Matteo Salvini, öfgahægrimaðurinn sem situr nú á stóli innanríkisráðherra á Ítalíu, hefur hafið rýmingu byggða Rómana í landinu.
Lögreglusveitir í norðurhluta Rómarborgar hröktu á fjórða hundrað manns úr slíkum búðum á fimmtudag. Aðgerðin átti sér stað þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði, í ljósi ákæru vegna málsins, farið fram á að henni yrði frestað.
Elena Risi, fulltrúi Mannréttindasamtakanna Associazione 21 Luglio, segir réttinn hafa farið fram á það við stjórnvöld að gera betur grein fyrir rétti þeirra sem yrðu hraktir á brott, og veitt skilafrest til föstudags.
Í þessu samhengi er haft eftir Salvini, fyrrnefndum innanríkisráðherra Ítalíu: „Ég hef áhuga á að endurheimta lög og rétt, sama hvað segir í bréfum frá dómstólnum“. Salvini hefur lýst því yfir að hann vilji gera manntal meðal Róma-hópa og hyggist vísa úr landinu þeim hópum Rómana sem ekki eru með ítalskan ríkisborgararétt.
„Boðið“ að flytja úr landi
Aðgerðin hófst að morgni fimmtudags og stóð lungann úr deginum. Blaðamönnum var haldið frá svæðinu á meðan á aðgerðinni stóð.
„Ég hef séð margar rýmingaraðgerðir,“ sagði Jemilia Mehmeti, 44 ára gamall Rómani frá Kósóvó, við blaðamann Al Jazeera, „en þetta er í fyrsta sinn sem okkur eru ekki gefnir neinir valkostir.“ Hann sagði að íbúar byggðarinnar hefðu gert ráð fyrir yfirvöldum á föstudag, ekki á fimmtudag. Hefðu þau áform staðið hefði fólk getað tekið föggur sínar og farið á eigin spýtur. „Það var engin þörf á árásargirni í garð kvenna og barna, við erum ekki í stríði.“
Í aðdraganda aðgerðarinnar höfðu stjórnvöld meðal annars boðið íbúum byggðarinnar aðstoð við flutning til annars lands. „Börnin mín hafa lært að lesa og skrifa ítölsku, hvert vilja þeir að við förum?“ sagði Staicu, frá Rúmeníu, í þessu samhengi. Staicu hefur búið á Ítalíu í 15 ár og starfar við ræstingar. Mörg börn og unglingar í búðunum eru raunar ítalskir ríkisborgarar, eða fædd og uppalin í landinu.
Ofsóknir Róma-fólks
Rómanar eða Róma-fólk eru stór hluti þeirra sem löngum voru nefndir sígaunar. Töluverður fjöldi þeirra lifir flökkulífi, án skráðrar heimilisfestu hjá stjórnvöldum. Það er meðal þess sem gerir þá berskjaldaða fyrir ofsóknum, sem þeir hafa ítrekað sætt. Á Ítalíu er talið að búi á milli 120 og 180 þúsund Rómanar, sem er með því minnsta sem þekkist í Evrópu, ef Ísland er undanskilið. Íslensk stjórnvöld hafa það sem af er þessari öld hrakið þá Rómana sem leggja leið sína til landsins á brott jafnóðum og komið í veg fyrir varanlega dvöl þeirra.