Að missa niður lykkju í uppfitjunarumferð
Hvaða prjónari kannast ekki við að missa niður lykkju í uppfitjunarumferð? Yfirleitt er þá brugðið annað hvort á það ráð að rekja allt draslið upp og byrja aftur, eða farið er í að skítmixa lykkjuna í þeirri von að þetta sjáist ekki. En við vitum öll að þetta sést. Við vitum í það minnsta af því og getur það oft ært óstöðugan. Við skulum orða það svo að ég er ekkert voðalega stöðug í þessum málum. Segjum ekki meir.
Í dag ætla ég að sýna þér hvernig þú bjargar þessari lykkju rétt. Þessar leiðbeiningar eru teknar beint upp úr bókinni minni Geymt en ekki gleymt sem þú getur eignast á sanngjörnu verði á vefnum mínum. Þar geturðu einnig kynnt þér þau námskeið sem í boði eru í vor og sumar.
En að björguninni.
Leiðbeiningarnar eru miðaðar við að réttan snúi að þér.
Haltu á prjónunum hvorum í sinni hendi og horfðu vel á böndin sem liggja á milli (þar sem lykkjan var). Þú ættir að sjá tvö bönd sem krossast. Annað bandið tengist í fremri lykkjuna á vinstri prjóni en hitt virðist fara í lykkjuna sem á eftir kemur.
Stingdu hægri prjóni aftan frá og að þér og lyftu bandinu sem ég lýsi hér síðast (rauða á myndinni) og sem liggur ofan á hinu. Snúðu upp á bandið og myndaðu þannig lykkju og settu á vinstri prjón.
Stingdu hægri prjóninum aftan frá í gegnum nýju lykkjuna, kræktu í bandið sem eftir er með því að fara undir það, dragðu það í gegn og myndaðu þannig nýja lykkju.
Settu nýju lykkjuna á vinstri prjón og haltu áfram að prjóna eins og ekkert hafi í skorist.
Fannst þér þetta nokkuð mikið mál? Það er ýmislegt sniðugt og gagnlegt að finna í bókinni minni og afar hentugt að hafa hana við hendina. Svo er bókin hentug til tækifærisgjafa handa prjónurum sem eiga það skilið.
Skjóttu á mig spurningu ef þú hefur einhverja eða prufaðu þessa aðferð sem ég sýni hér og segðu mér hvernig þér gekk. Mundu svo að kvitta eins og venjulega. Það væri ekkert gaman að skrifa þessa pistla ef viðbrögðin væru engin.
Björgunarkveðjur á línuna,
Tína