Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Samkynhneigður í sátt við Guð

$
0
0

Jensen Clifford er ungur samkynhneigður maður sem er fæddur inn í mormónafjölskyldu. Clifford segir hér Kvennablaðinu sögu sína en hann afréð að gangast undir kynhneigðarmeðferð í þeirri von að hann gæti orðið samkynhneigður. 

Fjölskyldan, fyrstu skrefin og viðbrögðin

Ég var farinn að átta mig á hvað væri í gangi þegar ég var þrettán ára. Ég var dauðhræddur um að einhver myndi komast að því og sagði sjálfum mér að ef ég væri fullkominn þá myndi enginn þurfa að vita neitt. Kannski, ef ég hagaði mér óaðfinnanlega, gæti ég unnið mér inn fyrirgefningu, þegar sá dagur rynni upp að ég þyrfti að valda öllum vonbrigðum í fjölskyldunni og segja þeim að ég væri samkynhneigður. Og svona nákvæmlega hagaði ég mér.  Ég var góður og hjálpsamur, reyndi að vera fullkomni sonurinn, reyndi að vinna mér inn ósýnileg vildarstig svo þau myndu fyrirgefa mér og að ég yrði áfram velkominn á heimilinu þegar að því kæmi að ég segði þeim að ég væri hommi.

Þegar ég var 18 ára var ég orðinn graður og forvitinn um hvernig það væri að vera með manni. Ég fór smám saman að prófa mig áfram í kynlífi en þótt það þyki ekki tiltökumál fyrir fólk á þeim aldri þá fylgdi því hjá mér bæði ofát og gríðarlegt samviskubit. Ég horfði stöðugt í kringum mig til að athuga hvort að mennirnir sem ég hafði sofið hjá væru nálægt mér. Þótt það hafi verið frekar auðvelt að fela sig þar sem ég bjó í Phoenix á Arizona-svæðinu, þá yfirgaf óttinn og kvíðinn mig samt hvergi.

Það er best að ég segi ykkur að ég er mormóni og meðlimur í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu.

Daginn sem ég varð 19 ára vissi ég að að það var orðið tímabært fyrir mig, líkt og aðra mormónastráka, að sinna trúboðsskyldunni. En ég hafði stundað kynlíf og þess vegna vissi ég að ég var vanhæfur til trúboðsstarfa. Ef þú hefur stundað kynlíf þá ertu ekki hæfur til að stunda trúboð og sumir hljóta eilífa útskúfun af þeim sökum.

Ég gat ekki logið, ekki lengur. Mér fannst trúboðsstarfið mikilvægt og heilagt. Einstakt tækifæri fyrir efnilega unga menn til þess að endurgjalda það sem þeir höfðu sjálfir þegið. Ég var næstum búinn að fara í gegnum umsóknarferlið og alla pappírsvinnuna sem fylgir því að ganga í her Drottins þegar ég hreinlega gafst upp. Ég varð að vera hreinskilinn, ég gat ekki meira, ég varð að segja foreldrum mínum frá líðan minni.

Ég hef aldrei á ævi minni verið jafn skelfingu lostinn. Ég man eftir að hafa spurt þau „munuð þið alltaf elska mig?“ Foreldrar mínir voru í áfalli yfir því að ég efaðist um ást þeirra. Ég sagði því næst „ég er samkynhneigður“.
Pabbi rétti fram faðm sinn og sagði „komdu hingað“ og hélt utan um mig á meðan ég snökti. Hann hélt utan um mig eins og svo oft áður, en það var langt síðan ég hafði grátið í faðmi hans. Mamma var þögul að því er virtist í heila eilífð, en að lokum sagði hún „ég hafði ekki hugmynd…“. Ég mun aldrei gleyma næstu orðum föður míns, „… er það virkilega? Ég vissi þetta, Jensen“. Ég fór að hlæja, þetta var einmitt það sem ég þurfti að heyra.

Þriggja ára kostnaðarsöm kynhneigðarmeðferð hefst

Öllum í fjölskyldunni var ljóst að trúboð ætti ekki fyrir mér að liggja. Við yrðum að tala við biskupinn okkar og láta hann vita hvað væri að gerast. Við töluðum við hann og sögðum honum frá og hann hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gera því ég var fyrsta tilfellið sem hann hafði fengið inn á borð til sín. Hann spurði yfirboðara sinn ráða og sá sagðist þá vita af meðferð fyrir þá sem „laðast að sama kyni“ sem „leiðrétti kynhneigð þeirra“. Við ákváðum að láta reyna á þessa meðferð.

Ég grét í gegnum allan fyrsta tímann, ég var í rusli. Í fyrstu tímunum var útskýrt fyrir mér á hverju kenning þeirra um samkynhneigð var byggð. Kenningin gengur út á það að það sé drengjum mikilvægt að umgangast aðra drengi og tengjast þeim sterkum böndum strax í æsku. Strákar þurfa að ganga í gegnum það að bindast böndum gegn stúlkum þ.e. að vilja ekki leika við stelpur og stofna strákaklíkur sem ekki er óalgengt fyrir drengi þegar þeir eru litlir. Þegar svo komið er á kynþroskaskeið er þörfinni fyrir samkipti við sama kyn fullnægt og þá eðlilega byrja þeir að laðast að aðila af gagnstæðu kyni. Þannig að ef þú ferð á mis við það að tengjast börnum af sama kyni á unga aldri hvort sem það er vegna misnotkunar, útskúfunar eða skorts á leikfélögum af sama kyni þá áttu það á hættu þegar kynþroskaskeiðið brestur á að verða samkynhneigður.

Þessi kenning virtist eiga fullkomlega við mig. Ég átti aldrei nána vini af sama kyni þegar ég var að alast upp, ég lenti í líkamlegu ofbeldi frá unga aldri og leið almennt aldrei eins og ég væri einn af strákunum. Í meðferðinni var einblínt á að mynda þessi sterku gagnkynhneigðu tengsl og að vinna úr þeim þáttum sem höfðu angrað mig frá þeim í gegnum tíðina. Ég eyddi svo mörgum árum ævi minnar í að koma í veg fyrir að þessar öfugsnúnu tilfinningar brytust út að þegar það gerðist þá voru það sprengingar, hávaðasamar, dramatískar og snöggar. Síðan tók aftur við raunveruleikinn eins og ekkert hefði í skorist. Ég vissi í rauninni ekki hvernig ég ætti að hegða mér eins og manneskja.

Ég byrjaði að stunda reglulega meðferð. Ég fór í einstaklingsmeðferð, hópmeðferð og meira að segja í sérstakar helgarmeðferðir. Við ræddum öll svið lífs okkar og þurftum að vera hreinskilnir þegar við „misstum stjórnina“. Að missa stjórnina þýddi að stunda kynferðislegar athafnir með aðila af sama kyni, öll notkun kláms eða sjálfsfróun út frá samkynhneigðum órum. Við þurftum að vera fullkomlega opnir og heiðarlegir, við máttum ekki eiga nein leyndarmál. Ég kynntist mörgum af sterkustu og ótrúlegustu karlmönnum sem ég hef hitt í gegnum þetta ferli. Ég var í leiðréttingarmeðferðinni í næstum 3 ár. En þrátt fyrir að meðferðin hafi kostað 20 þúsund dollara hafði hún ekki þau áhrif að ég laðaðist af aðilum af gagnstæðu kyni að henni lokinni.

Að nýta sér meðferðina gekk ekki alltaf sem skyldi

Ég fór loks burt í háskóla þegar ég var 21 árs og ákvað, líkt og margir af mönnunum úr meðferðinni, að reyna að notfæra mér aðferðirnar sem ég hafði lært í daglegu lífi. Ég átti tvisvar í 2 vikna sambandi við konur og þótt það hafi verið gaman að haldast í hendur og kela þá fann ég aldrei fyrir löngun til þess að ganga lengra.

Að lokum kláraði ég skólann og fluttist aftur á Phoenix-svæðið. Þá, og líka meðan ég var í meðferðinni og náminu, kom fyrir að ég missti stjórnina. Það átti sér yfirleitt stað á stöðum sem ég hafði heyrt af í meðferðinni sem er fyndið út af fyrir sig og á spjallsvæðum sem ég hafði áður notað. Þetta var alltaf gert undir nafnleynd og ég var dauðskelkaður um að einhver myndi komast að þessu. Í kjölfarið tók svo aftur við ofát og hyldýpi sektartilfinninga. Uppáhaldssagan mín var sú að ég héti Daniel, væri nýnemi við Háskólann í Arizona og þyrfti að fara til Phoenix reglulega til að stunda rannsóknarvinnu tengda skólanum.

Líf mitt stjórnaðist af lygum. Ég vildi ekki vera ég, ég vildi ekki vera til. Ég óskaði þess þegar ég sofnaði á kvöldin að ég myndi ekki vakna aftur og hugsaði um að sviðsetja dauða minn eða jafnvel strjúka. Ég þurfti að losna við sjálfan mig svo ég gæti verið einhver annar.

Á endanum flutti ég til New York vegna ferilsins og hélt að flutningurinn myndi hafa góð áhrif og fylla í þetta hyldýpi sem ég fann fyrir en það gerðist ekki. Ég var enn þá alltof hræddur til þess að vera samkynhneigður. Ég fór ekki á stefnumót og hélt mig frá börum og klúbbum af ótta við að einhver myndi bera kennsl á mig. Ég var hinum megin í landinu og þekkti ekki sálu en ég var samt dauðhræddur við að vera gómaður.

Ástin knýr að dyrum

Sex mánuðum eftir flutninginn leiddist mér og ég var graður, ekki í leit að kynlífi, en vantaði spennulosun. Þá rakst ég á auglýsingu á Craigslist sem kveikti áhuga minn en þar var maður að selja nærföt og önnur föt. Tilhugsunin um að róta í nærfatnaði ókunnugs manns hljómaði eins og eitthvað sem mig vantaði svo við ákváðum að eiga fund í íbúð hans í efri vesturhluta Manhattan. Það var tekið fram að fundurinn væri ekki kynferðislegs eðlis, heldur bundinn við viðskipti. Ég mæti á svæðið og gullfallegur maður opnaði fyrir mér, hann var ómótstæðilegur. Þegar ég fór að skoða fötin og velja það sem mig langaði í byrjuðum við að tala og daðra og innan skamms hafði reglan um „einungis viðskipti“ fokið út í veður og vind. Ég tók saman dótið mitt og fór.

Þegar ég var að fara fékk ég yfirþyrmandi löngun til þess að senda honum skilaboð og láta hann vita að ég hefði áhuga á að hitta hann aftur. Þetta hafði aldrei gerst áður. Mér brá svo við þessa tilfinningu en ég vissi að ég þyrfti að fylgja henni eftir. Hann svaraði skilaboðunum og sagðist líka vilja hitta mig aftur en að hann gæti það ekki næstu vikurnar vegna þess að hann væri að fara í vinnuferðalag daginn eftir. Við töluðum saman í gegnum síma og skilaboð allan tímann sem hann var í burtu. Á endanum kom til tals að ég væri ekki kominn út úr skápnum. Ég skynjaði að það var strembið fyrir hann að samþykkja það en mér leið einfaldlega ekki vel með það enn sem komið var. Það að ég þurfti stöðugt að líta um öxl þegar við vorum saman meðal almennings kom, eðlilega, í veg fyrir að við gætum átt í innilegu sambandi. Þetta var þvingandi og það kom að því að við þurftum að hvíla sambandið um hríð.

Sáttin við Guð og sambandsslit

Á meðan sambandshvíldinni stóð komst ég yfir myndband sem vinur minn hafði sett á facebook. Myndbandið var af háskólanemendum að segja frá því þegar þau komu út úr skápnum. Ég var uppnuminn. Ég fann fyrir yl í hjartanu og vissi að ég þyrfti að biðja. Svo það sé á hreinu þá hafði ég ítrekað beðið almættið um hjálp í gegnum árin. Ég hafði grátbeðið Guð um að laga mig, lækna mig, að taka burtu þessar kenndir og gera mig fullkominn. En í þetta skiptið þá bað ég um nokkuð sem ég hafði aldrei gert fyrr. Ég þakkaði Guði fyrir gjöfina sem var sú að finna fyrir ást gagnvart annarri manneskju, jafnvel þótt manneskjan væri karlkyns. Ég þakkaði Guði fyrir samkynhneigð mína. Friðurinn, ástin og sáttin sem flæddi yfir mig var næstum yfirþyrmandi. Ég grét og grét. Í fy rsta skiptið leið mér eins og ég væri heill, mér fannst ég elskaður. Ég þurfti ekki ennþá að notast við myndlíkingar til þess að lýsa hneigð minni og gerði mér grein fyrir því að mér gæti hlotnast hvorutveggja, ástríkt samband sem væri jafnframt viðurkennt í augum Guðs. Þetta kvöld breytti lífi mínu.

Ég vissi á þessari stundu að ég þarfnaðist ekki frekari viðurkenningar. Það var í góðu lagi mín vegna og Guðs og það var það eina sem skipti máli. Ég hringdi í foreldra mína daginn eftir og sagði þeim frá því sem ég hafði upplifað. Ég var smá kvíðinn og óviss um viðbrögð þeirra þegar ég hringdi og lét þau vita að ég væri kominn út úr skápnum og ætlaði óhikað að þreifa fyrir mér. Mér þykir enn þann dag í dag vænt um viðbrögð foreldra minna sem sögðust hafa beðið eftir þessu símtali í sjö ár. Þau voru stolt af mér fyrir að hafa komist að þessari niðurstöðu upp á eigin spýtur.

Ég byrjaði að segja vinum og vandamönnum frá og viðbrögðin sem ég fékk voru ekkert nema elskuleg. Sumir þurftu að grínast með þetta, aðrir létu hlý orð falla en á endanum virtust allir hafa vitað þetta og öllum var sama. Ég lét manninn sem ég hafði verið að hitta vita stöðu mála og við ákváðum að hittast þegar hann kæmi aftur úr fyrirhugaðri viðskiptaferð. Þá stakk ég upp á að við myndum byrja upp á nýtt og sjá hvernig hlutirnir þróuðust og ég var yfir mig spenntur að fara í þetta af alvöru. Við vorum báðir uppteknir þá helgi og hann sagðist mundu svara mér þegar við hittumst aftur. Ég var handviss um að svarið yrði já svo ég sagði foreldrum mínum frá sambandinu í gegnum Skype við nokkuð góðar undirtektir. Pabbi var ráðvilltur á svipinn og mamma sagði að „þetta væri frekar skrítið“. Ég svaraði að þetta væri vissulega skrítið og myndi taka smá tíma, vitandi að þau þyrftu tíma til að meðtaka upplýsingarnar en viðbrögðin voru almennt góð og þau voru spennt fyrir því að hitta hann.

Á mánudeginum svaraði hann ekki skilaboðunum frá mér og sagðist vera önnum kafinn. Á þriðjudeginum vildi hann hitta mig í hádegishléinu sínu. Þegar hann fór undan koss mínum í flæmingi fann ég á mér að eitthvað var að. Við gengum um Central Park og settumst niður og þá sagði hann mér að hann hefði kynnst öðrum manni um helgina.
Ég ákvað að þetta væri ekki stundin til þess að segja honum frá samtalinu sem ég hafði átt við foreldra mína. Hann sagði að sér liði hræðilega og ég man eftir að hafa hugsað til þess að hann fengi huggun í örmum annars manns á meðan ég svæfi aleinn. Já, aleinn var nákvæmlega orðið sem lýsti líðan minni þá stundina. Ég minnist þess að fara aftur til vinnu og biðja við skrifborðið. Ég bað um frið og ást og vissi að ég þyrfti að vera þakklátur fyrir reynsluna. Þetta var erfiðasta bæn sem ég hef nokkurn tímann farið með. Restin af mánuðinum er í móðu, ég man raunverulega ekkert hvað gerðist í maí 2012.

Ég er sterkur samkynhneigður maður

Eftir því sem tímanum leið varð ég fær um að fyrirgefa bæði manninum sem yfirgaf mig og manninum sem ég var yfirgefinn vegna. Ég lærði að til þess að öðlast sjálfsvirðingu þá þyrfti ég að vera meðvitaður um það að þeir sem særa þig eru einungis að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hugsa um sjálfa sig. Þetta var ekki persónuleg árás gagnvart mér, hann þurfti að hugsa um sjálfan sig eins vel og hann gat og ég var saklaus áhorfandi. Ég bið fyrir sambandi þeirra tveggja en án þess væri ég ekki sá maður sem ég er í dag. Sá vöxtur og þroski sem ég öðlaðist á þessu tímabili var lygilegur. Ég reisti mig við, leit yfir brotin, setti þau saman og skoðaði hvert og eitt þeirra.

Núna er ég fær um að vera sá sem mig hefur alltaf langað til að vera. Ég hef horfst í augu við sannleikann og ég er sterkur samkynhneigður maður. Ég hef þurft að kljást við ótal hindranir og sigrast á þeim. Ég er stoltur af því að segja hvað ég heiti og ég þrái að lifa mínu eigin lífi. Þegar þú færð tækifæri til þess að reiða þig eingöngu á Guð þá lærirðu svo margt um sjálfan þig. Ég komst að því að ég er sterkur maður sem vill svo til að er bæði samkynhneigður og mormóni. Ég á fjölskyldu og vini sem elska mig skilyrðislaust. Einn daginn mun ég svo vonandi kynnast ótrúlegasta manni veraldarsögunnar sem hefur, líkt og ég, undirbúið sig undir fund okkar allt sitt líf. Við munum eyða ævinni saman. Áður hefði ekki hvarflað að mér að ég myndi láta út úr mér þessa setningu en núna er ég fullur eftirvæntingar. Ég get ekki beðið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283