Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fatalausir fangar og spurning til lögreglustjóra og dómsmálaráðherra

$
0
0

Þann 23. júní sl. var viðtal við Hjalta Úrsus Árnason í DV, en þar ræddi hann vankanta á rannsókn lögreglu á atvikum sem urðu til þess að sonur hans var handtekinn og ákærður fyrir tilraun til manndráps, en Árni Gils sonur Hjalta átti í átökum við annan mann sem endaði með hættulegri stungu í höfuð mannsins og mun hafa munað mjóu að hún náði inn í heila.

Það er því miður oftar en við vitum sem slík átök eiga sér stað manna á milli. En það verður ekki hér til umræðu að öðru leyti en það stakk mig óþyrmilega það sem haft var eftir Hjalta um hvernig lögregla,  fangelsismálayfirvöld og dómsvaldið kom fram við hinn ákærða.

Ég vakti máls á því á því á Facebooksíðu minni hvort enginn hafi séð ástæðu til að velta fyrir sér orðum Hjalta en þau voru meðal annars á þessa leið:

Þeir taka öll fötin af honum þegar hann er handtekinn og loka hann í einangrun á Litla-Hrauni. Þegar hann er leiddur fyrir dómara þá eru engin föt á hann, hann er svo stór og þrekinn. Þannig að hann er leiddur fyrir dómara, kvendómara, í allt of lítilli og rifinni sundskýlu með handklæði yfir axlirnar. Þannig er hann leiddur fyrir dómara og hann er með hauskúputattú yfir allt brjóstið á sér. Konan sér hann svona nakinn, hvaða líkur heldurðu að séu á því að hún segi honum að hann sé að fara að losna?

 

Auglýsing

 

Ég varð ekki hissa á að sonur hans hafi verið beittur slíkri niðurlægjandi meðferð, þar sem ég vissi af því fyrir að það mun vera talsvert algengt að lögreglan beiti þá sem þeir handataka og færa í fangageymslur slíku ofbeldi. Það kom mér hins vegar á óvart að að svona meðferð skuli fangi í gæsluvarðhaldi hljóta af hálfu fangelsismálayfirvalda og svo ekki sé talað um dómsvaldið en það hefur vart farið fram hjá dómaranum, sem í þessu tilfelli var kona,  að maðurinn var svo gott sem nakinn frammi fyrir henni.

Á öllu getur maður átt von þegar lögreglan og fangelsismálayfirvöld eiga í hlut, það hefur reynslan kennt mér, en það kom mér gjörsamlega á óvart að dómari skuli láta slíka meðferð á fanga líðast án mótmæla því augljóslega stóð þessi tveggja metra og 250 kílóa maður, Árni Gils, frammi fyrir henni á sundskýlu einni fata.

 

Spurningar til yfirvalda varðandi þetta verklag

Ég hlýt að álykta að viðkomandi dómara sé ýmsu vanur  og hafi alls ekki verið brugðið, því annars hefði hún hvorki látið bjóða sjálfri sér, svo ekki sé talað um manninn sem hún úrskurði í gæsluvarðhald, upp á slíka auðmýkingu. Það segir kannski meira en nokkur orð um þau vinnubrögð sem viðhöfð eru af hálfu dóms- og  lögregluvaldsins. Ella hefði dómarinn neitað að taka málið fyrir undir kringumstæðum sem þessum og ekki látið bjóða sér það. Svo ekki sé talað um um meðferð á fanganum í þessu tilfelli sem var algjörlega undir hæl valdhafana og gat sér enga björg sér veitt.

Því beini ég þeirri spurningu í fyrsta lagi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, hvort þessi meðferð er samkvæmt hennar boðum eða hvort henni er hreint ekki kunnugt um hvernig undirmenn hennar fara með gæslufanga sem er í skilningi laganna er saklaus uns sekt hans er sönnuð.

Í annan stað beini ég sömu spurningu til hins skelegga dómsmálaráðherra, Sigríðar Andersen sem fram að þessu hefur jafnan haft svör á reiðum höndum við ótrúlegustu málum sem upp hafa komið og heyra undir hennar valdsvið. Henni ætti því ekki að verða skotaskuld úr því að svara því hvort henni er kunnugt um að menn séu almennt leiddir fyrir dómara hálfnaktir; hvort það sé að hennar undirlagi að gæslufangar séu auðmýktir eða yfirhöfuð hvort hún hafi kynnt sér meðferð á föngum í fangelsum sem undir ráðuneyti hennar heyra?

Vanvirðandi meðferð á fársjúku fólki

Í mínum huga flokkast meðferð sem þessi ekki undir annað en andlegar pyntingar, sem menn hafa sem betur fer ekki kynnst nema af frásögnum af meðferð fanga í Guatemala fangelsinu á Kúbu eða í einræðisríkjum Suður Ameríku, þar sem mannréttindi eru að öngvu höfð. Ef ekki væri fyrir það að ég hef undanfarna mánuði unnið að verkefni sem kallar á upplýsingar úr hinum alræmdu undirheimum hefði ég talið þetta tómt kjaftæði. En einmitt þess vegna var ég ekki í vafa um að rétt væri eftir Hjalta haft.

Ég hef meðal annars rætt við fólk sem lifir þar og hrærist utan mannlegs samfélags; fársjúkt fólk sem á sér litla sem enga von og á þann eina möguleika að að brjóta lög til að ná sér í skammtinn sinn; skammt hugbreytandi efna til að lifa af daginn. Í samræðum mínum við þetta fólk af öllum stéttum og með mismunandi uppruna, konur jafnt sem karla og unga sem eldri, hef ég fengið staðfestingu á því að vanvirðandi meðferð virðist vera venjubundið verklag. Takið eftir ég nefndi ekki gamla, því það er svo gott sem enginn yfir fimmtugt sem lifir af dvöl í undirheimum. Gamalt fólk dvelst í undirheimum, aðeins í þeim einu tilfellum hafi þeir átt langan tíma utan þeirra og misst tökin og leiðin legið þangað aftur.

Í fyrsta sinn sem maður fullyrti að hann hefði verið beittur slíkri meðferð oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, taldi ég hann vera að fabúlera og magna upp hryllinginn með skreytni. Það breyttist skjótt eftir tvö viðtöl til viðbótar, og frá mörgum þeirra sem ég hef rætt við; bæði konum og körlum, hef ég fengið staðfestingu á að aðferðin er ekki ný af nálinni og er notuð í sumum tilfellum af lögreglumönnum sem handtakaka þær ólánsömu manneskjur sem staðnar eru að hnupli  eða annarri vafasamri iðju og teknar úr umferð og færðar í fangageymslur lögreglunnar við Hverfisgötu.

Til þess að vera alveg viss um að þetta væri ekki eitthvað sem gengi um neðanjarðar og væri magnað upp, ræddi ég við þá sem höfðu sagt mér frá meðferðinni og spurði í þaula. Tilgangurinn var að fá trúverðuga mynd og það kom í ljós þótt fólk sem er handtekið fái ekki allt í smáatriðum sömu meðferð, er vanvirðandi meðferð regla fremur en undantekning.

Ég fékk þetta einnig staðfest með því að ræða við fólk sem snúið hafði aftur til mannheima og lifað eðlilegu lífi um nokkurn tíma. Fólk sem átt hafði erfiða daga og þekkti lífið og reglurnar vel og dómgreindin komi í þokkalegt lag. Og það kom heim og saman. Ef viðkomandi sjálfur hafði sloppið við pyntingar átti hann vin eða félaga sem hafði hlotið slæma meðferð eða orðið hreinlega vitni af því sjálfur, þar sem hann slapp, var prúður og hlýddi á meðan aðrir brutust um. Ég var um leið spurð hvort ég vissi þetta ekki. Þetta fólk taldi það vera á allra vitorði var greinilega hissa á barnaskap mínum. Það sannfærði mig um að rétt væri og þetta væri ekki bara flökkusaga í utndirheimunum.

Eftir að hafa raða saman öllu sem mér var sagt frá og dregið frá og lagt aftur saman, talað við fleiri og borið saman frásagnir, var ekki hægt að horfa fram hjá því að það væri eitthvað meira en lítið að hjá þeim sem bera ábyrgð og eiga að stjórna, hvar sem á er litið innan þess kerfis sem fer með þessi mál og ber að fara að lögum. Og ekki er að sjá að neitt sé undanskilið hvort sem er innan dómsvaldsins. lögregluvaldsins eða  fangelsismálayfirvöldum.

 

Auglýsing

 

Hvað felst í meðferðinni?

Lyftan upp á þriðju hæð fangageymslunnar á Hverfisgötu er tilvalinn vettvangur til að láta til skarar skríða. Þar eru þeir lögreglumenn og hinn handtekni einir inn í lokaðri lyftu þar sem ekkert auga fær numið sem þar fer fram.  Og tíminn er skammur og það þarf hraðar hendur en því öflugri eru högginn. Nánast allir sem ég talaði við höfðu fengið sinn skammt af barsmíðum við þessar aðstæður. Margir kváðu það óumflýjanlegt og gerðu ráð fyrir því.

Þeir sem fá verstu meðferðina, eru háttaðir úr hverri spjör og fleygt inn í klefa með eitt teppi. Þar mega þeir skjálfa og á botnlausum niðurtúr að auki. Þeir reyna að láta heyrast í sér og biðja um einhver föt, vatn að drekka og eða bara eitthvað til að lina þjáninguna en það er til lítils, því það er ekki einu sinni hlustað á þá hvað þá annað að þeim sé ansað. Eftir slíka reynslu reyna þeir ekki að biðja um neitt og vita að það þýðir ekki. Jú, verðirnir koma annað slagið og líta inn um gatið og kanna hvort þeir séu ekki örugglega enn á lífi. Ekki vilja þeir finna fangann dáinn að morgni. Sjaldnast er fanganu svarað en þó kemur það fyrir og þeir segja það fari eftir skapi varðarins hvort hann nær í vatn ef fanginn biður um það. Söng ekki Bubbi fyrir fjölmörgum árum:

 

Við heyrðum hann kalla, biðja um vatn
kvartaði líka um honum væri kalt.
Seinna um nóttina talaði út í bláinn.
það var ekki fyrr í morgun að við sáum að hann væri dáinn.

 

Samkvæmt orðum þeirra sem fyrir þessu verða hefur ekkert breyst. Og mér er fyrirmunað að skilja hvaða tilgangi það þjónar að hátta fólk úr fötunum, nema til að pynta það auðmýkja og niðurlægja. Skil vel að það þurfi að taka af þeim belti og skó og annað sem hægt er að skaða sig á.  En að mönnum hafi tekist að hengja sig í buxnaskálmum eða peysum og nærbol inni í grænum fangaklefa þar sem ekki er einu sinni hægt að finna neitt til að hengja buxnaskálm í, stenst ekki. Þess vegna standast heldur ekki rökin í svari lögreglunnar á Facebook síðu sinni þar sem ég lagði fram fyrirspurn til þeirra. En svarið er eftirfarandi:

 

Þessi spurning er svolítið ruglingsleg. Fyrst talar þú um að menn séu berháttaðir og hent í klefa.. er þá átt við klefa á lögreglustöð? svo er talað um einangrun á Litla Hrauni sem er ekki í hlutverki lögreglu að svara heldur fangelsismálayfirvalda. Hvað varðar fangaklefa lögreglustöðva er það mat lögreglumanna og fangavarða hverju sinni hvort ástand viðkomandi sé með þeim hætti að það þurfi að óttast að viðkomandi reyni að skaða sjálfan sig með því að nota föt sín til þess.. þá er það metið af ástandi manna á þeirri stundu og eins með hliðsjón af fyrri afskiptum. Aðrar fyrirspurnir um einstök mál eða -menn ætti að senda formlega til yfirstjórnar eftir opinberum leiðum, þeim er ekki svarað á samfélagsmiðlum umfram þessi svör.

 

Svo mörg voru þau orð, en það sem ég hnaut sérstaklega um var eftirfarandi setning í svari lögreglunnar:

… er það mat lögreglumanna og fangavarða hverju sinni hvort ástand viðkomandi sé með þeim hætti að það þurfi að óttast að viðkomandi reyni að skaða sjálfan sig með því að nota föt sín til þess.. þá er það metið af ástandi manna á þeirri stundu og eins með hliðsjón af fyrri afskiptum …

Sem sagt kunni að skaða sjálfan sig með því að nota föt sín?

Hefur einhver ímyndarafl til að finna út úr því hvernig hægt er að skaða sig á venjulegum fötum í grænum fangaklefunum með steinbekkjunum, frekar en teppisræflinum sem fanginn fær þó að breiða yfir nakinn líkama sinn.

Þess utan eru til nægilegt magn af fötum sem gefin erum föngum og hefur verið svo um áratugi. Meðal annars hef ég sent þangað föt af sjálfri mér og mínu fólki.

Það þarf heldur ekki að taka fram að veikur maður sem undir áhrifum sterkra verkjalyfja, róandi eða örvandi getur auðveldlega fengið krampa og dáið ef hann er ekki trappaður niður af efnum. Lögreglunni dettur ekki í hug að róa þá niður eða kalla á lækni. Og ég veit það fyrir víst að öll efni eru af þeim tekin; sjaldnast skila þau sér til baka, hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg.

Ég hef séð það sjálf og veit það fyrir víst. Þau eru geymd í opnum skáp í eldhúsinu í  fangageymslunni við Hverfisgötu og það er nóg til af þeim — eða var að minnsta kosti. Ef svo er ekki þá er spurningin hvað gerir lögreglan við lyf eða lögleg efni sem þeir eru með á sér. Ég veit að ef lyfið er ekki í glasi merktu þeim sjálfum frá lyfsalanum þá fá þeir það ekki þegar þeim er hleypt út. Spurning hvað verður af þeim efnum ef þau eru ekki lengur í skápnum?

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283