Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Leiðin til Mordor

$
0
0

Hlynur Jónsson skrifar:

Ég er svo heppinn að vera fæddur á Íslandi á tímum þar sem ferðalög heimshorna á milli eru ekki fjarlægur draumur heldur raunhæft val. Í síðasta ferðalagi var förinni heitið til perlunnar í Indlandshafi, Sri Lanka. Ég og unnusta mín vissum í raun ekki mikið um landið en væntingar okkar voru hiklaust toppaðar, gullfallegar strendur, bragðgóður matur, ótrúlegt dýralíf, fallegir skógar og te-plantekrur en umfram allt yndislegt fólk sem lagði sig undantekningalaust allt fram við að leggja manni lið og var kurteist fram úr því sem góðu hófi gegnir.

DCIM100GOPROGOPR0682.

Ljósmynd Hlynur

Einn morguninn vaknaði ég þegar sólin var að koma upp, um sexleytið. Við vorum í litlum strandbæ, gistiheimilið sem við gistum á var alveg við ströndina. Ég gekk út á pallinn fyrir framan herbergið okkar og horfði á auða ströndina, sólina að koma upp og svignandi pálmatré – vægast sagt fallegt og ótrúleg kyrrð. Þegar þarna kemur sögu erum við unnusta mín búin að ferðast talsvert um Sri Lanka, höfum kynnst mörgum innfæddum og líka öðrum ferðalöngum, átt mörg góð samtöl og upplifað ýmislegt. Allt í einu þegar ég stend þarna á pallinum aleinn eldsnemma um morguninn hellist yfir mig afar sterk tilfinning – get kallað það hugljómun.

Það var eins og allt það sem við vorum búin að upplifa kæmi saman í tvær setningar, eins og kviknað hefði á ljósaperu…

Lífið er fallegt og fólk er í grunninn gott – punktur.

Á sama tíma og ég fann fyrir yfirþyrmandi þakklætis- og hamingjutilfinningu fylltist ég hryggð yfir öllu því vonda sem gengur á. Hröð útrýming ýmissa dýrategunda, ágangur á náttúruna, stjórnlaus efnishyggja, stríð, spilling, græðgi, valdafíkn.

20150218_133202_Pano

Ljósmynd Hlynur

Sauron Trump

Þegar ég stóð þarna á pallinum og velti fyrir mér lífinu komu Lord of the Rings myndirnar allt í einu upp í hugann, mér varð hugsað til Íslands, hvað við værum fá og einangruð – örugg í litla Hobbitahéraðinu okkar lengst út í ballarhafi. Mér fannst the Shire og Ísland allt í einu ágætis samlíking. Mordor í þessu samhengi eru þá fyrrnefndir neikvæðir þættir, Donald Trump er Sauron við stjórnvölinn í hinu vonda ríki Mordors þar sem Olliphantarnir og hin villtu dýrin eru horfin með öllu vegna linnulausar eftirspurnar kínverska læknamarkaðsins. Fangorn og hinir skógarnir eru horfnir eftir veigðarlausa landbúnaðarstefnu og kröfu neytenda um lágmark sjö nýjar iPhone útgáfur á ári. Fólk ráfar um, tortryggið á svip, allir vopnaðir öllum stundum að tilskipan Trumps sem stjórnar öllu með harðri hendi úr fílabeinsturninum með bros á vör, ekki ástæða til annars – bygging myrkrahliðsins til að halda glæpamönnnunum og nauðgurunum í Mexíkó frá landinu er á undan áætlun.

En svo gerðist þetta: Líkt og í myndunum tóku fáir ólíkir einstaklingar höndum saman og eftir langa og stranga för sigruðust hinir góðu loks á hinu illa. Það var ekkert auðvelt við sigurinn, hann krafðist samstöðu, æðruleysis, hugrekkis og umfram allt sannfæringarinnar um að hið góða væri þess virði að berjast fyrir. Það þurfti ekki mikið til að allt færi fjandans til og Sauron myndi þekja öll löndin myrkri.

Það er auðvelt að hugsa með sjálfum sér: „Hverju get ég svo sem breytt“. Ekki síður á Íslandi en annars staðar. Og fólk getur ef til vill verið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að vera að skipta okkur af málum sem koma okkur ekki við, eins og hefur til dæmis nýlega komið fram í umræðunum í tengslum við Ísrael-Palestínu og viðskiptaþvingununum gegn Rússum. Mér hefur vægast sagt blöskrað viðbrögð tiltekinna aðila í þessum málum. Komið hefur bersýnilega í ljós (sem er ekkert nýtt) að peningar eru settir ofar mannréttindum, að minnsta kosti þegar það hentar.

Við skiptum öll máli og við getum breytt heiminum, sama hver við erum eða hvar við búum. Það er eftirminnileg setning í Hringadróttinsmyndunum þar sem hobbitarnir eru að baktala og draga úr hinum ævintýragjarna Bilbó eina ferðina enn: „Keep your nose out of trouble and no trouble will come looking for you“. Og hinir hobbitarnir skála af krafti við þessi ummæli á hverfispöbbnum. En ef föruneytinu hefði ekki tekist að eyða hringnum hefði ekki verið neitt hérað á endanum. Brussel og París er orðið voðalega nálægt Íslandi hugsa örugglega einhverjir.

Þessi setning hobbitans á því miður ekki við rök að styðjast. Að afneita því sem gengur á í heiminum, óháð því hvaða áhrif það hefur á þig, er ekki leiðin fram á við heldur leið fáfræði og hnignunar. Við verðum að hugsa hlutina í stærra samhengi. Í stað þess að hræðast það sem við þekkjum ekki ættum við að leita það uppi.

IMG_5001

Ljósmynd Hlynur

 

Ferðalagið er áfangastaðurinn

Það er nauðsynlegt að við stöðnum ekki sem einstaklingar heldur leitum leiða til að þroskast og þróast og verða betri manneskjur fyrir vikið, séum ötul að gagnrýna eigin hugsun og samfélag og tileinka okkur að horfa á hlutina í víðu samhengi með þolinmæði og skilning að leiðarljósi. Maður þarf ekki að vera sammála öllu sem maður kynnist og lærir um eða tileinka sér allt sem á vegi manns verður, aðalatriðið er að mynda sér sjálfstæða ígrundaða skoðun og lífssýn byggðar á eigin upplifunum og reynslu.

Með því að breyta því hvernig við hugsum breytum við heiminum. Ég trúi því að því fleiru sem maður kynnist, hvort sem er ólík menning eða náttúra, þeim mun meiri líkur eru á að við bregðumst ekki við af hvatvísi og látum stjórnast af eigin hagsmunum og græðgi. Ásamt því að aukin þekking í eins víðu formi og maður getur ímyndað sér, meðal annars með ferðalögum, dregur úr hræðslu. Því að hræðsla byggir jú á einhverju ókunnugu, einhverju sem maður þekkir ekki. Hræðslan leiðir síðan til haturs í formi til dæmis fordóma, kúgunar og stríðs.

Ég hef áður fengið sterkar hugljómanir – sérstaklega á ferðalögum, hvort sem er á Íslandi eða erlendis. Ég hef uppgvötað svo margt á ferðalögum – innra með sjálfum mér sem utan, margt sem ég vissi kannski fyrir en fann ekki almennilega fyrr en ég uppgvötaði það sjálfur. Það situr líka mun fastar í manni ef maður hefur uppgötvað það sjálfur miðað við að heyra það frá einhverjum öðrum. Það hefur takmörkuð áhrif að segja einstaklingi að fara hreyfa sig en ef við fáum aftur á móti hugmyndina sjálf þá er annað upp á teningnum og mun líklegra að við förum að hreyfa okkur og höldum því áfram.

Ég hika ekki við að segja að ferðalög eru mitt helsta áhugamál og mun halda áfram að vera svo. Því þetta snýst ekki um fyrir mér að friða einhverja „ferðaþörf“. Ég ferðast fyrst og fremst til að verða betri manneskja. Fólk spyr: Hvernig hefurðu efni á þessu? Hvernig við ráðstöfum peningunum okkar er okkar val. Ef það er eitthvað sem ég er ánægður með að eyða peningum í er það ferðalög. Ég lít svo á að ég sé að fjárfesta í sjálfum mér. Ferðalögin mín hafa haft mikið að segja varðandi hvernig ég sé hlutina, hvað ég trúi á, hvað ég stend fyrir, hverju ég vil áorka og hvað það er sem skiptir mestu máli.

Það er vissulega margt sem við getum gert til að göfga okkur, til dæmis menntun, bóklestur, hugleiðsla og útivera svo fáir hlutir séu nefndir. En ég trúi því í síauknum mæli að ferðalög séu eitt það allra heilbrigðasta sem einstaklingur geti gert til að þroskast og þróast. Staðreyndin að algengt sé að Bandaríkjamenn eigi ekki vegabréf ýtir frekari stoðum undir þessa skoðun.

Þegar ég segi ferðalög meina ég ekki lágmark þrír mánuðir til fjarlægðra framandi landa heldur í hvaða mynd sem er, hvort sem áfangastaðurinn er Bretland eða konungsríkið af Bhútan. Hvert þú ferð er ekki málið heldur með hvaða viðhorfi þú ferð. Það sem ég hef tileinkað mér er að reyna kynnast hverjum stað eins vel og ég get, fá raunhæfa mynd af landinu, tala við innfædda – fá þeirra sýn á hlutina – rökræða jafnvel, smakka matinn sem þarlendir borða, ferðast með sömu samgöngum og heimamenn, bera virðingu fyrir þeirra siðum og venjum og kynna mér hvað er á bak við, reyna að tjá mig á þeirra tungu og svo framvegis.

Það sem ég er ekki að tala um er að fara alltaf á sama staðinn og dvelja á „allt innifalið“ stöðum þar sem þú ert jafnvel afgirtur frá innfæddum, ferð bara í rútur með öðrum túristum og borðar sama mat og heima hjá þér. Til að draga saman, ferðalag er ekki sama og ferðalag.

Á ferðalögum ertu laus undan ýmsum daglegum athöfnum svo sem að fara í vinnu eða skóla og þú gerir minna af því til dæmis að vera á internetinu og lesa fréttir. Þú ert frjálsari og móttækilegri til að prófa nýja hluti, upplifa og njóta, lesa bækur, kynnast nýju fólki, hlusta á tónlist, hlæja og sofa þegar þér sýnist. Hugurinn hefur aukið svigrúm til að velta ýmsum hlutum fyrir sér – stoppa í smá stund og hugsa um það sem þú ert að gera og ef til vill endurskoða eitthvað í kjölfarið. Í daglegri rútínu á Íslandi á ég það til eins og margir fleiri að hengja mig á klukkuna, á ferðalögum verður tíminn oft ekkert annað en hugtak, skiptir ekki máli hvaða dagur er, það er bara hér og nú.

DSC01772

Ljósmynd Hlynur

Atvinnuviðtalið

Ég fór í atvinnuviðtal nýlega og var spurður út í hefðbundna hluti, að lokum var spurt: „Er eitthvað annað sem þú villt nefna eða koma á framfæri, einhver önnur reynsla?“.

Ég hugsaði mig um og ferðalög komu upp í hugann en mér fannst það ekki eiga við að nefna þau. Eftir á að hyggja hefði ég hiklaust átt að nefna þau. Ég er stoltur af því hvað ég hef ferðast mikið. Drifkrafturinn á bakvið ferðalögin er að verða betri einstaklingur. Þá skiptir ekki máli hvaða vinnu þú ert að sækja um, það skiptir ekki máli hvort þú ert lögfræðingur, viðskiptafræðingur eða hjúkrunarfræðingur.

Það er lítið mál að vera hámenntaður en algjörlega siðblindur. Það er einkum mikilvægt að valdamiklir einstaklingar svo sem pólítíkusar, háttsettir embættismenn og viðskiptajöfrar, þrói með sér ríka siðferðisvitund og það sé gerð sú krafa að viðkomandi hafi fjölþætta lífsreynslu, hafi leitað leiða til að göfga sig. Að ekki sé bara horft á menntun og starfsreynslu í atvinnuviðtalinu, kosningunni eða leitinni af viðskiptafélögum. Við viljum líka að einstaklingur sýni fram á að hægt sé að bera traust til viðkomandi, hann sé heiðarlegur og geti viðurkennt mistök. Geti tekið ábyrgð á eigin gjörðum, sé samkvæmur sjálfum sér og breyti í samræmi við eigin trú þó svo það geti kostað hann vinnuna eða fjármunir séu í húfi. Víðförular manneskjur eru ekkert endilega öllum þessum kostum búnar, en líklegra er þó en ella að þær hafi tileinkað sér auðmýkt.

Um leið og við byrjum að yfirgefa okkar eigin meginreglur (e: principles), alveg sama hvað á í hlut, þó svo það séu margir mjög reiðir eða rosalegir miklir peningar í húfi (ekki bara peningar heldur rosalega miklir peningar) – þá er ekkert eftir nema glundroði. Við megum ekki verða þessu að bráð, við verðum að hugsa: „Þetta er stærra en ég.“ Við getum verið ósammála um ýmsa hluti en það verða ákveðnir hlutir að vera yfir það hafnir. Og við verðum að vinna saman að þeim – ýta eigin hagsmunum frá og hugsa ekki bara korter fram í tímann: friður, mannréttindi og verndun náttúrunnar eru dæmi.

gíraffi nota

Ljósmynd Hlynur

Eyðum hringnum

Önum ekki áfram í blindni heldur opnum augun og gerum það sem við getum til að göfga okkur sjálf alla ævi. Ég hef hingað til ekki þurft að taka alvarlegar ákvarðanir en ég vona að þegar til þess kemur muni ég bregðast við samkvæmt eigin sannfæringu og standa við það sem ég trúi á – óháð því hvað það geti haft í för með sér. Að ég geti borið höfuðið hátt.

Okkur getur ekki órað fyrir hvað við þurfum að takast á við í lífinu og maður veit ekki fyrr en á reynir, en það sem við getum gert er að leggja hugsun og alúð í að undirbúa okkur eins vel og við getum. Í þeim undirbúningi trúi ég því að ferðalög séu ein besta leiðin.

Stöndum saman í að reyna að eyða hringnum. Hringurinn okkar er illska, græðgi, hræðsla, fordómar og spilling. Stöndum saman í þessu í staðinn fyrir að reyna að nota hringinn til að fá okkar fram. Annars mun illskan í Mordor: eyðilegging náttúrunnar, stríðin, mannréttindabrotin og efnishyggjan, halda áfram að þrífast og dafna


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283