Allar uppákomur lífsins gerast einu sinni, aðeins einu sinni – eftir það eru þær lærdómur eða minning.
Kjördæmaþing Framsóknarflokksins í Reykjavík var haldið 20. nóvember í fyrra, þar sem sjö efstu frambjóðendur voru samþykktir.
Ég var númer tvö, nýliði í flokksstarfinu með brennandi áhuga og yfirgripsmikla þekkingu á skipulagsmálum, þar sem sérsvið mitt er skipulag sjúkrahúsa. Uppgefin ástæða fyrir valinu var sú að ég væri ákveðið mótvægi við reynslu oddvita í borgarstjórnarmálum til margra ára og með því að tvinna reynslu hans og þekkingu mína væri framboðslistinn sterkur.
Hvernig lá leið mín í annað sæti?
Ég skráði mig í Framsóknarflokkinn til þess að hafa áhrif á stefnu hans í heilbrigðismálum. Í haust var kallað eftir frambjóðendum til borgarstjórnarkosninga 2014 þar sem raðað yrði á lista af uppstillingarnefnd.
Ég gaf kost á mér og fékk boð um að koma í korters viðtal við dómnefnd og svara spurningum þeirra. Það var eitthvað sem vakti áhuga þeirra á mér, því ég var beðin að koma í ítarlegra viðtal þar sem ég stóð yfir pottunum á sunnudegi.
Á þessum fundi var ég mátuð við annað sæti listans, staðgengilssæti oddvita. Þessi fundur var mun afslappaðri og ég sagði þeim frá reynslu minni í baráttunni fyrir kerfisbreytingum í heilbrigðisþjónustu landsmanna og fyrir endurskoðun áforma um byggingu nýs Landspítala.
Nefndin fékk líka upplýsingar um menntun, félagsstörf, starfsreynslu og annað sem skiptir máli og er metið þegar einstaklingar eru valdir í ábyrgðarstöður fyrir flokkinn og er ætlað að vera ásjóna hans gagnvart kjósendum, þ.e. borgarbúum.
Þegar ég kom heim mátaði ég sjálfa mig við annað sætið og ábyrgðina sem í því felst. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði ýmsa eiginleika sem kallað væri eftir: Þekkingu til að byggja upp þekkingarsamfélag, gagnrýna hugsun og kunnáttu til að spyrja gagnrýninna spurninga. Ég nenni að lesa skýrslur um hin ólíkustu mál, er þjálfuð í að lesa úr tölum, finnst gaman að vinna með og fyrir hópa og hef metnað til að klára verkefni vel.
Annað sem vó þungt er að þar sem Framsóknarflokkurinn kom ekki að samþykki nýs aðalskipulags Reykjavíkur, hefur flokkurinn ákveðið svigrúm til að gagnrýna, en ég hef miklar efasemdir um að afleiðingar af þéttingu byggðar í grónum hverfum og af byggð í Vatnsmýri hafi verið metnar með ásættanlegum hætti.
Daginn fyrir kjördæmaþing var mér boðið annað sæti listans og ég var tilbúin í verkefnið.
Efstu sjö, fundirnir og ég
Vinnan við að undirbúa framboðið hófst fljótlega með fundum efstu sjö manna listans einu sinni í viku til að undirbúa málefnavinnu og hrista hópinn saman. Ég undirbjó mig með því að ráðast á allar þær upplýsingar sem ég komst í sem tengdust fundarefni en vinnulagið á þessum fundum var ólíkt öllu því sem ég hef áður kynnst.
Fundir voru boðaðir og afboðaðir með stuttum fyrirvara og fundarstjórn var mun stífari en ég hef vanist. Það var greinilegt að ég truflaði fundina með því að koma með ýmsar uppástungur eftir allan skýrslulesturinn um það sem mætti betur fara og með því að benda á útfærslur á stefnumálum framboðsins með tilliti til samþykkta flokksins.
Þegar ég furðaði mig á fundarsköpum og viðbrögðum við meðframbjóðendur mína, var mér bent á reynsluleysi mitt í stjórnmálum og að ég gæti fengið leiðsögn hjá „fólkinu á bakvið tjöldin“, sem ég og gerði.
Mér var bent á að oddvitinn væri stjórnmálamaður með mikla reynslu og að þar sem ég væri ný í bransanum þyrfti ég að læra að tala sem stjórnmálamaður. Ég væri of mikill verkfræðingur en eins og allir vita skilja fæstir um hvað þeir tala.
Ég ákvað að læra stjórnmál af reynda fólkinu á fundinum og hélt mig til hlés með bók og penna og skrifaði í gríð og erg. Flestir fundir byrjuðu á því að ræða skoðanakannanir sem voru framboðinu í hag og að tölurnar voru að mjakast upp á við en ekki niður.
Það var ákveðið að kynna eitt stefnumál á viku. Það var þó nauðsynlegt að halda þeim leyndum þar til þau væru kynnt opinberlega. Ég fékk semsagt upplýsingar um stefnumálin með því að lesa aðsendar greinar eða hlusta á viðtöl í útvarpi líkt og aðrir landsmenn.
Stefna framboðsins var að ná inn manni. Þannig lá í augum uppi að oddvitinn yrði andlit framboðsins út á við og legði línurnar í stefnumálum.
Eftir því sem fundunum fjölgaði því minna áttaði ég mig á hvaða hlutverki ég gegndi í þessu öllu saman, því verkefnum var útdeilt og ýmsir gestir komu á fundi. Fastagesturinn var hægri hönd oddvitans sem fylgdi honum á frambjóðendafundi og skipulagði starfið með honum.
Ég varð sífellt ráðvilltari og fór aftur að hitta fólkið á bakvið tjöldin.
Fólkið bakvið tjöldin
Ég frétti að menn hefðu miklar áhyggjur af hroka mínum og viðmóti. Ég var víst hið ógurlega kerlingarskass sem ekki var nokkur leið að hemja. Það var öllum nema mér ljóst að ég ætti ekki nokkra samleið með framboðinu.
Ég fékk umhyggjusamar ráðleggingar að það væri mér fyrir bestu og framboðinu líka að ég endurskoðaði hvort ég ætti erindi í borgarstjórn. Mér þóttu þessar áhyggjur manna óþarfar og benti á að mér hefði verið haldið fjarri allri hugmyndavinnu og samskiptin milli mín og annarra frambjóðenda væru engin utan funda.
Á sama tíma var verið að vinna í að stilla upp lista þeirra sem uppá vantaði, í samvinnu oddvita og eins þeirra sem til þess voru kjörnir. Starfið var annars blómlegt: vöfflukaffi á föstudögum þar sem virðulegir Framsóknarmenn spjölluðu um dægurmálin, loðdýrarækt og veðrið.
Þegar aðalfundur Reykjavíkurdeildar nálgaðist ákvað frambjóðandinn sem var í fimmta sæti að gefa kost á sér til formanns og sagði sig af lista framboðs – til að sitja ekki beggja vegna borðs vegna ákvarðana er varða frambjóðendur og þá vorum við sex eftir.
Þegar mér var tilkynnt um hugsanlega afsögn hans fékk ég vinalega ábendingu að það gæti verið sterkur leikur að slást í hóp með honum. Ég hugsaði málið en þótti réttast að sýna þeim sem höfðu samþykkt mig á kjördæmaþingi virðingu og sitja áfram, með það í farteskinu að ég væri stjórnmálalærlingurinn og fljót að læra.
Samskiptin innan hópsins breyttust úr því að vera mér framandi í það að verða fjarlæg og hægri hönd oddvitans kom skilaboðum og fyrirmælum á framfæri við mig.
Ég gaf fólkinu á bakvið tjöldin samviskusamlega skýrslu um gang mála, það brást vel við og ég fékk góð ráð. Ég hélt því ótrauð áfram og fékk að fylgjast með framvindu framboðsins á fundum þess.
Nýtt framboð
Mánudaginn 24. mars var fjölmennur fundur með þremur frambjóðendum, það átti að búa til stemningu fyrir aukakjördæmaþingi með úthringingum valinna frambjóðenda, og það var verið að redda kaffi og meððí fyrir opnun kosningaskrifstofunnar sumardaginn fyrsta. Það var mikil gleði og rífandi gangur í hópnum.
Það kom því mjög á óvart þegar oddvitinn spilaði út stóra trompinu um afsögn sína. Ég frétti það með símtali sem var einhvernveginn á þessa leið: Ef fréttamenn hringja í þig er svarið: „No comment“ við öllu.
Ég náði að renna yfir fréttatilkynninguna áður en fyrsti fréttamaðurinn hringdi og svarið sem ég gaf næstu vikurnar heyrðist í fyrsta skipti: Enginn hefur haft samband við mig. Ég skorast ekki undan ábyrgð.
Síminn hringdi stanslaust. Það ringdi inn heillaóskum vegna oddvitasætisins frá allskonar glöðu fólki sem ég ýmist þekki eða ekki og fjölmiðlar spurðu áfram fregna – ég var með þetta fína svar við öllum spurningum: Enginn hefur haft samband við mig.
Þegar ég loksins heyrði í fólkinu á bakvið tjöldin fékk ég að vita að listanum í heild sinni hafi verið hafnað og því því væri framboðið oddvitalaust. Ég mætti þó fastlega búast við því að það yrði talað við mig fljótlega og það gerðist þegar fyrsti fundur eftir fráhvarf Óskars var haldinn á sunnudegi.
Ég fékk símtal þar sem ég var beðin að hitta mann á bakvið tjöldin áður en fundur hófst.
Sá sagðist hafa barist fyrir mér í annað sætið og hann myndi gera það fyrir mig áfram því nú verði listinn endurskoðaður í heild sinni þar sem listanum hefði verið hafnað. Þar sem ég væri nýliði í stjórnmálum, ætti ég of mikið ólært til að geta leitt lista að hans sögn. Helst vildi hann sjá mig í innra starfi flokksins til frambúðar en ekki í framlínunni. Að svo búnu var fundi slitið og ég skilin eftir í lausu lofti.
Upplýsingarnar sem ég fékk af fundum kjörstjórnar komu aðallega úr fréttum, ég heyrði af og til í fólkinu á bakvið tjöldin án þess þó að ég fengi að vita nokkuð, hvaða vinna færi eiginlega fram.
Ég fékk líka af og til ótrúlega flóknar og óskiljanlegar skýringar á því að listanum hefði verið hafnað í heild sinni, hann hefði orðið ógildur þegar fyrsti einstaklingurinn sagði sig frá. Í raun væri því enginn framboðslisti til og ég því ekki með umboð til að koma fram.
Ég er ekki löglærð og þekki ekki reglur flokksins til hlítar. Það er því annarra að meta hvort listi ógildist sjálfkrafa við það eitt að frambjóðandi segi sig frá og þá um leið hvaða trúverðugleika framboð hefur ef listi ógildist með þessum hætti.
Ég átti meiri samskipti við fjölmiðla en fólkið á bakvið tjöldin og ég hamraði á því að ég skoraðist ekki undan ábyrgð og að kjörstjórn ynni sína vinnu samviskusamlega.
Allskonar fólk hafði samband við mig og skildi ekkert í því hversvegna ég var ekki sett í oddvitasætið, það skildi enn minna eftir að ég reyndi að útskýra það, því ég skyldi það varla sjálf. Ég fékk líka upphringingar þar sem fólk sagði mér að það hefði sent pósta á Framsókn til að óska eftir svörum hversvegna ég var ekki gerð að oddvita eða áskorun þess efnis að gera mig að oddvita.
Mér þykir vænt um það traust sem fólk hefur sýnt með ýmsum hætti. Eina svarið sem ég gat og get gefið er að ákvörðunin um það hvort og hvar ég er á framboðslista Framsóknar er ekki mín og því eru örlög mín í höndum fólksins á bakvið tjöldin.
Er búið að dömpa mér?
Ég frétti hjá fjölmiðlamanni af fundi þingkvenna (sem ég hef aldrei átt nokkur samskipti við) með kjörstjórn. Fjölmiðlamaðurinn spurði hvort ég yrði líka á þeim fundi.
Ég er forvitin að eðlisfari og spurði fólkið á bakvið tjöldin fregna, fékk lítil og loðin svör – ástæðan væri væntanlega sú að þær hefðu áhyggjur af stöðunni og að þær væru að miðla af reynslu sinni.
Ég bað þau að hafa samband við mig eftir fundinn ef staða mín skýrðist, því mér var farið að líða verulega óþægilega í þessu undarlega tómarúmi. Þegar langt var liðið á kvöld og ég búin að reyna nokkrar árangurslausar símhringingar – datt mér í hug í galsa að senda sms: Er búið að dömpa mér?
Það hvarflaði ekki að mér annað en að þessu yrði tekið sem nettu sprelli – raunin varð önnur.
Ég átti það alundarlegasta símtal við fólkið á bakvið tjöldin þar sem ég var sökuð um leka af fundi (sem ég var ekki á) og fékk þessa líka fínu vantraustsyfirlýsingu frá þessum sama einstakling.
Eftir vantraustsyfirlýsinguna, var mér hampað fyrir mikla fagþekkingu og að ég ætti fullan trúnað þeirra til að fara á lista þeirra, það yrði barist fyrir mér áfram. En vegna vantraustsins gæti ég ekki haft samband áfram.
Ég heyrði áfram í fjölmiðlum og eftir því sem á leið fóru spurningar fjölmiðla og upplýsingar um gang mála frá allskonar fólki sem ég hef aldrei hitt og í fjölmiðlum að taka á sig æ óraunverulegri mynd.
Óraunverulega fyrir mér, því ég var búin að gera ráðstafanir til að geta tekið þátt í kosningabaráttu, vinna af heilindum og taka í það tíma. Það má ekki gleyma því í þessu öllu saman að ég er fyrst og fremst manneskja sem á sér sitt líf og fjölskyldu. Ég þurfti því svör.
Í vikunni fyrir páska ákvað ég að svona gæti þetta ekki gengið lengur, hafði samband við Hverfisgötuna og þar mætti mér hlý rödd sem bauð mér að kíkja í kaffi.
Næst þegar ég átti erindi í bæinn kom ég við og átti von á góðum móttökum og klappi á öxlina – eða bara einhverju öðru en því sem beið mín. Fólk sem ég hóf samtal við kom með málbunur um frambjóðendur úti á landi eða þagði. Þau áttu það öll sameiginlegt að horfa ekki á mig.
Ég fékk „vegginn“ eins og það er kallað. Að því komst ég síðar.
Þá vissi ég það – þetta var ekki góður staður til að vera á.
Eftir þetta undarlega kaffispjall fór ég að meta stöðuna með öðrum hætti. Ég hafði lagt út í þetta stjórnmálastarf af því ég hélt að það fæli í sér samvinnu áhugasamra einstaklinga með mismunandi þekkingu en með það sameiginlega markmið að gera samfélagið að betri stað.
Ég hafði komist að því að slíka starfshætti var ekki að finna á þessum vettvangi.
Að einhverju leyti var ég múruð inni í þögn fólksins á bakvið tjöldin og svo var þessi „veggur“.
Ég er ekki tilbúin til að eiga samskipti með þögninni einni saman eða umtali í stað samtals og því tók ég ákvörðun um að hætta. Ég samdi fréttatilkynningu þess efnis en ákvað að birta hana ekki strax.
Guðni og íþróttaálfurinn
Föstudagurinn langi kom og fór án þess að ég sendi tilkynninguna og á laugardeginum birtust keppinautarnir um oddvitasætið í Reykjavík með morgunkaffinu: Guðni Ágústsson og íþróttaálfurinn.
Fyrsta hugsun mín var, hvað hafa þessir góðu menn umfram mig? Þessi hugsun sat enn í kollinum þegar fréttamaður hringdi í mig – hann fékk stöðluðu svörin.
Þegar hann var búinn að spyrja síðustu spurningarinnar og upptakan enn í gangi, kom svarið við spurningunni áleitnu: Hvað hef ég umfram íþróttaálfinn og Guðna?
Svarið var: Ég tel mig vera betri kost.
Valkosturinn sem ég stillti upp var raunveruleg þekking á borgarmálum.
Páskahelgin leið. Fólkið á bakvið tjöldin var horfið, ég náði samt að grípa í löppina á einum sem kannaðist ekki við að nokkur hefði haft samband við Guðna eða íþróttaálfinn. Svo var óskað eftir Framsóknarfríi um páskana og samtalinu því slitið.
Af fréttum mátti skilja að menn hafi sest saman í reykfyllt bakherbergi til að vinna að hliðarframboði með Guðna, sem sagðist vera kominn undir feld ásamt útvöldum, þaðan bárust mér engar fréttir.
Það bárust síðan fréttir af því að landstjórnin og æðstu embætti flokksins, ásamt þingmönnum ynnu að framboði fyrir sveitastjórnarkosningar. Fréttatilkynningar með sífellt nýjum útgáfum af sömu atburðarás bárust fjölmiðlum.
Það vakti athygli mína að ráðherra jafnréttismála Eygló Harðardóttir og þingkonur og kvennahreyfingar þær sem eru þátttakendur í átakinu „konur til forystu“ gerðu enga athugasemd við aðferðafræði flokksins gagnvart kynsystur sinni.
Þögnin um konuna sem var í 2. sæti framboðslista sem hafði verið samþykktur af framsóknarfélögum í Reykjavík var orðin verulega hávær.
Ég kveð hérmeð Framsóknarflokkinn með virktum og tek ekki sæti á lista hans, enda hefur þess ekki verið óskað. Ég minni á að ég hef aldrei sóst eftir oddvitasætinu, þrátt fyrir að ég hafi fundið fyrir áþreifanlegum stuðningi framsóknarmanna- og kvenna sem og óflokksbundinna borgarbúa. Mér þykir vænt um þá ábyrgð sem mér var sýnd þegar ég var valin á lista þótt kraftar mínir hafi ekki fengið farveg innan Framsóknarflokksins. Ég óska nýjum oddvita og öðru flokksfólki velgengni.
Með kveðju og vinsemd
Guðrún Bryndís Karlsdóttir