Ég heiti Freyja og ég er sykurfíkill. Fyrir 15 mánuðum hætti ég að reykja (Húrra fyrir mér!) en það gekk ekki betur en svo að ég skipti út einni fíkn fyrir aðra, ég hætti að reykja og í staðinn fyrir sígarettur þá tróð ég bara uppí mig smá nammi.. það skaðar ekki? Er það nokkuð?
Oh,well. Einum 17kg seinna (sem gera um það bil 1.1kg á mánuði!!) þá er ég bara ekki alveg sammála þeirri upprunalegu hugsun minni að það að fá mér nammi skaði ekki neitt. Að díla við sykurfíkn er á einhvern hátt bara svo miklu erfiðari heldur en að díla við sígarettufíkn, ég hætti bara að kaupa sígarettur og þá voru þær ekki til á heimilinu, það fannst mér nokkuð einfalt! En nú á ég börn sem heimta laugardagsnammi, mann sem elskar nammi líka og bróður sem heldur uppá sama súkkulaði og ég. Svo núna þá er ég og heilinn í mér í stöðugum rökræðum, all day long.
Heili: Eitt nammi skaðar ekki
Ég: Jú það er mánudagur
Heili: En þú borðaðir lítinn morgunmat svo í raun „áttu inni“ nokkrar auka kaloríur
Ég: Aha! Sniðug lausn, ég á það í raun inni… nammnammnamm
Ég ætlaði mér að hætta að blogga í smástund, meðan ég væri að taka til hjá mér, koma sjálfri mér í jafnvægi og klára fyrsta árið í skólanum en hugsaði svo með mér að ég hef bara of mikið að segja til að geta sleppt því að henda hugsunum niður á blað, líklegast það besta við ofvirkni, ofvirkur heili með 150þúsund hugsanir á dag, það er nauðsynlegt að skrifa nokkrar þeirra niður svo ég gleymi þessu ekki öllu!
Í dag eru þrír dagar í fyrsta prófið mitt. Í tilefni af því fór ég í ræktina og ætlaði svo að læra, svo hafði ég bara eitthvað svo mikið að segja að ég ákvað að blogga, er það ekki málið? Kærkomin frestunarárátta þar sem ég finn mér ætíð eitthvað stórmerkilegt og nauðsynlegt að gera rétt fyrir próf svo ég þurfi nú örugglega ekki að lesa aaaalveg strax, ekki fyrr en ég er farin að ofanda úr stressi korter í próf og bölva sjálfri mér í sand og ösku fyrir að vera ekki skipulagðari… kannast einhver við þetta?
En ástæða bloggfærslunnar í dag er sú að ég er að taka sjálfa mig í gegn, bókstaflega. Ég setti markið gríðarlega hátt í þetta skiptið eins og vanalega, er ekki þekkt fyrir að fara meðalveginn né þann auðveldasta, ekkert skemmtilegt við það, svo ég er byrjuð í keppnisþjálfun fyrir Bikini Fitness.
Ég ætla mér að stíga á svið í apríl 2015 á Osló Grand Prix, það verður gaman að sjá hvort mér tekst þetta en hvað sem verður þá verður ferðalagið skemmtilegt og þá er nauðsynlegt að hafa stað til að geta hent hugsunum sínum niður. Ég ætla að fara úr því að vera nammifíkill sem er 17kg of þung og yfir í bikini fitness keppanda á einu ári og þá er nauðsynlegt að geta skrifað niður hvernig manni líður. Í það minnsta á þetta örugglega eftir að verða dramtískt, skemmtilegt og mögulega hræðilegt á tímum
-Freyja