Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kallað eftir sniðgöngu fyrirtækja sem auglýsa hjá Útvarpi Sögu

$
0
0

Hópur sem kallar sig Stöðvum hatursumræðu á Útvarpi Sögu kallar eftir sniðgöngu á fyrirtækjum sem auglýsa hjá útvarpsstöðinni vegna endurtekinna neikvæðra ummæla um hælisleitendur og innflytjendur.

„Við skorum á eftirfarandi fyrirtæki að hætta stuðningi sínum við Útvarp Sögu sem elur á ótta gagnvart útlendingum og hælisleitendum. Útvarpsstöðin hefur margoft verið staðin að áróðri gegn minnihlutahópum. Núna síðast þegar útvarpsstjóri stöðvarinnar fullyrti að Ali Nasir og Majed, hælisleitendur frá Írak, séu á bandi ISIS samtakanna. Engin gögn hafa verið lögð fram til að styðja þá fullyrðingu,“ segir á viðburðarsíðu hópsins.

Mál þeirra Ali Nasir og Majed hefur verið til umfjöllunar undanfarið. Þeir eru báðir frá Írak og sóttu fyrst um hæli í Noregi. Nasir og Majed leituðu griðar í Laugarneskirkju vegna yfirvofandi brottvísunar. Lögreglan fjarlægði þá með valdi, handjárnaði pilt sem talinn er 16 ára og sló mann í andlitið þegar hann reyndi að benda á að um barn væri að ræða.

Sjá einnig: Mannúð bönnuð á Íslandi, Atli Þór Fanndal skrifar um framkomu yfirvalda gagnvart Ali Nasi og Majed. Hann kallar eftir bandalagi trúfélaga, aðgerðarsinna, íþróttamanna, forsetaembættisins og allra þeirra sem vettlingi geta valdið í þágu mannúðar.

„Við skorum einnig á ykkur öll sem látið ykkur málið varða að skrifa þessum fyrirtækjum og láta þau vita að það sé ekki í boði að styðja fjölmiðil sem byggir á slíku hatri,“ segir á viðburðarsíðu þeirra sem hvetja til sniðgöngu.

1819, Pottagaldrar og Húðfegrun hafa þegar orðið við áskorun hópsins og munu hætta að auglýsa á Útvarpi Sögu.

Eftirfarandi fyrirtæki auglýsa á Útvarpi Sögu samkvæmt lista hópsins:

* E. Finnsson
* Góa
* Alvogen Ísland
* Allianz
* Kostur
* Flugger litir
* Hreyfill
* Borgar Apótek
* Bakarameistarinn
* Aloe Vera umboðið
* Dún og Fiður
* Hjá Dóra
* Lögmenn Sundagörðum ehf.
* Helluhreinsun ehf
* Tölvuvinir tölvuverkstæði
* Aloe Vera – betri líðan
* Fjölskylduhjálp Íslands
* Nikolai bifreiðastillingar
* Bílaréttingar og sprautun Sævars


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283