„Horfur í efnahagslífinu eru bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi í 8 ár,“ segir í Hagspá ASÍ sem birt var í gær. „Spáð er kraftmiklum hagvexti á þessu ári, 4,9%, og að jafnaði 3,8% vexti á árunum 2017–2018. Vöxturinn hvílir á vaxandi kaupmætti, uppgangi í ferðaþjónustu og aukinni fjármunamyndun atvinnuveganna og sést bæði í auknum þjóðarútgjöldum og áframhaldandi vexti útflutnings.“
Þá segir Hagdeild ASÍ að í slíkum efnahagslegum uppgangi finnist áskoranir og mikilvægt sé að hagstjórn miði að því að tryggja efnahsglegan stöðugleika á næstu árum. „Skýr merki um spennu sjást nú á vinnumarkaði, vöxtur innlendrar eftirspurnar er mikill en hagfelld þróun á hrávöruverði og gengi krónunnar hafa haldið verðbólgu lágri og verðstöðugleikinn er því brothættur. Verðbólga helst lág á þessu ári, 1,9% að jafnaði, en þrýstingur til hækkunar verðlags mun aukast eftir því sem líður á árið og verðbólga verður um 3,1% á árunum 2017–2018 að mati hagdeildar ASÍ.“
Bent er á að styrking krónunnar myndi draga úr verðbólguþrýstingi. „Hagdeildin gerir ráð fyrir kraftmiklum vexti einkaneyslunnar á spátímanum sem rekja má til jákvæðrar þróunar á fjárhagsstöðu heimilanna. Hagvísar styðja mat hagdeildar upp á 6% vöxt einkaneyslunnar á þessu ári og því útlit fyrir að vöxturinn verði sá mesti frá árinu 2007.“
Ríkið enn svellt og undirfjárfest
Í greiningunni kemur fram að fjárfesting hins opinbera sé í sögulegu lágmarki og fátt bendi til þess að breyting verði á því í fyrirsjáanlegri framtíð, þrátt fyrir batnanadi stöðu ríkissjóðs. Núverandi stjórnarflokkar hafa af þráhyggju mælt árangur í því einu að reka hallalaus fjárlög. Afleiðing þess, sem og aðgerða eftir hrun, er uppsöfnuð þörf á innviðafjárfestingu viðæðstu stjórn ríkis, á sveitarstjórnarstigi, í menntakerfinu, heilbrgiðiskerfi og vega og veitukerfi. Þá hefur gríðarleg fjölgun ferðamanna aukið álag á innviðum landsins.
„Skýr merki um spennu sjást á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka mælist tæp 83%, þriðjungur fyrirtækja finnur fyrir skorti á starfsfólki og útlit er fyrir að eftirspurn eftir vinnuafli haldi áfram að aukast á næstunni. Erfitt mun reynast að mæta aukinni vinnuaflseftirspurn innanlands og því líklegt að erlendu starfsfólki fjölgi. Ofangreind þróun mun draga úr atvinnuleysi og það kann að verða á bilinu 2,4–2,6% á spátímanum.“