Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Dagbjört Sóley Snæbjörnsdóttir – Minningarorð

$
0
0

Spakir menn vilja meina að maður velji sér foreldra og að valið snúist um að velja þá sem mest geta hjálpað manni í gegn um lífsins verkefni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er svona. Í gær fylgdi ég þér, mamma mín, síðasta spölinn ofaní moldina við hliðina á pabba. Þar sem mitt líf hefur verið ein allsherjar óþolinmæði og strax-veiki þá finnst mér að ég hefði með engu móti getað valið mér betri mömmu en einmitt þig, Dagbjört Sóley. Það verður að játast að jafnvel fyrir harðskelja einfara eins og mig er þyngra en tárum taki að kveðja mömmu. En jafnframt er ég guðunum svo innilega þakklátur fyrir allt sem þú gafst mér.

Ég var drengurinn þinn.

„Nei, er DRENGURINN minn kominn,“ er held ég kveðjan sem systur mínar öfunduðust alltaf útí því þær voru bara Gunna mín eða Elín mín, meðan ég var DRENGURINN.

Það eru óljósar minningar úr Bólstaðahlíðinni, rigning úti og mamma í eldhúsinu með saumavélina og Ríkisútvarpið að úða úr sér níðþungri klassík og mér hundleiddist og þér var alveg sama. Ég varð þá að finna uppá einhverju sjálfur. Þar lærði ég kannski þá dýru lexíu að bjarga mér, hver veit. Þú saumaðir allan fjandann á mann. Úlpur og buxur peysur og boli og það var ekki bara saumað því lopapeysurnar þínar voru einstakar. Seinna þegar ég svo rétt náði í skottið á hippatímanum í Kaupmannahöfn gerðir þú mig út með mussu sem sendi alla hina hippana bara beint á byrjunarreit. Ég fann hana í kassa núna fyrir stuttu og ég varð jafnvel ennþá glaðari en þegar ég fékk hana í upphafi. Ég passaði reyndar ekki í hana lengur.

Ég skil vel af hverju ég kaus þig þessa einstöku konu sem móðir en ég á erfiðara með að skilja að þú hafir viljað taka að þér verkið. Ég var held ég ekki neitt sérstaklega auðvelt verkefni fyrir þig, mamma mín. Gífurlega sjálfmiðaður og tillitslaus á köflum en aldrei skiptir þú skapi við mig og studdir mig líka alltaf sama hversu vitlausar hugmyndirnar voru. Ég var auðvitað yndislegt barn en eftir fermingu varð ég umskiptingur. Ég vildi snemma á sjóinn en þau gömlu vildu það ekki. Ég var ekki alveg orðinn 15 ára þegar mér bauðst pláss á síðutogaranum Þormóði Goða RE með mjög stuttum fyrirvara. Ég hljóp upp í Faxaskála og fékk að hringja og sagði þér hvað til stóð. Þú auðvitað skildir strax hvað klukkan sló og hentir í flýti lopapeysu og einhverju í poka og brunaðir á Opelnum niður á kajann þar sem landfestum hafði þegar verið sleppt en þú dóst ekki ráðalaus og fannst á bryggjunni heljarmenni sem eins og ólympískur sleggjukastari náði að henda pokanum um borð. Þú útskýrðir svo fyrir pabba hvað gerst hefði og honum var auðvitað löngu runnin reiðin þegar ég loks kom í land ruggandi af sjóriðu með fullan poka af ýsu.

Og það er ekkert svo langt síðan að ég fattaði að jólakakan og súkkulaðikakan sem alltaf voru uppí skáp í Drekavoginum voru ekki þar fyrir hreina tilviljun. Það var alveg sama hvað ég kom oft glorsoltinn heim um miðja nótt og skoraði kökurnar á hólm, vopnaður ískaldri mjólk, alltaf spruttu þær aftur í skápnum. Þannig varstu alltaf að gera eitthvað fyrir mig án þess að ég hefði hugmynd um það.

Það var svo eftir að pabbi dó sem ég fór í víking íklæddur mussunni góðu. Ég var ekki mikið að hafa fyrir því að hringja heim á þessum tíma. Fór þó einstaka sinnum í símaklefann á horninu og bað um kollekt-símtal við 81609 á Íslandi og alltaf varst þú jafn glöð að heyra í drengnum þínum. Þú gerðir þér auðvitað grein fyrir því löngu á undan mér að ég var að stefna í verri áttina í lífinu. En þú stóðst endalaust við bakið á mér og hafðir alltaf jafn mikið æðruleysi og jafnaðargeð. Ég held svei mér þá að það gæti hafa verið þú sem ortir æðruleysis bænina. Þú sættir þig einhvernvegin alltaf við að hlutirnir væru eins og þeir voru og þú reyndir alltaf að gera það besta úr stöðunni. Tímann sem ég sat á Snæfellsnesinu með blessuðum prestinum, sem í dag jarðsetti þig mamma notaðir þú alla þá orku sem þú áttir til að gera mér og okkur vistina bærilegri. Aldrei styggðaryrði eða fyrirlestur um villu vegar eða einhver afskiptasemi af neinu tagi önnur en sú að vera til staðar hvað sem á dundi.

Þegar ég svo löngu síðar kom heim frá Kaupmannahöfn gjörsigraður af lífinu, vonlaus með ekkert plan, þá beiðst þú, þessi endalaust sterka kona, brosandi í flugstöðinni og faðmaðir eftirstöðvarnar af drengnum þínum án þess að segja margt eða spyrja nokkurs. Það var ekki fyrr en inn við álver að þú spurðir hvað ég hygðist nú taka mér fyrir hendur og þegar ég augljóslega var ekki með neitt eftir á batteríinu til að svara, þá sagðist þú kannski vera með plan. Það plan átti eftir að verða mitt mesta gæfuspor, það kom mér inn á leikvöll lífsins aftur. Það vill svo til að í þessari viku voru liðin 35 ár frá þessum bíltúr og ég er svo óendanlega þakklátur fyrir þennan tíma. Ég fékk að kynnast þér mamma uppá nýtt og systrunum líka, nýfæddum syni mínum og eiginlega bara öllu sem ég hafði áður hafnað. Þarna vann hún Dagbjört Sóley þrekvirki því enginn annar hefði getað lempað mig svona í réttu áttina á hárrétta augnablikinu nema þú mamma.

Elsku elsku mamma, það er svo langur listi sem ég hef yfir það sem ég get þakkað þér fyrir. Þú hefur kennt mér svo margt. Hvað þú varst dugleg að draga mig í fjallgöngur, hvað þú varst köld við að láta eigin drauma rætast, öll ferðalögin sem þú fórst í og öll ferðalögin sem við fórum saman, hvað þér leist alltaf vel á plönin mín, spíritisminn, kuklið, ljóðin, bókmenntirnar, söguástin og allt hitt sem of langt væri upp að telja. Þegar talað er um hjartastóra eða góða manneskju þá ert þú það fyrsta sem mér dettur í hug. Vonandi næ ég einhvern tíman að tileinka mér þína góðmennsku. Vonandi vex hjarta mitt einhvern tíman nálægt stærð hjarta þíns. Þú ert stóri áhrifavaldurinn í mínu lífi.

Góða ferð elsku mamma og takk fyrir allt

Drengurinn þinn


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283