Heppnasta kona í heimi
Ég hafði oft orðið ástfangin áður en þeir sem ég hafði verið með höfðu ekki verið neitt rosalega rómantískir og ég hafði aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Hann kom með blóm handa mér án tilefnis og gaf mér fokdýran stofuskáp í afmælisgjöf. Minn fyrrverandi hafði gefið mér blómapotta úr Rúmfatalagernum, þótt ég ætti ekki blóm og hefði engan áhuga á þeim. Hann pantaði borð í Perlunni til þess að fagna þegar við ákváðum að hefja sambúð. Fyrrverandi fannst Hamborgarabúllan vera í réttum verðflokki við þesskonar tilefni. Hann var alltaf vel ilmandi og óaðfinnanlega til fara en fyrrverandi gekk helst í upplituðum bol og flíspeysu og fannst hann vera að gera mér persónulegan greiða með því að fara í samstæða sokka.
Hann var allt sem minn fyrrverandi og allir kærastar á undan honum voru ekki. Hann var ekki skuldbindingafælinn, þvert á móti vildi hann flytja inn sem allra fyrst. Við vorum sammála um að það væri nauðsynlegt að breyta ýmsu á heimilinu til þess að gera það að „okkar“ og hann var svo áhugasamur um að velja nýja liti á veggina og dót fyrir heimilið að ég var í skýjunum. Hann var spenntur fyrir því að hitta fjölskyldu mína og þeim fannst ég aldeilis hafa dottið í lukkupottinn því maðurinn var ekki bara skemmtilegur félagsskapur og frábær kokkur heldur rak hann líka sitt eigið fyrirtæki.
Fyrirtækið já. Það var ekki stórt en það var vel rekið, loksins, og á blússandi uppleið eftir langt erfiðleikatímabil. Barnsmóðir hans hafði séð um bókhaldið og klúðrað ýmsum málum án þess að gera honum aðvart og hann sat uppi með töluverðar skuldir eftir það ævintýri. En hann var samt ekkert að kenna henni um það. Hann ætlaði ekkert að fara að tala illa um barnsmóður sína sem var „að mörgu leyti frábær manneskja en bara svo ábyrgðarlaus“. Hann vissi að hann hefði átt að fylgjast betur með og ekki treysta henni í blindni en það sem skipti mestu máli var að finna lausnir og hann var bara ekki sú týpa sem skellir skuldinni á aðra. Nú var bara að spýta í lófana og fylgja fimm ára planinu. Markmið eru draumar með „deadline“ og þetta var allt að koma.
Barnsmóðir hans hafði séð um bókhaldið og klúðrað ýmsum málum án þess að gera honum aðvart og hann sat uppi með töluverðar skuldir eftir það ævintýri. En hann var samt ekkert að kenna henni um það. Hann ætlaði ekkert að fara að tala illa um barnsmóður sína sem er „að mörgu leyti frábær manneskja en bara svo ábyrgðarlaus“.
Þvílík jákvæðni. Þvílíkur maður. Ég hlaut að vera heppnasta kona í heimi.
Hnúturinn í maganum
Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvenær hnúturinn byrjaði að myndast í maganum. Það var enginn stórviðburður heldur nokkur ómerkileg smáatvik sem urðu til þess að glansmyndin fór að fölna og þessi hnútur kom í staðinn fyrir fiðrildin. Ég man ekki röð atburða en þetta eru svona lítil, hversdagsleg atvik.
Við pöntum pizzu. Brauðstangirnar gleymast og hann hringir og fer fram á að sendillinn komi aftur og með aukapizzu í sárabætur. Kannski dálítið meira en mér finnst hæfilegt en hann er pollrólegur og kurteis þótt hann sé ákveðinn. Flott hjá honum að gera kröfur. Það sem truflar mig er að hann lýgur því að það hafi líka vantað hvítlauksolíu. Hann er í símanum og ég, sem held að þetta sé misskilningur, bendi honum á dolluna með olíunni en hann hristir höfuðið og heldur áfram að ljúga. Skýringin sem hann gefur mér er sú að hann hafi lent í því í tvö síðustu skipti sem hann pantaði frá þessum pizzustað að olían hafi gleymst og hann hafi ekki gert neitt í því en nú sé nóg komið. Út frá því sem ég þekki hann hingað til, hljómar ekki sannfærandi að hann hafi fengið pöntun afgreidda, eitthvað vantað og hann borgað upp i topp án þess að segja neitt en ég kyngi því í þetta sinn.
Gestgjafinn kemur því fínlega að að þetta verði að duga. Minn virðist ekki taka eftir því og fær sér stóran skammt.
Við mætum í matarboð, fleiri gestir bætast við á síðustu stundu. Desertinn er í skál og rétt dugar fyrir alla gestina ef allir fá sér hóflegan skammt. Gestgjafinn kemur því fínlega að að þetta verði að duga. Minn virðist ekki taka eftir því og fær sér stóran skammt. Ég afþakka desert, „er bara svo pakksödd en áttu kaffi?“ Ég ætla auðvitað ekki að fara að ala fullorðinn mann upp en þetta fór ekki fram hjá neinum nema honum og mér finnst ég verða að segja eitthvað. Þegar við komum heim tala ég um að það hljóti að vera erfið aðstaða að fá fleiri gesti en maður reiknaði með og kannski væri best að skammta á diska ef maður lendir sjálfur svona aðstöðu því það sé alltaf hætta á að einhver misreikni sig og taki meira en er viðeigandi. „Ég myndi bara ekkert bjóða fleirum ef ég væri ekki með nógan mat fyrir alla“, segir hann. Ég sé hvað ég er að gera, hegða mér eins og þessi passív-agressíva týpa, get ekki konfrontað hann en get heldur ekki stillt mig. Ætti kannski að tala hreint út en þetta var náttúrulega slys sem kemur örugglega ekki fyrir aftur. Það er ekki mitt að ala hann upp.
Hann reynir að herja út afslátt allsstaðar nema á bensínstöðvum og í matvörubúðum. Oftast heldur hann því fram að fyrirtækið hafi gert mistök en þegar hann reynir að fá afslátt af barnafatnaði með því að gefa í skyn að fötin séu fyrir langveikt barn, trompast ég í fyrsta sinn. Hann hlær að mér og segir mig greinilega heilaþvegna af kapítalismanum. Ég vissi ekki að hann væri pólitískur fyrr en nú og hef þó búið með honum í fjóra mánuði. Hann tekur ekki þátt í rifrildinu, það er ég sem er með æsing en ekki hann. Auðvitað myndi hann ekki ljúga að sínum nánustu, það er allt annað. Ég trompast í nokkur skipti til viðbótar þegar hann reynir að fá eitthvað fram með ósannindum, hann tekur aldrei á móti. Það er ég sem er með vesen.
Börnin okkar beggja frá fyrri samböndum ætla að horfa á sjónvarpið. Hann liggur í sófanum og les blað. Börnin setjast á gólfið. Ég sting upp á því að við horfum á myndina saman, hann hefur ekki áhuga. Ég spyr hvort hann sé ekki til í að færa sig svo sé hægt að nota sófann því hann tekur pláss fyrir fjóra og ætlar ekki einu sinni að horfa á myndina. Hann setur upp svip og rýkur inn í herbergi, greinilega sármóðgaður og lætur ekki sjá sig í mat. Þvertekur fyrir að hann sé í fýlu. Það er bara mikið álag á honum og hann er ekki svangur.
Hann er sjálfur nýbúinn að eyða töluverðum fjárhæðum í sjálfan sig en það er annað.
Ég fer með vinkonu minni á suzhi-stað og hann setur ofan í við mig fyrir eyðslusemina. Engin læti, bara góðlátleg umvöndun. Ég hefði átt að spá aðeins í það að við erum með aukaútgjöld núna um mánaðamótin. Hann er sjálfur nýbúinn að eyða töluverðum fjárhæðum í sjálfan sig en það er annað. Hann er í þannig vinnu að hann verður að vera frambærilegur og það bara fylgir þessu að borða oft úti í hádeginu. Fyrirtækið borgar. Fyrirtækið er hann sjálfur þegar hann talar við aðra en við bæði þegar fjármálin eru annarsvegar.
Ég er að aka inn á bílastæði og búin að gefa stefnuljós þegar annar ökumaður „stelur“ stæðinu. Ferleg frekja en engin slysahætta. Ef ég hefði verið ein hefði ég sent honum illt auga og leitað að öðru stæði. En minn maður lætur ekki vaða yfir sig og sína og nú sleppir hann sér gjörsamlega. Hann rýkur út úr bílnum og hellir sér yfir manninn með orðbragði sem er ekki hafandi eftir og hávaðinn eftir því. Sparkar í dekkið á bílnum. Hann hættir ekki að ausa úr sér skömmum þótt maðurinn setjist aftur inn í bílinn. Börn ökumannsins í aftursætinu eru farin að gráta, ég toga í minn og reyni að fá hann inn í bílinn. Hinn forðar sér en mig langar ekki lengur að leggja í þetta stæði. Minn skilur ekki það sjónarmið að þessi viðbrögð hans hafi verið ofsafengin, ekki einu sinni þegar ég bendi honum á að hann sé frekar tillitslaus í umferðinni sjálfur. Það er bara eitthvað í hausnum á mér. En hann æsir sig ekki við mig og hefur reyndar aldrei æst sig fyrr í minni viðurvist svo ég skrifa þær hugmyndir sem undanfarið hafa læðst að mér á mína eigin hysteríu. Hugmyndir um að herra fullkominn sé með einhvern skapgerðarbrest sem lýsir sér í þeirri sannfæringu að hann eigi í flestum málum meiri rétt en aðrir. Ég er með hnút í magann og hann harðar með hverri vikunni þótt ég hafi engar ástæður til þess að vera með hnút.
Af hverju er ég að skoða þessa heimasíðu?
Smámsaman verður mér ljóst að hann er ekki jafn frábær í samskiptum og ég hélt í fyrstu. Hann á auðvelt með að gera fólk ánægt með sjálft sig, hann sýnir áhuga og aðdáun sem virðist einlæg en eftir smátíma virðist allt vera farið að snúast um hann. Hann grípur ekki fram í fyrir öðrum en samt snúast allar samræður um hann. Ef þær fara að snúast um einhvern annan þá hverfur hann. Ekki með neinum látum en það er eins og hann hafi ekki áhuga á öðrum nema í þær fimm mínútur sem það tekur hann að vinna fólk á sitt band. Um leið og fólki er farið að líka vel við hann er það hann sem er miðpunktur athyglinnar og hann notar hvert tækifæri til að koma að einhverjum eldgömlum íþróttaafrekum.
Ættingi veikist alvarlega og ég verð hrædd og sorgmædd. Hann er ekki til staðar. Verður bara pirraður og segir að þegar maður geti ekki gert neitt í málinu sé tilgangslaust að velta sér upp úr því. Það er auðvitað rétt sem hann segir, að það sé kjánalegt að taka sorgina út fyrirfram, en ég ræð ekki við þetta. Hann ráðleggur mér að „fara til læknis og fá eitthvað við þessu“. Hann veit vel að þetta er ekki sjúkleg vanlíðan heldur eðlileg viðbrögð en mínar áhyggjur eru bara ekki á hans áhugasviði svo ég hætti að bögga hann og leita til systur minnar í staðinn.
Einn daginn stend ég sjálfa mig að því að skoða heimasíður um siðblindingja á netinu. Lýsingarnar passa ekki við hann.
Einn daginn stend ég sjálfa mig að því að skoða heimasíður um siðblindingja á netinu. Lýsingarnar passa ekki við hann. Síkópatar kenna fyrri konum sínum um allt, það gerir hann ekki. Þvert á móti talar hann um barnsmóður sína sem „að mörgu leyti frábæra manneskju“. Ég held í alvöru að ég hafi aldrei heyrt hann segja neitt neikvætt um hana nema það að hún sé ábyrgðarlaus. Reyndar talar hann nánast aldrei um hana. Nei, hann er ekki sækó. Það er nú gott. En hvað er eiginlega að mér? Er ég að reyna að greina manninn minn með persónuleikaröskun? Ég hlýt að vera klikkuð.
Hann er kannski ekki fullkominn en samt svo miklu betri en allir mínir fyrri. Hann ryksugar og skúrar heima. Ekki eins oft og ég, en hann gerir það að eigin frumkvæði. En það er samt eitthvað skrítið við það allt saman. Það er eins og dugnaðurinn heima fyrir sé einskonar leiksýning. Hann dregur fram ryksuguna fimm mínútum áður en við eigum von á einhverjum í heimsókn og er á fullu að ryksuga þegar þau koma en klárar það ekki. Hann byrjar að setja í uppþvottavélina á meðan einhver er í heimsókn en hættir í miðju kafi, um leið og fólkið er farið. Hann gefur mér nákvæma skýrslu um hvert einasta handtak sem hann gerir eða ætlar að gera, helst í viðurvist annarra og alltaf eins og hann sé að gera mér greiða. „Heyrðu, ég fór með dósirnar í endurvinnsluna svo þú þarft ekki að taka þær“, þótt það sé aðallega hann sem drekkur gosdrykki og bjór og við höfum aldrei rætt hvort það eigi að vera mitt verk eða hans. „Ég skal versla á heimleiðinni svo þú getur bara slappað af“ þótt það sé augljóst að ég geri ekki stórinnkaup þegar hann er á bílnum. Bílnum mínum. Hann seldi sinn þegar hann flutti inn og nú keyrir hann mig í vinnuna og sækir mig. Ég þarf stundum að bíða en það er allt í lagi, við stöndum í þessum heimilisrekstri saman, en ég verð á hinn bóginn hálf asnaleg þegar ég ætla að skreppa eitthvert og hann segir; „já ok, þú mátt taka bílinn“. Má ég nota bílinn minn? Vá takk! Er það það sem ég á að segja?
Það er eins og dugnaðurinn heima fyrir sé einskonar leiksýning.
Það er álag í vinunni og þrjú börn heima plús hans tvö aðra hverja helgi — eða næstum því aðra hverja, það kemur fyrir að hættir við að taka krakkana af óljósum ástæðum. Að þessu leyti á minn fyrrverandi vinninginn. Börn eru fyrirferðarmikil og hann er stundum frekar pirraður heima, sem skiljanlegt er … Vill ekki læti. Vill ekki tónlist eða að krakkarnir séu í ærslaleikjum. Hann er stoltur af krökkunum sínum en hann sinnir þeim ekki. Elsta barnið mitt er farið að plana fjarveru sína frá heimilinu eftir hans stundatöflu. Unglingar eru náttúrlega í sífelldri uppreisn svo ég þarf kannski ekki að vera hissa á þessum viðbrögðum en ég á eiginlega ekkert svar þegar barnið mitt segir í fyllstu einlægni: „Hann er alveg góður maður og allt það en hann er svo upptekinn af sjálfum sér að það mætti halda að hann væri unglingurinn hér en ekki ég“.
Hann er alveg góður maður og allt það en hann er svo upptekinn af sjálfum sér að það mætti halda að hann væri unglingurinn hér en ekki ég.
Ég skoða fleiri greinar. Hann er ekki siðblindur, hann myndi aldrei meiða neinn og hann er ekki svo ólík manneskja heima og út á við að mér detti í hug að líkja honum við Jekyll og Hyde. En óneitanlega hefur hann ákveðin einkenni sjálfsdýrkanda, narsissista. Ekki svo sterk að það sé ástæða til að hafa áhyggjur, allir eru jú á einhverju rófi, en er ekki eitthvað undarlegt þegar fullorðinn maður er alveg á hjólum yfir því hvað nýjasta prófílmyndin hans eða nýjasti brandarinn á facebook hafi fengið góð viðbrögð? Og hvað er þetta með hann og Snapchat? Hann fær sér varla kaffibolla án þess að tilkynna það með myndskeiði á Snapchat. Jú, hann er eiginlega dálítið mikið upptekinn af sjálfum sér en varla þannig að það teljist óeðlilegt.
Hann er ekki siðblindur, hann myndi aldrei meiða neinn og hann er ekki svo ólík manneskja heima og út á við að mér detti í hug að líkja honum við Jekyll og Hyde.
Eigum við ekki bara að minnka við okkur?
Fyrirtækið reynist verr statt en hann lét í veðri vaka til að byrja með. Hann stingur upp á því, eftir rúnlega 6 mánaða sambúð, að ég selji íbúðina mína. Ekki svo við getum keypt stærri íbúð saman, (því hann á ekki kost á láni) heldur til þess að fara í ódýrara húsnæði svo „við“ getum komið betri rekstrargrundvelli undir fyrirtækið „okkar“. Satt að segja þætti mér betra ef hann fengi sér bara vinnu hjá einhverjum öðrum, hann hefði þó eitthvað upp úr því, en ég bið hann auðvitað ekki um það, því það skiptir hann máli að vera sjálfstæður. En það skiptir mig líka máli að eiga heimili og ég er ekki til í að fórna því fyrir fyrirtæki sem mér er eiginlega sama um. Hann fer í fýlu sem endist í fimm daga.
Ég fæ grátkast þegar fasteignasalinn er farinn. Það er eitthvað að gerast í lífi mínu sem mér finnst ég ekki hafa stjórn á. Ég er ein heima og horfi á heimili mitt, sem er ekki lengur mitt heldur „okkar“. Það er gerbreytt. Ég málaði íbúðina þegar hann flutti inn. Hann valdi litina. Kannski ekki nákvæmlega þá liti sem ég hefði valið sjálf en þetta kemur ágætlega út og maður verður að gera málamiðlanir, en ræddum við mínar hugmyndir nokkurntíma? Ég man ekki til þess. Stofuhúsgögnin mín eru komin í geymslu og húsgögnin hans komin í staðinn. Nema skápurinn sem hann gaf mér í afmælisgjöf, hann er hér enn. Hann passar við húsgögnin hans. Skemmtileg tilviljun. Hann getur verið harðduglegur og einn daginn þegar ég kom heim var hann búinn að fá vin sinn til að hjálpa sér að koma húsgögnunum fyrir. Tók á móti mér með hvítvíni og blómum þegar ég kom heim og sýndi mér útkomuna himinlifandi. En töluðum við nokkurntíma um það hvernig stofan ætti að líta út? Þetta kemur vel út og þetta er okkar heimili og auðvitað á það að vera okkar. En þetta er samt íbúðin mín. Ennþá.
Hann tekur selfie daglega. Ég er eins og útigangskona við hliðina á honum en honum virðist standa á sama um það.
Ég sýg upp í nefið og set í þvottavél. Hann gengur aldrei í sömu fötunum tvo daga í röð og hann fer í ræktina þrisvar í viku svo það er alltaf mikill þvottur. En það er ekkert vandamál. Hann á nóg af fötum svo það er ekkert stress að þvo. Ekki bara nóg af fötum heldur merkjavöru. Alltaf fínn, alltaf nýklipptur, alltaf fullkominn. Hann tekur selfie daglega. Ég er eins og útigangskona við hliðina á honum en honum virðist standa á sama um það, honum finnst ég t.d. ekkert þurfa að fara á hárgreiðslustofu, ég get bara klippt mig sjálf þar sem ég er með sítt hár. Það er satt hjá krakkarassgatinu, hann er frekar upptekinn af sjálfum sér. En það er ekki dauðasynd að vera dálítið hrifinn af sjálfum sér og hann er ekki þessi síkópatatýpa sem er frábær út á við en lemur fjölskylduna í laumi. Ég er búin að gá! Hann uppfyllir ekki kríteríuna. Hann er góður við mig, hann gagnrýnir mig sjaldan og aldrei á niðurbrjótandi hátt. Hann sýnir mér kannski ekkert mikinn áhuga sem persónu en hann tekur þátt í húsverkum og kallar mig elskuna sína og póstar myndum af okkur saman á facebook. Hann getur verið fúll en hann hefur aldrei sagt neitt ljótt við mig. Samt er eitthvað að. Ég veit ekki hvað það er en það er eitthvað að. Ég vil ekki selja íbúðina mína en ég er samt að leggja drög að því. Það þýðir að eitthvað er að.
„Að mörgu leyti frábær“ kemur til skjalanna
Nokkrum dögum síðar hringir barnsmóðir hans í mig og vill hitta mig. Hnúturinn í maganum er orðinn að steini og ég veit að ég er að hitta hana til þess eins að fá staðfestingu á grunsemdum mínum um að það sé eitthvað að. „Að mörgu leyti frábær manneskja en bara svo ábyrgðarlaus“ segir hlutina hreint út. Fasteignasalinn sem kom að taka íbúðina út er vinur hennar og sagði henni að ég hefði beðið um verðmat og hún veit að það sem hefur gerst einu sinni getur gerst aftur. Hún er að vara mig við.
Næstum allt sem „að mörgu leyti frábær“ segir hringir bjöllu hjá mér.
— Hann er ekki ofbeldismaður en það er enginn nema hann sem skiptir máli. Ég var einhvernveginn hætt að vera til.
— Hann er ekki afbrýðisamur en það er af því að honum dettur ekki í hug að kona geti fallið fyrir einhverjum öðrum, hann les ekki sms-in þín en hann fylgist með bankareikningnum þínum. Allt þitt er hans og allt hans er þitt en hann á því miður ekkert nema skuldir. Hefðurðu prófað að kaupa varalit án þess að ræða það fyrst?
— Hann er ekki í neyslu eða öðru kvenfólki en hann er samt fíllinn í stofunni. Allt í einu er allt farið að snúast um að hafa hann glaðan.
— Hann tekur ekki æðisköst, hann tekur fýluköst og neitar því svo að hann sé í fýlu, hann er bara áhyggjufullur og hann er ekkert að kenna þér um það en þú veist samt að það er þér að kenna.
— Hann er ekki frekur en það er samt hann sem ræður öllu. Hvert er farið, hvaða mynd er horft á, hvað er í matinn … Ef þú eða krakkarnir vilja eitthvað sem honum finnst ekki nógu gott þá segir hann ekkert en það sjá allir að honum mislíkar það og allt í einu eru allir sammála um að gera það sem hann vill.
— Hann var í skuldum þegar við byrjuðum að vera saman. Ég tók lán út á íbúðina mína til að redda honum í smátíma en hann átti von á svakalegum díl. Díllinn klikkaði og hann „gafst upp á mér“ af því að ég var ekki ánægð með að sjá fram á að lenda á leigumarkaðnum aftur með tvö börn. Hann hefur aldrei borgað krónu af þessu láni.
— Nei, ég kom aldrei nálægt bókhaldi eða rekstri fyrirtækisins.
Ég var eiginlega orðin viss um að hann hefði klúðrað bókhaldinu sjálfur og það er ekkert nýtt í frásögn hennar, ekkert sem gefur mér almennilega ástæðu til að fara. Ég fæ enga staðfestingu á því að hann sé varúlfur og muni breytast í skrímsli fyrr en varir. Hann er ekki að fara að lemja mig eða nota dóp. En ég fæ staðfestingu á því að það sé brjálæði að selja íbúðina.
Spegill
Ég segi honum ekki frá samtalinu, bara að ég sé hætt við að selja því það sé of mikil áhætta. Og þá fær hann kast. Hann leggur ekki hendur á mig en framkoman er ógnvekjandi. Hann steytir hnefa, notar ljót orð í fyrsta sinn. Ásakar mig um að treysta sér ekki og líta niður á sig fyrir að vera ekki útrásarvíkingur (halló, hvenær var ég slefandi yfir þeim???) og kastar bolla í gólfið til að leggja áherslu á orð sín. Það er þá sem ég veit að þetta er búið. Börnin eru ekki heima en það sem gerist einu sinni getur gerst aftur og þetta ætla ég ekki að bjóða þeim upp á. Ég verð að koma mér út úr þessu. Við erum komin ansi langt fram yfir á reikningnum mínum og búin að fullnýta kreditkortaheimildina. Ég veit ekki hvernig ég á að ná endum saman ein. En ég verð að losa mig við hann, ástandið skánar ekki með því að halda þessu áfram. Það er eitthvað slæmt að gerast í lífi mínu og ég ætla ekki að missa stjórn á því. Ég veit að hann er hrifinn af speglum og ég sýni honum spegil, bara þessar litlu sögur sem ég hef sagt hér.
Það er eitthvað slæmt að gerast í lífi mínu og ég ætla ekki að missa stjórn á því. Ég veit að hann er hrifinn af speglum og ég sýni honum spegil …
Það er ekkert gaman að segja sjálfsdýrkanda að hann sé ekki eins fullkominn og hann heldur. Hann tekur því illa en hann sýnir ekki frekari ógnunartilburði og ég er bara smeyk, ekki hrædd. Ég reyni að vera eins sanngjörn og ég get og segi honum að ég vilji slíta þessu af því mér líði ekki vel í sambandinu. Hann hefur ekki áhuga á því hvernig mér líður en finnst ég andstyggileg að tala svona við sig og hann „hefur eitt og annað á mig“ segir hann. Ég reyni að halda ró minni en reiðist þegar hann ber það á mig að vera eyðslusöm og tillitslaus og þetta endar auðvitað í rifrildi.
Ég veit ekki hvert hann fór þetta kvöld eftir eina alvöru rifrildið okkar, það eina sem við tókum bæði þátt í. Kannski til vinar síns eða einhvers systkina sinna. Það sem ég veit er að mánuði síðar sótti hann dótið sitt, líka skápinn sem hann gaf mér. Ég sagði ekkert, bara fegin að losna við hann. Skömmu síðar frétti ég að hann væri fluttur inn til annarrar konu. Ég hef enga ástæðu til þess að halda að hann hafi verið byrjaður að hitta hana áður en hann fór. Menn sem eru óæskilegir í sambúð passa ekkert alltaf við dæmigerðu drulluhalana. Ég veit ekkert um þessa konu en ég veit hvað hún heldur um mig. Ekki að ég sé geðveik eða vond manneskja. Hann talar ekki þannig um fólk. Hann er nefnilega þannig séð góður maður þótt hann sé upptekinn af sjálfum sér. Það sem hún heldur er að hann hafi gefist upp á mér af því að ég sé svo neikvæð og ekki til í að taka neinar áhættur eða leggja neitt af mörkum. Hún veit að ég er að mörgu leyti frábær, eða a.m.k. að hann er svo heilbrigður að líta þannig á mig.
Ég er ekkert viss um að sálfræðingur eða geðlæknir myndi greina hann sem narsissista en ég er viss um að engin kona er betur sett með honum en án hans.
Ég sakna hans stundum en sú spegilmynd sem ég sýndi honum var ekki það sem hann vildi sjá og ef hann sér ekki hvað er að mun það ekki breytast. Þessvegna er ég fegin að þetta er búið. Það er ekkert víst að sálfræðingur eða geðlæknir myndi greina hann sem narsissista en ég er viss um að engin kona er betur sett með honum en án hans. Mér finnst eins og ég ætti að vara þá nýju við en ég veit að það myndi hljóma eins og ég sé hefnigjörn og vilji eyðileggja fyrir honum. Ég hef samband við hana ef ég frétti af því að hún sé að leggja allt í sölurnar fyrir hann en hún verður að sjá í gegnum efstu lögin fyrst. Kannski les hún þetta líka þegar hún er komin svo langt í ferlinu að leita skýringa á netinu um siðblinda og sjálfhverfa og þá vil ég bara segja henni þetta: Ef þú ert í sambandi við fullkominn mann og ert samt að reyna að finna út hvaða persónuleikaröskun passar við hann, þá er eitthvað að. Ef þú ert í „góðu sambandi“ en líður samt eins og það sé eitthvað mikið að, taktu þá mark á hnútnum í maganum. Herra fullkominn þarf ekki að lemja þig eða hafa af þér aleiguna til þess að eitthvað sé gruggugt við hann. Hann þarf ekki að hafa lagt líf einhverrar annarrar konu í rúst. Hann þarf ekki að uppfylla greiningarviðmið siðblindingja eða narsissista og þú þarft ekkert að vita hvað er að honum eða hvort eitthvað er að honum. Ef þér líður illa í sambandinu er það eitt nægileg ástæða til að slíta því.
Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.