Dagblaðið birti í gærkvöldi grein þar sem til umræðu voru skólaslit Grunnskólans í Grindavík. Greinina má lesa hér en þar kom fram að einhverjir foreldrar sem eiga börn í skólanum voru óánægðir með það að sá kennari sem hefur verið sakaður um einelti skyldi vera færður sérstakur þakklætisvottur við þetta tilefni. Kvennablaðinu barst grein frá nemanda við skólann sem vill ekki láta nafn síns getið vegna smæðar samfélagsins.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Ég er nemandi úr grunnskóla Grindavíkur og var við útskrift 10. bekkinga núna miðvikudaginn fjórða júní. Eineltismál í Grindavík hafa verið til umræðu í fjölmiðlum síðustu vikur vegna meints eineltis kennara eins í garð nemenda sinna. Mál nokkurra barna við skólann eru nú til rannsóknar vegna þessa.
Við útskriftina hélt eiginkona umrædds kennara ræðu sem gerði mig virkilega orðlausa. Hún er líka deildarstjóri og kennari við skólann.
Hún talaði um það hvernig flestir nemendur hefðu reynst vel en ekki allir. Aldrei var talað vel um allan hópinn heldur bara flesta. Ekki útskýrði hún heldur hvernig þessir „flestir“ nemendur hefðu reynst vel. Augljóst var að hún var að tala um samskipti ákveðinna nemenda við mann sinn.
Það gerði marga brjálaða þegar hún las upp ljóðið „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ eftir Einar Benediktsson sem hljóðar svona.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð i nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Þetta ljóð tileinkaði hún „flestum“ nemendum sínum og tóku margir þolendur eflaust skilaboðin til sín.
Mér þótti persónulega mjög sárt að horfa á það þegar tvær mæður úr bekknum hans komu upp á svið og kölluðu 10. bekk til sín. Þá birtist umræddur kennari líka á sviðinu. Það var undarlegt þar sem hann er ekki starfandi við skólann í augnablikinu heldur er hann nú í veikindafríi vegna eineltismála.
Nemendur máttu síðan sitja undir því þegar þær þökkuðu kennaranum fyrir að reynast börnunum þeirra vel og færðu honum blómvönd. Síðan máttu nemendur taka í höndina á kennaranum.
Þessar mæður hugsuðu greinilega ekki hlutina til enda því á meðal nemendanna voru nemendur sem hann hefur lagt í einelti.
Það er sárt að hugsa til þess að þó að hugmyndin hafi komið frá umræddum mæðrum var hún örugglega rædd fyrirfram og erfitt að skilja að skólastjórn skyldi ekki sjá sóma sinn í því að koma í veg fyrir þessa uppákomu.
-Takk fyrir
Kvennablaðið hefur fjallað áður um eineltismál í Grindavík og vöktu greinar Daníels Árnasonar, Harlembörn og Ræsisrottur og Einelti í Grindavík sem Brynhildur Ólafsdóttir skrifaði mikla athygli. Bæði Daníel og Brynhildur lýsa í greinunum kynnum sínum af umræddum kennara en þau voru nemendur hans fyrir margt löngu síðan.