Búddamunkur hlaut skyndilega frægð í vikunni þegar hann brást ókvæða við neikvæðum umsögnum gesta á bókunarvefnum Booking.com um búddahofið Sekishoin Shukubo á Koyasan-fjalli í Japan.
Notendur vefsins veita þar umsagnir um gististaði. Gestur í hofinu kvartaði á vefsíðunni yfir dýnu og koddum sem hefðu ekki verið fyrsta flokks, og sagði máltíðir hafa verið „beisik grænmetisfæði“.
Hofið svaraði:
„Þessi staður er ætlaður til þjálfunar. Máltíðir og allt annað eru þess vegna, já, beisik. Bara að þú ert Vesturlandabúi þýðir ekki að þú fáir sérmeðferð. … Ef þú hefur svona mikinn áhuga á munkalífi ættirðu að raka á þér höfuðið og gerast munkur.“
Annar viðskiptavinur kvartaði yfir því að engin kynding væri utan svefnherbergisins og þarfleiðandi ískalt um miðjan vetur. Þá væru máltíðirnar „töluvert ólíkar nokkrum mat sem ég hef áður bragðað. Skrítnar“.
Hofið brást við með svarinu:
„Já, þetta er japönsk klausturmatargerð, ómenntaða fíflið þitt.“
Kanadíski blaðamaðurinn Melissa Martin birti skjáskot af samskiptunum á Twitter á mánudag. Þegar þetta er skrifað, á föstudegi, hefur þeim verið deilt 16.000 sinnum á miðlinum.
Ferðamenn búist við sex stjörnu hóteli
Á bakvið svörin stóð hinn 30 ára gamli munkur Daniel Imura. Imura fæddist í Bandaríkjunum en hefur búið í Japan um 15 ára skeið. Í viðtali við The Guardian segist hann sjá eftir því að bölva og muni veita lágstemmdara viðbragð í framtíðinni. Hann hafi engu að síður verið pirraður á því að fást látlaust við hrokafulla ferðamenn.
Koya-fjall og nágrenni rataði á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004, og hefur ferðamennska þar vaxið statt og stöðugt síðan. Imura segir ferðamennina:
„auðvitað ekki tala stakt orð í japönsku, koma hingað og búast við að allt verði fært þeim á silfurfati og ég er bara: þú verður að kunna að segja konnichiwa (hæ) og ohayo gozaimasu (góðan dag) — bara smá.“
Sumir ferðamenn koma, að sögn munksins, og búast við:
„sex stjörnu hóteli og það er alrangt. Ég reyni að útskýra að þú getur ekki búist við munaði í klaustri og að auðvitað verði þetta allt svolítið hrátt, en það sé viljandi þannig.“
Imura útskýrði að jafnvel munkar eða prestar verði óþolinmóðir. „Ég þarf að vinna í því“.
Ofangreind samskipti hafa verið fjarlægð af síðu Booking.com, en áhugasamir geta eftir sem áður kynnt sér gistiaðstöðu hofsins á síðunni.