.“
Hlutfallslega er hækkunin umtalsverð á Vestfjörðum en hafa verður í huga að fasteignaverð þar er það ódýrasta á landinu og því er ef til vill einhver hækkun eðlileg. Sterk rök mæla þó gegn svo harkalegri hækkun á stuttum tíma. Það er í besta falli ekki heilbrigðismerki og getur þýtt að verð hafi um nokkurn tíma einfaldlega verið svo lágt að ekki taki að byggja. „Fermetraverð er hæst á höfuðborgarsvæðinu en það sem af er árinu 2015 var það um 315 þús. kr. að meðaltali. Íbúðaverð á landsbyggðinni er töluvert lægra en dýrasti landshlutinn er Norðurland eystra þar sem fermetraverð er um 199 þús. kr. en sá ódýrasti er Vestfirðir þar sem fermetraverð er um 97 þús. kr. Íbúðaverð í dýrasta landshlutanum er því um 3,25 sinnum dýrara en í þeim ódýrasta.“
Algengt verð fyrir smærri íbúðir tiltölulega miðsvæðis í Reykjavík er um þrjátíu milljónir. Almennt er ekki í boði að fá lánahlutfall sem er mikið hærra en um 80% af virði íbúðarinnar. Með einföldum reikningi má því ganga út frá því að fyrstu kaupendur þurfi að eiga í kringum fimm til sex milljónir í innborgun. Þar er málinu þó ekki lokið því skilyrði greiðslumats eru nokkuð ströng meðal annars vegna þess að miðað er við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins sem eru umtalsvert hærri en flestir búa við.
Framfærsluviðmið og laun
Þótt velferðarráðuneytið gefi út og reikni almennt lágmarksframfærsluviðmið þá er raunin sú að laun halda ekki í við þau viðmið. Einstaklingar sem starfa á strípuðum töxtum og lægstu launum ná þannig flestir ekki upp í slík viðmið. Sé dæmi einstaklings á höfuðborgarsvæðinu sem ekki hefur barn á framfærslu skoðað út frá viðmiðum velferðarráðuneytis sést að krafan er að sá hinn sami hafi tæplega 240 þúsund í tekjur eftir skatt til að eiga fyrir gjöldum öðrum en húsnæði. Þetta er það viðmið sem flestar bankastofnanir nota. Á sama tíma eru lágmarkslaun í landinu um 300 þúsund.
Einstætt foreldri á höfuðborgarsvæðinu með tvö börn á leikskólaldri þarf svo að þéna tekjur upp á tæplega 400 þúsund eftir skatt áður en hann stenst greiðslumat. Hjón sem búa á höfuðborgarsvæðinu með tvö börn á leikskólaaldri þurfa svo samkvæmt sömu viðmiðum að þéna um 550 þúsund eftir skatt. Þess skal þó getið að hjá Umboðsmanni skuldara hafa verið reiknuð framfærsluviðmið sem eru örlítið önnur.
Umboðsmaður skuldara byggir útreikninga sína á gögnum frá Hagstofu Íslands. Þar er gert ráð fyrir að barnlaus einstaklingur þurfi um 130 þúsund til gjalda annarra en húsnæðiskostnaðar, reksturs bifreiða, leigu eða fasteignakaupa svo dæmi séu tekin. Það er í þessu samhengi sem vert er að hafa í huga að árið 2018 verður tekjutrygging starfsmanna sem starfað hafa hjá fyrirtæki í fjóra mánuði um 300 þúsund á mánuði. Í samantekt ASÍ frá því snemma árs 2015 kemur fram að meðaltekjur á Íslandi séu í kringum 400 þúsund.
Í lok árs 2014 fjallaði Morgunblaðið um laun á Íslandi sem byggði á upplýsingum frá Hagstofu Íslands. „Regluleg mánaðarlaun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 436 þúsund krónur að meðaltali árið 2013. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 250–300 þúsund krónur og voru ríflega 17% launamanna með regluleg laun á því bili. Þá voru rúmlega 75% launamanna með regluleg laun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun karla voru 475 þúsund krónur að meðaltali og regluleg laun kvenna 393 þúsund krónur,“ segir í fréttinni. Hafa verður í huga að hér er um tölur fyrir árið 2013 og snemma árs 2014 að ræða.
Hagstofan birti tölur í desember árið 2015 um laun á Íslandi þar sem kemur fram að: „Árið 2014 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 5,1 milljónir króna að meðaltali á ári eða 421 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 6,6% frá árinu 2013. Atvinnutekjur, sem innihalda launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur, voru 3,6 milljónir króna að meðaltali á ári eða um 300 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 5,5% frá fyrra ári. Aðrar tekjur voru rúmlega ein milljón króna árið 2014 og höfðu hækkað um 7,4% á milli ára. Ráðstöfunartekjur voru 3,7 milljónir króna á ári og höfðu hækkað um 6,7% á milli áranna 2013 og 2014.“
Umfjöllun heldur áfram fyrir neðan myndina
Séreignarstefnan aftengd
Að forminu til er enn séreignarstefna við lýði á Íslandi. Það er sú stefna yfirvalda að sem flestum verði gert kleift að kaupa og eiga eigið húsnæði. Raunin er þó sú að eftir hrun hefur orðið eðlisbreyting á húsnæðismálum almennings. Fjallað er um þessa breytingu í skýrslu Arion banka sem ber heitið Horfur á fasteignamarkaði til 2017 og kom út í desember árið 2014. „Árið 2007 voru um 17% allra íslenskra heimila á leigumarkaði, en hlutfallið var nær 27% árið 2013. Þetta þýðir að rúmlega 13.000 fleiri íslensk heimili voru í leiguhúsnæði árið 2013 heldur en rétt fyrir hrun. Á sama tímabili fjölgaði heimilum um rúmlega 6.000, svo fjölgun heimila í leiguhúsnæði umfram fjölgun heimila var um 7.000.“ Þessi breyting hefur átt sér stað þrátt fyrir úrræðaleysi yfirvalda frá hruni.
Leigjendur búa við mikið óöryggi, hækkandi verð og gríðarlega keppni um allra íbúðir. Þá er hættan sú að fólk festist á leigumarkaði og hafi aldrei raunverulegt tækifæri til að kaupa eigið húsnæði. „Síðan í byrjun árs 2011 hefur leiguverð að jafnaði hækkað um 7% umfram íbúðaverð, 11% umfram laun og 23% umfram almennt verðlag. Í október á þessu ári hafði leiguverð hækkað um 8,7% frá sama tíma í fyrra á meðan íbúðaverð og laun hækkuðu um 6,6%. Almennt verðlag hækkaði aðeins um 1,9% á sama tímabili og er því um tilfinnanlega raunverðshækkun að ræða,“ segir í skýrslu Arion banka. Sama skýrsla spáir verulegum verðhækkunum á næstu árum. „Greininingadeild spáir árlegri 7-8 % hækkun á verði íbúðarhúsnæðis næstu tvö árin. Aukin innlend eftirspurn, vaxandi kaupmáttur og bati á vinnumarkaði mun styðja við áframhaldandi hækkun fasteignaverðs. Við teljum að fasteignaverð í fjölbýli muni halda áfram að hækka hraðar en verð á sérbýli, a.m.k. til skamms tíma.“
Leigjendur hafa það verra en húsnæðiseigendur
Þeir sem greiða 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum til húsnæðis eru taldir búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Á Íslandi sýna hagtölur svo óumdeilt er að leigjendur eru líklegri til að búa við slíka stöðu. Árið 2013 bjuggu tæplega tuttugu prósent leigjenda í flokki þeirra sem búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í hagtíðindum sem fjalla um barnafátækt og birtust í lok árs 2014 kemur fram að einstæðir foreldrar séu líklegri til að vera á leigumarkaði. Börn einstæðra foreldra eru um leið líklegri til að líða skort.
„Árið 2013 voru 30,8% barna einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum og 25% skorti efnisleg gæði. Til samanburðar má nefna að 6,2% barna sem deildu heimili með tveimur fullorðnum voru undir lágtekjumörkum og 4,1% skorti efnisleg gæði.“
Þrátt fyrir loforð og stefnumótun ríkisstjórna hefur ekki tekist að koma á fót traustum og öruggum leigumarkaði sem býður upp á sams konar langtímaöryggi og húsnæðiseign. Það er ekki sjálfkrafa verra að leigja í stað þess að kaupa. Vandi leigjenda hér á landi byggist fyrst og fremst á því að verulega skortir á að yfirvöld, ríki og bær, sinni hagstjórnar- og regluverkshlutverki sínu. Leigjendur eru því iðulega fastir á leigumarkaði sem er fálmkenndur, ofþaninn og óöruggur. Undanfarin ár hefur borið á að til verði stærri leigufélög og sjóðir sem fjárfesta í íbúðum til leigu. Þekktasta dæmið er fyrirtækið Gamma sem á hundruð íbúða.
Komið hefur fram að Gamma ætli sér að eiga um 1.200 íbúðir í heildina. Gísli Hauksson, forstjóri fyrirtækisins, sagði í viðtali við Fréttablaðið, í mars 2014, að markmið félagsins væri að reka „klassískt leigufélag af skandinavískri fyrirmynd, þar sem fólk geti leigt til langs tíma“. Um ástæðu þess að fyrirtækið hóf þessa vegferð segir Gísli: „Við fórum nákvæmlega yfir markaðinn, töldum íbúðir og skoðuðum lýðfræði og mannfjöldaþróun Íslendinga og niðurstaðan var einfaldlega sú að það var lítið sem ekkert af lausum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt væri að framundan væri mjög mikil vöntun á slíku húsnæði.“
Gamma er að sjálfsögðu fyrirtæki sem rekið er með gróðasjónarmið í huga. Það er því ef til vill ákveðin einföldun af hálfu yfirvalda að telja sér trú um að fyrirtækið geti eitt og sér rekið húsnæðisstefnu með manngildi í huga.
Íbúðalánasjóður stofnaði árið 2013 Leigufélagið Klett sem tók yfir rúmlega fimm hundruð fasteignir sjóðsins. Í tilkynningu um stofnun félagsins kemur fram að sjóðurinn eigi á þeim tíma um 1.700 fasteignir en þar af séu um 400 í útleigu. Frá upphafi stóð til að selja fyrirtækið. Ákvörðun um söluferli var tekin í nóvember árið 2015. Félagið er enn í eigu sjóðsins en í söluferli. Við stofnun Kletts sagði Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem lést í okbótber síðastliðinn, að tilgangur félagsins væri að efla leigumarkaðinn. Þar kom í verki stefnubreyting yfirvalda eða réttara sagt viðbrögð við breyttri stöðu húsnæðismála. „Það er ekki hluti af starfsemi Íbúðalánasjóðs að reka leigufyrirtæki til langs tíma,“ sagði Eygló við Vísi vegna sölunnar.
Hér birtist einmitt veruleiki þess að á Íslandi er húsnæðistefnan í raun hvorki séreignarstefna né virkur leigumarkaður fyrir láglaunafólk. Það er þrátt fyrir að á yfirvöldum megi skilja að markmiðið sé val fyrir almenning um leigu eða kaup. Leiguverð helst í hendur við fasteignaverð, kostnað við kaup og rekstur auk arðsemiskrafna fjárfestinga. Það er því eitt og sér ekki endilega til góðs fyrir þá sem þegar standa höllum fæti að stórir fjárfestingasjóðir reki leiguhúsnæði.
Umfjöllun heldur áfram fyrir neðan myndina

Bjarni Benediktsson (Sj.) i talarstolen vid Nordiska rådets session i Stockholm 2009. Foto: Johann
Verðtrygging og lánafyrirkomulag
Fjörutíu ára verðtryggð fasteignalán eru algeng á Íslandi. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að minnka vægi verðtryggingar á lánamarkaði. Í þeim tilgangi skilaði nefnd um afnám verðtryggingar skýrslu í janúar árið 2014. Verðtryggingin er rótgróin íslensku efnahagslífi og afnám hennar er því ekki einfalt mál. Þá flækir það vandann að Íbúðalánasjóður fór afar illa út úr hruninu og ákvörðunum yfirvalda og stjórnvalda á árunum fyrir hrun. Sjóðurinn sem upphaflega var stofnaður „til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og að allir hafi jafna möguleika á að eignast húsnæði“ er því um leið orðin umtalsverð hindrun í afnámi verðtryggingar. Þá eru lífeyrissjóðir stór hluti af íslensku efnahagskerfi og ber að verðtryggja lífeyri. Það eykur um leið flækjustig afnáms að almenningur er í raun fjármagnseigandi í gegnum lífeyrissjóði.
Enn einn vandi er svo að þrátt fyrir að fjörutíu ára verðtryggð lán séu óhagstæð þá hafa þau þó þann kost að greiðslubyrðin er sveiflujafnari en óverðtryggð lán. Það er vegna þess að verðbólgan bætist fyrst og fremst á höfuðstólinn en fer ekki beint í mánaðarlegar greiðslur með sama hætti og óverðtryggð lán. Þau eru því aðgengileg fyrir hóp fólks sem ekki stæðist greiðslumat fyrir óverðtryggð lán til 25 ára. Þar liggur hluti vandans. Húsnæðistefna hver sem hún er, verður að byggja á því að allir eigi húsaskjól.
Sérstök umræða um verðtrygginguna var haldin á Alþingi um miðjan febrúar. Þar sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að um fjörutíu prósent þeirra sem í dag eru með verðtryggt 40 ára lán myndu ekki standast greiðslumat fyrir 25 ára óverðtryggð lán sem er sá valmöguleiki sem stendur til boða. „Þetta er fólkið sem hefur minnst á milli handanna,“ sagði Bjarni um málið. Það er því engin lausn í sjónmáli.