Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook og gaf okkur leyfi fyrir birtingu hér:
Nú virðist margt líkt með forsetanum og forsætisráðherranum sem hrökklaðist frá völdum á Íslandi í apríl. Erfiðlega gengur að ná sambandi við forsetann til að fá nánari skýringar á þeim fréttum sem verið hafa í fjölmiðlum hér heima og erlendis af tengslum forsetafrúarinnar við aflandsfélög.
Hér má sjá sömu aðferð og þá sem forsætisráðherrann beitti, þ.e. að láta fjölmiðla ekki ná í sig, bíða sjálfur átektar og sjá til hvað kemur fram í umræðunni.
Með því að láta bíða eftir sér fær forsetinn sjálfkrafa ómælda athygli þá og þegar hann mun koma fram og hann mun að sjálfsögðu velja vandlega og af kænsku hvar og hvenær, og hvað hann gerir þar að aðalatriði málsins.
Forseti óvissunnar lætur að sjálfsögðu bíða eftir sér. Hann kann þá list að skapa óvissu og spila á þá óvissu.
Nú þarf þjóðin að búa sig undir nýtt útspil þessa forseta sem kann, þekkir og hefur reynt öll trixinn í klækjabiblíu stjórnmálanna. Hann er líklegur til að höggva eins og honum einum er lagið. Mér segir þó svo hugur að forsetinn muni að þessu sinni koma fram með útspil af því tagi sem við höfum sjaldan eða aldrei séð hér áður.
Útspil forsetans að þessu sinni er “úr mjög þröngri stöðu” (eins og vinsælt er að orða það meðal álitsgjafa um þetta mál) og það mun að sjálfsögðu virka. Hvers vegna?
Jú, vegna þess að það er svo mikið til í því sem hagfræðingarnir Shiller og Akerlof segja um kjósendur: Kjósendur eru fífl, bæði í sálfræðilegum og upplýsingalegum skilningi.
Þess vegna reynist mönnum eins og Ólafi Ragnari Grímssyni og Donald Trump það létt verka og löðurmannlegt að fiska eftir fíflum.
Það skyldi þó ekki vera að ég eigi eftir að hafa haft rangt fyrir mér í þessu? Ef svo, þá er það ekki bara það eina sem kæmi á óvart, heldur einnig ef útspil forsetans verður á annan veg en hér er lýst!!!