Fréttatilkynning frá Listasafni Kópavogs
Skapandi sumarnámskeið í ágúst
Boðið verður upp á tvö spennandi sumarnámskeið í Menningarhúsunum í Kópavogi í ágúst þar sem við kynnumst myndlist, ritlist og náttúruvísindum. Haldin verða tvö námskeið fyrir grunnskólabörn þar sem við sköpum listaverk, skrifum ljóð og sögur og kynnumst náttúrunni á nýjan hátt.
Skráning er í fullum gangi á netfangið menningarhusin@kopavogur.is
Engill kemur í heimsókn
Rit- og myndlistarnámskeið fyrir 8-13 ára
Dagana 8. – 11. ágúst munu rithöfundurinn Gerður Kristný og myndlistarmaðurinn Guðrún Benónýs leiða námskeið í Gerðarsafni fyrir börn á aldrinum 8 til 13 ára.
Á námskeiðinu munum við skoða, túlka og skapa okkar eigin listaverk og sögur. Við munum kynnast því hvernig líf og umhverfi listamanna hafa haft áhrif á listsköpun þeirra og hvernig þekktustu rithöfundar heims hafa fengið hugmyndir. Við notum málverk eftir Hugo Simberg til að hugsa út fyrir rammann og gera okkar eigin listaverk og sögur sem við kynnum í Stúdíói Gerðar í lok námskeiðsins.
Skráning er í fullum gangi á netfangið menningarhusin@kopavogur.is
Námskeiðið er 8.-11. ágúst frá kl.10-14:30. Hámarksfjöldi á námskeiðinu eru 20 börn.
Námskeiðsgjald er kr. 16.000. Systkinaafsláttur er í boði.
Ritlist, vísindi og myndlist
Heilsdagsnámskeið fyrir 6-9 ára
Í sumar bjóða Menningarhúsin í Kópavogi í annað sinn upp á heilsdagsnámskeið fyrir börn á aldrinum 6 til 9 ára.Á námskeiðinu verður boðið upp á fjöruferðir og náttúrurannsóknir í Náttúrufræðistofu og ljóðasmiðju með Höllu Margréti Jóhannsdóttur í Bókasafni Kópavogs fyrir hádegi. Listsmiðja með myndlistarmönnunum Bryndísi Hrönn Ragnarsdóttur og Linn Björklund fer fram eftir hádegi þar sem verða unnin þrívíddarverk í anda Gerðar Helgadóttur í Gerðarsafni.
Í hádegishléi munu leiðbeinendur á vegum Kópavogsbæjar sjá um nestistíma og fara í leiki á útivistarsvæði Menningarhúsanna.
Skráning er í fullum gangi á netfangið menningarhusin@kopavogur.is
Námskeiðið er vikuna 14.-18. ágúst kl. 9-16. Hámarksfjöldi á námskeiðið er 18 börn
Námskeiðsgjald: kr. 24.000. Systkinaafsláttur er í boði.
Þátttakendur þurfa að hafa meðferðis hollt og gott nesti, hlífðarföt og stígvél.