Ótti hefur haldið mér í heljartökum svo lengi sem ég man eftir mér. Óttinn við að gera mistök. Óttinn við að vera ekki fullkomin. Óttinn við að lenda í aðstæðum sem ég hef ekki stjórn á. Augljóslega hefur þetta hamlandi áhrif á líf mitt. Verst er að ég gerði mér ekki fulla grein fyrir því fyrr en nýlega. Ég er búin að eyða endalausri orku í að öfundast út í aðra fyrir velgengni á meðan ég hef barið á sjálfri mér. Ég var föst í þeirri kreddu að enginn hefði þurft að hafa fyrir neinu.
Óttinn veldur stanslausum kvíðahnút. Ég finn fyrir honum á hverjum einasta degi. Ég vissi ekki betur en að það væri eðlilegt ástand. Það er ekki tilviljun að orðið yfir þessa tilfinningu er kvíðahnútur.
Það er eins og það sé búið að binda hnút af vanlíðan og koma honum fyrir undir miðjum brjóstkassanum, sem ýtir svo í innyflin og veldur líkamlegri vanlíðan.
Mismikilli reyndar eftir aðstæðum, en nagandi kvíðinn hverfur aldrei alveg.
Í mínu tilviki er ég að verða þrítug og get ekki lengur skýlt mér bak við að vera unglingur. Ég þarf að horfast í augu við allt sem ég hef misst af vegna eigin ótta. Það er glatað að hugsa til þess hvað ég hefði getað gert hefði hræðslan við mistök ekki stoppað mig, aftur og aftur.
Nú hef ég lært að þetta ástand er ekki meðfætt, þetta er ekki heilbrigt og þetta er alls ekki ásættanlegt. En sem betur fer þýðir það að ég geti tekist á við það.
Fyrsta skrefið var að skilja það að það er enginn sem getur breytt þessu nema ég sjálf.
Ég þurfti að sætta mig við það að vita ekki allt best. Ég var sannfærð um að ég væri að gera rétt með því að takast ekki á við áskoranir.
Ég þurfti að læra að gagnrýni á þessa hegðun mína kemur af vinsamlegum hvötum þeim sem vilja að mér líði vel. Ég þurfti að opna augun fyrir óendanlega mörgum möguleikum fyrir mig, ekki bara alla hina.
Ég þurfti að skilja að ég á skilið sjálfsvirðingu og leyfa mér að prófa nýja hluti og læra, lifa og mistakast.
Sú hindrun sem var erfiðust, en ég þurfti fyrst og fremst að komast yfir var að geðsjúkdómar gera mig ekki að slæmri manneskju. Það er mikilvægt að skilja að þótt ábyrgðin sé mín þá lagast ekkert án þess að ég sé tilbúin að taka við þeirri hjálp sem býðst. Það er ekki veikleikamerki að þiggja aðstoð, veikleikinn er að vilja ekki gera betur.
Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að ég er ekki gömul en finn tímann líða hraðar með hverju árinu. Ég rek heimili, er í vinnu, er í sambandi og ræði stundum barneignir við maka minn. Ég er hrædd um að ef ég bregst ekki við óttanum og horfist í augu við að ég get meira og á betra skilið, vakni ég upp einn daginn sem áhorfandi á eigið líf. Það er kaldranaleg tilhugsun og ég hræðist fátt meira en að verða gömul, full eftirsjáar yfir því sem ég hefði vilja sjá, læra og gera.
Ef ég eignast börn þá vil ég líka vera sterk fyrirmynd, ekki bara í orði heldur á borði.
Þess vegna settist ég niður og skrifaði þennan pistil. Þess vegna fékk ég hann birtan í Kvennablaðinu. Þess vegna ætla ég að halda áfram að skrifa. Þess vegna ætla ég aldrei aftur að velta því fyrir mér í mörg ár hvort að ég eigi að skrifa um líðan mína. Ég er handviss um að ég er ekki ein.