Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi, hvetur konur til að taka þátt í Kvennahlaupinu í ár, en hún ætlar sjálf að ganga en ekki hlaupa í Garðabænum kl. 14 á laugardaginn.
„Ég ætla reyndar að ganga en ekki hlaupa“, segir Halla og hlær. „En það er hreyfingin sem skiptir máli og svo myndast líka mikill andlegur styrkur þegar konur koma saman. Ekki veitir af því þessa dagana. Það er hópur sem ætlar að ganga með mér og ég hvet konur um land allt til að hreyfa sig á laugardaginn. Það spáir alls staðar frábæru veðri og tilvalið að gefa sér tíma til að hlaupa eða ganga með vinkonum, mæðrum, systrum, frænkum og dætrum. Ég hef komið að fjölda verkefna þar sem konur eru í meirihluta. Leiddi meðal annars Auður í krafti kvenna á sínum tíma og það er yndisleg tilfinning að finna samstöðu íslenskra kvenna.
Eftir „hlaupið“ býð ég öllum konum sem hafa tök á að þiggja boost og banana á kosningaskrifstofunni minni í Hæðasmáranum, milli kl. 15-17. Hlakka mikið til að eiga góðan dag með öflugum konum í góðu veðri og njóta dagsins“, segir Halla, en hún hefur um árabil barist fyrir jafnrétti og talað fyrir því bæði hér heima sem og erlendis.
Undanfarin ár hefur hún starfað sem fyrirlesari á alþjóðavettvangi og talað á stórum ráðstefnum eins og TED, Clinton Global Initiative og Skoll Forum. Sjálf var hún meðal þeirra sem skipulögðu Þjóðfundinn 2009 og alþjóðlegu jafnréttisráðstefnuna WE 2015 í Hörpu á síðasta ári þar sem fram komu meðal annars Geena Davis, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Pernille Spiers-Lopez og Tiffany Dufu.