Til eru nokkur gömul málverk sem sýna Maríu mey að prjóna. Þessi málverk eru fyrst og fremst merkileg heimild um að prjón hafi þekkst á dögum málaranna og á þeirra heimaslóðum. En auðvitað eru þau líka heimild um kyrtilinn saumlausa sem Jesús gekk í nær alla sína ævi og að mamma hans hafi prjónað þann merkilega kyrtil.
Þetta er líklega frægasta myndin af prjónandi Maríu mey. Málverkið er hluti af Buxtehude-altaristöflunni svokölluðu (af því hún var máluð fyrir benediktsnunnur í Buxtehude, Þýskalandi). Meistari Bertram af Minden, þýskur málari sem uppi var 1345-1415, málaði Buxtehude-altaristöfluna líklega skömmu fyrir aldamótin 1400. Þessi hluti altaristöflunnar er oft nefndur „Heimsókn englanna‟ enda sjást þeir Mikael og Gabríel erkienglar heimsækja mæðginin Maríu og Jesú, berandi tákn sem boða krossfestinguna.
María er að ljúka við kyrtilinn saumlausa. Hún prjónar hann í hring á fjóra prjóna og virðist vera hringúrtaka á berustykkinu.
Listmálarinn Ambrogio Lorenzetti bjó í Siena á Ítalíu. Talið er að hann hafi látist árið 1348 þegar svartidauði geisaði í borginni. Þetta málverk hans tilheyrir myndastíl sem kallaður hefur verið Madonna auðmýktarinnar, Madonna dell’Umilitá. Á slíkum myndum situr María mey ekki í hásæti heldur á gólfinu. Talið er að Lorenzetti hafi málað þessa mynd skömmu fyrir dauða sinn, um 1345.
María prjónar úr rauðu garni með fjórum prjónum í hring en ómögulegt er að sjá hvað hún er að prjóna. Garninu bregður hún yfir hægri vísifingur. Á gólfinu sést hringlaga tréstykki með garnspólum í ýmsum litum. Jósef situr verklaus hjá mæðginunum.
Á þessari mynd er María að vinna að kyrtlinum saumlausa en nú prjónar hún ekki heldur nálbregður, sem sýnir að henni var margt til lista lagt þegar kom að hannyrðum. Raunar er þetta alls ekki hefðbundið verklag við nálbragð/vattarsaum en hefur verið skýrt sem svo að listamaðurinn hafi ekki vitað betur. Myndin er hluti koparstungunnar Heilaga fjölskyldan, eftir Veit Stoß/Stoss (einnig þekktur sem Wit Stwosz ) sem uppi var 1447-1533. Hann var þýskur en starfaði um tíma í Póllandi. Koparstungan er talin frá um 1480.
Fleiri myndir af prjónaskap Maríu meyjar má sjá á bloggfærslunni María mey prjónar.