Blessaður Karl Ágúst.
Þú sendir mér annað bréf. Í því er að finna eins konar málflutningstækni sem virðist notuð í því skyni að forðast kjarna þess máls sem við höfum rætt.
Af hverju heldur þú áfram að tönnlast á því að ég kjósi frekar að spila golf en ræða alvarleg mál? Telur þú þig koma einhverju höggi á mig með því? Finnst þér ljótt að leika golf? Svo stendur á að ég var með síma minn opinn á golfvelli, þegar Stundin hringdi til mín til að ræða um mál Róberts. Samkvæmt reglum leiksins á ég ekki að hafa síma minn opinn, því hringingar trufla leikinn. Ég gat hins vegar átt von á aðkallandi erindi og braut því regluna. Ég var auðvitað ekki í neinni aðstöðu til að gefa fjölmiðlum viðtöl. Erindi blaðsins var reyndar aðeins, eftir því sem ég best heyrði, að spyrja mig um símanúmer Róberts, sem ég hafði enga heimild til að gefa upp. Við þessar aðstæður lauk ég samtalinu. Þú leyfir þér að tala ítrekað um að ég taki golf fram yfir alvarleg afbrotamál! Þetta er á íslensku kallað „lágkúra“. Að minnsta kosti kann ég ekki annað orð betra.
Ég sýndi þann heiðarleika í svari mínu til þín að kalla það akademískt. Í því fólst aðeins, eins og ég skýrði út, að ég hefði ekki upplifað þetta og gæti því ekki miðað svarið við reynslu mína. Síðan sagði ég þér hvað ég vonaðist til að verða maður til að gera ef slíka reynslu bæri að mínum garði. Og þú mátt vera alveg viss um að í þeirri hugleiðingu freistaði ég þess af fremsta megni að setja mig í spor þolenda svona afbrota. Hvað annað? Af hverju ertu að reyna að halda því fram að ég sé bara kaldur akademíker og umgangist lögin án tilfinninga? Þjónar þetta einhverri þrætubók hjá þér?
Ég hef varið stórum hluta starfsorku minnar á undanförnum árum og áratugum við að gagnrýna réttarframkvæmdina í landinu og krefjast endurbóta á mörgum sviðum hennar. Vera má að þú viljir gera lítið úr því. Það breytir ekki því, að ég hef gert miklu meira en að fjalla af „akademiskri“ lotningu um lög og lagaframkvæmd. Þú hreinlega snýrð út úr notkun minni á því orði.
Ég get svo tekið undir með þér um réttmæti viðbragða þinna ef einhver nákominn gerðist sekur um svona brot. Mín yrðu líklega eitthvað svipuð. Það eru hins vegar öfugmæli hjá þér að ég hafi viljað „skila skömminni“ til fórnarlambanna. Hvernig dettur þér í hug að segja svona vitleysu? Ég var aðeins að lýsa þeim viðbrögðum við svona áföllum sem ég tel að muni gagnast fórnarlömbum best. Í því fólust auðvitað engin fyrirmæli, aðeins ábending um þau viðbrögð sem ég tel að gagnast myndu best fyrir andlega líðan. Ábendingin helgaðist af velvilja til fórnarlambanna eins og allir lesendur áttu að geta skilið, að minnsta kosti ef þrætubókargleraugun voru ekki fyrir augum. Það bendir ekki til einlægs vilja til að ræða málið að snúa svona út úr þessu eins og þú gerir.
Ég efast ekki um að fjölmargir muni hrósa þér fyrir þetta síðasta innlegg þitt. Þú munt fá fullt af „lækum“ og spekifullum kommentum. Vonandi verður þú sáttur við sjálfan þig á eftir.
Jón Steinar Gunnlaugsson