Sara Hlín Hilmarsdóttir er ein af vinsælustu mömmubloggurum landsins og skrifar á blogginu Fagurkerar sem er skemmtilegt blogg fyrir mömmur og reyndar pabba líka. Fagurkerar var stofnuð fyrir tveimur árum síðan og er stærsta mömmublogg landsins!
Sara Hlín lýsir sjálfri sér svo:
25 ára landsbyggðar tútta með ástríðu fyrir hönnun og tísku. Er fiskur í húð og hár með tilheyrandi stórum dagdraumum og dramatík. Ég á einn ofur grallara, hann Arnar Mána, fæddan í janúar 2013. Ég er forfallinn súkkulaði og kaffi fíkill og dreymir um að búa í París. Dekurrófa með dýran smekk sem elskar að eyða tíma með vinum og fjölskyldu.
Kvennablaðið deilir hér grein eftir Söru Hlín og óskar Fagurkerum til hamingju með skemmtilega vefsíðu.
Allt sem ég ætlaði mér að gera í fæðingarorlofinu…
„Þegar ég var ólétt af Arnari Mána þá eyddi ég megninu af meðgöngunni föst uppi í sófa þar sem að ég var svo slæm í grindinni og gat lítið annað gert. Það sem ég hlakkaði því mest til við að fæða var að ljúka þessari blessuðu meðgöngu og geta hreyft mig almennilega aftur. Það gleymdist víst að segja mér að þremur árum seinna myndi grindin enn vera að plaga mig…
En ég horfði einnig rósrauðum augum á fæðingarorlofið. Ég vissi nú alveg að þetta yrði ekki mikið ‘orlof’ enda hellings vinna sem felst í því að eignast barn. En ég ætlaði mér að nýta þennan tíma svoooo vel… hér eru nokkur atriði sem ég (í svakalegu bjartsýniskasti) ætlaði mér að gera á meðan ég var heima með Arnar Mána.
Vera dugleg að fara út að labba með vagninn
Ég man eftir fyrsta göngutúrnum okkar með Arnari. Þessi mega krúttlegi og rómantíski fyrsti göngutúr sem pör fara í með nýburann sinn. Ég fæ enn hroll við að hugsa um þennan göngutúr í dag… Barnið svaf í smá stund eða svona akkúrat nógu lengi til þess að við vorum komin alla leiðina niður í bæ. Þá vaknaði hann og byrjaði að orga… og barnið öskraði úr sér lungun alla leiðina aftur heim.
Ég var svo ósofin og ringluð að ég grenjaði bara með honum. Ég var frekar scarred eftir þessa gönguferð og það leið langur tími þangað til ég treysti mér aftur með hann út að labba.
Eftir nokkra mánuði komust nú samt göngutúrarnir aðeins inn í rútínuna okkar en þeir urðu aldrei að þessu góða „work-out“-i sem ég ætlaði mér til að losna við mömmumagann. Kaffi og súkkulaði á þessum tíma heillaði töluvert meira.
Nýta tímann á meðan að barnið svæfi til að lesa bækur, elda, baka…
HAHH! Einmitt…ég hlæ líka að þessari hugmynd í dag. Blessað barnið byrjaði ekki að sofa almennilega á daginn fyrr en eftir þó nokkrar vikur og þar sem að ég þurfti að gera mér lítið fyrir og hafa hann á brjósti, rugga honum, halda í hendina hans og syngja Hjólin á strætó allt á sama tíma – bara til þess að svæfa hann þá langaði mig barasta ekkert að fara að baka þegar hann loksins var kominn út í vagn.
Nei, að liggja í sófanum og stara á loftið – gjörsamlega steikt í hausnum af svefnleysi –var meira það sem var á dagskránni á meðan hann svaf.
Fara reglulega á mömmuhitting og á kaffihús
Arnar Máni var svakalegt kveisubarn og satt best að segja þá þorði ég varla með hann út úr húsi fyrstu mánuðina. Sú rómantíska hugmynd að kíkja á kaffihús með vinkonunum eða mömmuhópnum á meðan að barnið svæfi út í vagni eða léki sér fallega á meðan var því fljót að gufa upp. Ég átti hins vegar gífurlega mörg góð deit með kaffivélinni heima.
Taka mánaðarmyndir af barninu, gera tásu og putta listaverk og nota allar hinar hugmyndirnar af Pinterest
Kannski með næsta barn..
Halda heimilinu hreinu og fínu, alltaf
Ég hugsaði með mér að eftir fæðinguna myndi ég loksins endurheimta líkamann minn og grindin myndi leyfa mér að taka upp ryksuguna á ný. Ég myndi bara nýta tímann á meðan að barnið svæfi til að þvo þvott, ganga frá og taka til. Það gerðist ekki fyrstu mánuðina get ég sagt ykkur. Sem betur fer á ég heimsins bestu mömmu og tengdamömmu sem kíktu öðru hverju við og þrifu húsið, svona þar sem ég var upptekin af því að vera með öskrandi barn í fanginu.
Vera fullkomin mamma
Ef það er eitthvað sem ég lærði af þessu fyrsta ári með Arnari Mána var að það er ekkert til sem heitir fullkomin mamma. Við gerum allar mistök og þau eru líka til þess að læra af þeim. Fyrstu ár barnsins er það að uppgötva svo margt og læra á lífið og það sama á við um okkur foreldrana, við þurfum að læra á nýtt líf með þessari nýju manneskju. Það er lærdómsríkt, erfitt, krefjandi en umfram allt yndislegt… alveg sama hvort að heimilið sé í rúst eða ekki.